Besta kaffið til þessa

Besta kaffi sem ég hef fengið í ferðinni til þessa, hérna hjá Park Inn Radisson í morgunverðarhlaðborðinu. Stórir fantar, lét renna í krúsina americano og svo double espresso út í. Loksins kaffi sem bragð er að. Ljómandi árbítur, pakkað og haldið af stað. Stefnan sett á Slóvakíu, yfir Tatrafjöllin sem liggja á landamærum Póllands og Slóvakíu og síðan raunar bara áfram í gegnum þennan eystri hluta gömlu Tékkóslóvakíu og niður í Ungverjaland.

Náttúran á leiðinni kom skemmtilega á óvart. Þarna syðst í Póllandi og áfram yfir landamærin var eins og maður væri kominn í Alpana, snotur þorp með fallegum húsum og vel hirtum görðum, smáhótel og veitingastaðir hvert sem litið var. Ljóst að þarna eru mikil skíða- og útivistarsvæði. Fjöll og dalir, hæðir og ásar, vistlegar byggðir, kýr í haga og geitur á beit, allt gladdi þetta augað á yfirreið okkar um þenna hluta Evrópu, sem við upplifðum báðir nú í fyrsta sinn.

Ákváðum að ferðast heldur austan við helstu hraðbrautir sem varð til þess að eknir voru endalausir fjallvegir, mjóir, brattir og bugðóttir og víða hafði malbikið séð sinn fífil fegurri. Radíóvirkinn er eins og fiskur í vatni í þessum aðstæðum, en sjálfur þarf ég að hafa mig allan við til að fylgja honum eftir. Fengum okkur miðdegishressingu í Vysoke Tatry, smábæ einhvers staðar þarna fjöllunum í miðri Slóvakíu. Þjónustustúlkurnar minntu svolítið á staðalímynd af Alpastúlkum með flétturnar sínar.

Þegar eknar eru svona krókaleiðir næst ekki að leggja miklar vegalengdir að baki. Renndum inn á hótel Viktoria um hálfsjöleitið, báðir frekar dasaðir en sælir með yfirreið dagsins. Eknir 357 km.