Íran kvatt

Nóttin var ekkert sérstaklega notaleg hjá mótorhjólamanninum mikla í Urmia. Í þetta sinn gistum við í húsinu hans sem er eins konar vandaður sumarbústaður rétt utan við bæinn. Gestaherbergið er með tveimur kojustæðum, þannig að nú náðum við báðir að sofa í neðri koju. Um tvöleytið um nóttina vakna ég skjálfandi af kulda, því þarna verður vel kalt á næturna og allt óeinangrað, sem er svo sem sök sér, hefði maður haft eitthvað betra en örþunnt filtteppi yfir sér. Fór í þær flíkur sem til staðar voru og vafði svo bleðlinum utan um mig til að reyna að ná aðeins meiri svefni. Þegar ég kom svo fram, sefur þá ekki húsbóndinn þar í sófa í hlýrri stofunni, með stærðar gasofn á fullu, greinilega of kalt fyrir hann í herberginu sínu, á meðan gestirnir máttu hýrast skjóllitlir í ísskápnum. Ekki mjög öflugur vert þessi drengur.

Kappinn þessi hefur það að atvinnu að hjálpa ferðamönnum sem koma akandi til Írans, að komast í gegnum pappírsþvarg landamæranna og virðist lifa nokkuð góðu lífi á þessari starfsemi. Í okkar tilfelli, gátum við keypt hjá honum þjónustu varðandi „Carnet“ pappírana, eins konar trygging sem sum lönd krefjast, komir þú með vélknúið farartæki inn í landið. Þar kann hann til verka og gekk allt snurðulaust fyrir sig á landamærunum, jafnt á leið inn í landið sem út úr því aftur og eru satt að segja mikil verðmæti í slíkri þjónustu á svona stöðum.

Okkar maður í landamærastússinu

Hann er mikill töffari þessi piltur, með gullkeðju um hálsinn, gullkeðjuarmband um úlnliðinn og stærra úr á handleggnum en ég hef áður séð. Þegar ég spurði hann um stóra mótorhjólið hans, en hann á nokkur, hvernig hann gæti ekið um á 1.000 kúbika hjóli þegar ekki eru leyfð stærri hjól en 250 kúbika í landinu, þá fékk ég að vita að hjólinu var smyglað inn frá Kúvæt og væri hvorki skráð, með númersplötu, né tryggt. Pilturinn er rosalegur ökuþór, jafnt á bíl sem hjóli og á þessu hjóli í umferðinni treystir hann alfarið á afl tækisins til að hverfa hratt af vettvangi, verði vart við lögreglu í nánd. Hann sagði að mesta hættan væri þegar hann fyllir hjólið á bensínstöð, að lögregluna gæti óvænt borið að. Það skýrir sennilega brúsana sem við sáum heima hjá honum, öruggara að kaupa bara bensín á brúsa og fylla svo hjólið heima. Hann staðfesti líka það sem við höfðum heyrt frá öðrum áður, að lítið mál sé að verða sér úti um áfengi og jafnvel fíkniefni í þessu ágæta landi.

Að kveðja Íran tók ekki nema liðlega tvo tíma

Eftir að hafa kvatt Íran og farnir að aka um Tyrkland aftur, settum við stefnuna á bæinn Van við samnefnt vatn og voru þangað um 250 km, að hluta yfir háfjöll, vegurinn náði mest 2.850 m hæð.

Í 2.850 m hæð er víðsýnt vel

Þetta var afar skemmtileg leið, en mjög bugðóttir vegir og krefjandi, upp og niður fjöllin í endalausum krókum.

Skemmtilegar ökuleiðir í Tyrklandi

Nú ökum við snöggtum sunnar en á austurleiðinni og þar með nær landamærum Íraks og síðan Sýrlands. Ekki veit ég hvort það er þess vegna, en á dagleiðinni ókum við um einar sex eftirlitsstöðvar hersins, með vegaþrenginum og hraðahindrunum, fjölda þungvopnaðra hermanna og nokkrum bryndrekum á hverjum stað og vorum við stöðvaðir tvisvar og þurftum í annað skiptið að framvísa vegabréfi og sýna þeim ofan í töskur okkar. Auðvitað langaði mig að taka myndir þarna, en frammi fyrir þessum vígbúnaði áræddi ég ekki að fara fram á neitt slíkt. Ferðin gekk annars vel og fengum við inni á fínu gistihúsi við vatnið rétt utan við bæinn, en með lélegri matsölu. Eknir 310 km.

Margt gleður augað á langri för