Persepolis

Saba vinkona okkar fræðir ferðalanginn um Persaveldi og þennan magnaða stað, Persepolis

Saba sótti okkur kl 8 og héldum við rakleitt til Persepolis sem er um 60 km utan við Shiraz. Þar eru miklar minjar á stóru svæði af „viðhafnar“– og hátíðahöfuðborg Akkamenída, sem sé hins forna keisaradæmis Persa sem stofnað var af Kýrusi mikla um 550 fyrir Krist. Eins og við sáum í gær byggði Kýrus borgina Pasargadae og þegar hann féll frá tók sonur hans við en ríkti fremur stutt, aðeins í 7 ár og tók þá Daríus, sem var tengdasonur Kýrusar, við stjórnartaumunum. Ríkið sem hann stjórnaði hringaði sig um botn miðjarðarhafs í vestri, frá Egyptalandi upp til Grikklands, Tyrkland allt og að Indusdal í austri. Þegar hann byggir Persepolis mun hann hafa hugsað borgina sem sameiningartákn allra þeirra þjóða sem undir ríki hans heyrðu og má sjá á lágmyndum fulltrúa allra þeirra þjóða.

Þó að Alexander mikli hafi brotið borgin undir sig og brennt, stendur eitthvað enn uppi
Fáeinar stórsúlur hafa staðist tímans tönn

Eftir að Daríus er allur tekur Xerxes sonur hans við að stjórna þessu víðfeðma ríki og heldur áfram að stækka þá metnaðarfullu borg sem faðir hans hafði byggt. Óperan Xerxes eftir Händel er lauslega byggð á sögu þessa mikla þjóðhöfðingja og þó hún sé sjaldnar flutt en margar aðrar óperur, þá er arían Ombra mai fu eitt af þekktari verkum klassískrar tónlistar, þó mest flutt sem orgelverkið Largo eftir þann mikla snilling barokktónlistar.

Það voru engar ýkjur hjá vini okkar Ali, hve fróð leiðsögukona og geðþekk Saba er

Saba, leiðsögukonan góða leiddi okkur í gegnum söguna þarna frá því um 6 öldum fyrir Krist þegar veldi Persa stóð í hvað mestum blóma, allt til þess að Alexander mikli kemur frá Grikklandi árið 330 f.Kr., hertekur landið og leggur Persepolis í rúst.

Borgarhliðið
Fátt var óskemmt eftir atlögu Alexanders mikla að borginni

Í fjallinu ofan við þessar miklu minjar eru stór grafhýsi tveggja afkomendar Daríusar, en skammt frá í öðrum hamravegg sem að borginni snýr eru fjögur grafhýsi, m.a. Daríusar og Xerxesar.

Minjar Perseplis og grafhýsið í baksýn, byggt inn í fjallið
Lágmyndir á veggjum sýna fulltrúa hinna mismundandi þjóða sem lutu stjórn Persa
Grafhýsi Daríusar II, Artaxerxar I og Daríusar I

Eftir að drukkið í okkur söguna og meðtekið mikilfengleik þeirrar borgar sem eitt sinn stóð á fallegum stað undir fjalli, fór Saba með okkur í ljúffengan íranskan miðdegisverð. Restinni af eftirmiðdeginum og kvöldinu vörðum við að mestu í miðbænum í Shiraz. Já, vel að merkja, Shiraz þrúgan þekkta sem ræktuð er til víngerðar víða um heim, er ættuð héðan, eins og nafnið gefur til kynna. Hjólin óhreyfð.