Loftbelgir í Göreme

Vaknaði fyrir kl 6 í morgun í litla snotra hótelinu sem við fundum í Göreme, við hvæsið í loftbelgjunum sem svifu rétt ofan við húsþökin allt í kringum gistihúsið okkar. Hljóðið kemur af því að með stuttu millibili þarf að sprauta kröftugum gasloga inn í belginn til að hann haldi nægum hita, svo að blaðran haldist á lofti. Þekkti hljóðið frá því ég fór hangandi í svona belg með Kristjáni vini mínum, yfir fjöllin merkilegu í Guilin í Kína.

Loftför við sólarupprás

Ræsti radíóvirkjann og næstu klukkustund vorum við á þaki hótelsins við dagrenningu, njótandi þess að fylgjast með hartnær 100 belgjum svífa yfir bæinn og hið ólýsanlega landslag í bænum og umhverfis hann.

Kraðak á morgunhimni

Að afloknum dögurði gerðumst við túristar par excellence, fengum hótelið til að skrá okkur í útsýnisferð og vörðum deginum með öðrum ferðamönnum í að upplifa þennan kyngimagnaða stað.

Náttúruskúlptúrar

Segja má að engin orð fá lýst því sem fyrir augu ber, þeirri ævintýraveröld sem hvarvetna blasir við. Sandsteinninn hefur í árþúsundanna rás veðrast í hin ótrúlegustu form og hafa minni og stærri hólar verið notaðir sem híbýli manna með því að höggva inn í þá rými til dvalar, jafnvel á nokkrum hæðum í sama hólnum.

Nunnuklaustur í frumkristni

Einn dal heimsóttum við sem byggður var kristnu fólki frá 5 öld og fram á annað árþúsundið. Eru þar klaustur og kirkjur allmargar, sumar málaðar freskum að innan sem enn eru vel varðveittar.

Nokkuð þéttbýld á köflum

Af veikum mætti og lítilli kunnáttu reyndi maður að ná stemningunni á myndir og læt ég nokkrar fylgja hér, en mér færara fólk hefur hlaðið niður miklum fjölda mynda af svæðinu á netið.

Furðumyndir náttúrunnar

Eins og vænta má í Tyrklandi endar hver góð skoðunarferð í teppafabrikku. Slík heimsókn fylgir ákveðinni rútínu sem söm er hér og t.d. í Kína, þar sem nokkrar slíkar stofnanir voru heimsóttar á þeim árum sem þar var dvalið. Fyrst sérðu konu sitja við mikinn „vefstól“ eða öllu heldur „hnýtingarstól“ þar sem hún hnýtir teppið. Það er oftast hnýtt úr ull, bómull eða silki, eða jafnvel blöndu þessara efna og þú færð að vita hnútafjölda pr fersentimetra, sem er mjög breytilegur og hefur afgerandi áhrif á verð vörunnar. Því fleiri hnútar, því dýrara teppi. Svo er farið með þig í sal þar sem sýnishornum af mismundandi teppum er slengt á gólfið með heilmiklum tilþrifum og einu hringformuðu temmilega litlu, þeytt af mikilli kunnáttu í loftinu eftir endilöngum salnum, það heitir fljúgandi teppi. Á meðan á þessu stendur kemur einhver með te handa öllum og síðan er sýnt hve auðvelt er að brjóta teppin saman og koma þeim í tösku, sem þeir síðan sjá um að senda heim til þeirra sem kaupa vilja varninginn. Eitthvað sýndist mér afraksturinn vera rýr hjá teppasölunum, eftir heimsókn þess hóps sem við vorum hluti af.

Ekki málverk. Hnýtt „smáteppi“ til veggskreytingar

Um kvöldið rigndi með þrumum og eldingum, en við vonumst eftir góðu ferðaveðri á morgun. Höfðum keypt okkur belgsflug í fyrramálið, en ljóst var strax um kvöldið að ekki viðraði til slíkra flugferða morguninn eftir og fengum við því endurgreitt, hálfsúrir yfir að ná ekki þessu vinsæla ferðamannagimmiki. Látum því nægja að svífa á loftfari minninganna og halda áfram okkar för.