Ahwaz til Khorramabad

Nú vorum við komnir á láglendi og þó við ækjum yfir einhver fjöll, fórum við aldrei yfir 500 m. Hitinn var skaplegur, náði aldrei sömu hæðum og í gær. Á þessari leið okkar frá Ahwaz til Khorramabad liggur bærinn Shushtar, en þar er afar merkileg stífla í Karún ánni, Band-E Kaisar, sem byggð var á þriðju öld. Á þeim tíma var hér ríki Sassaníu og keisari þeirra var Shapur I. Hann vann hér orrustur í stríði við Valerían Rómarkeisara, tók hermenn keisarans til fanga og notaði þá til að byggja þessa brú og stíflu, enda vanir slíkum framkvæmdum hjá fyrri húsbændum.

Svæðið fyrir neðan Band-E Kaisar stífluna

Þetta mun vera austasta brú sem byggð var af Rómverjum. Stíflan er um 500 m löng og var ekki aðeins ætlað að nýtast til mikilla áveitukanala, heldur var vatnið einnig notað til að knýja fjölda kornmylla. Eðlilega er þetta svæði allt undir minjavernd Unesco, en þar á bæ var það sagt vera „meistaraleg sköpunarsnilld“.

Á meðan við vorum að skoða svæði stíflunnar var þar enginn annar ferðamaður, þar til leiðsögukona ein kom með tvær brasilískar dömur. Gamli maðurinn, eftirlaunaþegi sem hefur það fyrir hobbý að fara yfir svæðið með ferðamönnum, var byrjaður að segja okkur frá svæðinu, en bætti nú nýkomnum dömunum í hópinn og rölti með okkur, sýndi okkur og sagði frá á sinni bjöguðu ensku sem Suður-Ameríku dömurnar skildu ekki.

Leiðsögumaðurinn um stífluna og mannvirki henni tengd

Svo fór hann með okkur inn í sitt litla kamers þar sem hann sagði okkur fleira, en önnur þeirra brasilísku hafði meiri áhuga á að fá hjá samferðungnum WhatsApp (netsímanúmer) númerið hans, sem hann er afar tregur til að láta. Held að hún hafi fengið númerið hjá Hreyfli.

Sú brasilíska vildi ná tengslum við Íslendinginn

Þetta er frekar algengt hér bæði hjá ferðamönnum sem maður lendir á spjalli við og einstaka heimamönnum, að skiptast á WhatsApp númerum. Þegar við höfðum kvatt gamla manninn, vildu dömurnar fá að sjá hjólin okkar og voru að sjálfsögðu teknar þar fjöldi mynda.

Það var skemmtilegt að aka hálendisvegina um fjöll og dali

Restin af leiðinni til Khorramabad var þægilegur akstur og stefndum við beint á gistingu sem okkur var sagt að væri sú bestu í bænum. Þegar við höfðum greitt fyrir hótelið, sem jafnan er gert við innritun, vorum við báðir orðnir blankir, þ.e.a.s. af írönskum ríölum. Nú vorum við komnir á svæði þar sem hótelið hvorki tekur við greiðslu í erlendri mynt, né er í standi til að skipta slíku yfir í landsmyntina. Elskuleg stúlkan í gestamóttökunni upplýsti okkur um að víxlarastofan í bænum opnaði kl 10  í fyrramálið. Á rölti okkar um aðalgötu bæjarins hverfur samferðungurinn skyndilega inn í skartgripaverslun, og viti menn, auðvitað skipta þeir aurnum fyrir okkur, meira að segja á heldur betra gengi en við höfum oftast fengið. Það er sem ég segi, radíóvirkinn hefur nef fyrir hlutunum, ævinlega búinn að leysa mál áður en aðrir átta sig á hvernig þau snúa.

Tókum kvöldskattinn á „ítalska“ veitingastaðnum Verona, gegnt gistihúsinu okkar. Þar gaf sig á tal við okkur bandarískur Írani. Hafði ungur farið vestur til náms, ílendst og orðið Ameríkani. Hann átti hér fjölskyldu og var fyrst og fremst að heimsækja aldraða móður. Hann sagði að ánægjan af hingaðkomunum væri blendin, því það eina sem hann heyrði hjá sínu fólki væru kvartanir og hann gerði sér alveg grein fyrir að þær væru sannarlega ekki ástæðulausar. Bróðir hans á tvö börn og það er handleggur að koma þeim til mennta á laununum sem menn búa hér við. Jafnfram benti hann okkur á að þegar við förum með fjölskylduna út að borða, förum við á veitingahús, en hér er farið í pikknikk á teppi í almenningsgarði eða á umferðaeyju. Fyrir meiru duga laun almennings ekki. Ótrúlegt hvernig stjórnmálamenn geta haldið heilli þjóð í gíslingu fátæktar í einu ríkasta landi heims. Eknir 350 km.