Enn á ný ökum við í sáralítilli umferð yfir ása og meðfram ám í botni þröngra dala, tökum aksturinn rólega því dagleiðin er stutt. Stoppum við bensínstöð þar sem tveir vélhjólamenn eru fyrir og tökum þá tali.
Þetta eru Hollendingarnir Bert og Johan sem eru á leið til Georgíu og Armeníu á gömlum Moto Guzzi hjólum, um 1988 módel, en Johan er bifvélavirki og kann hjólin utan að, greinilega búinn að breyta þeim mikið. Upphafleg plön þeirra voru að fara til Írans, en þar sem landið er enn formlega lokað stærri hjólum fóru þeir í fyrrverandi Sovíet lýðveldin í staðinn.
Stefndum á bæinn Erzurum sem er mikill skíðabær. Hér voru Asíuleikarnir í skíðaíþróttum haldnir 2011. Hótelið okkar er í tæplega 2.500 m hæð, liggur örlítið ofan við bæinn með flottu útsýni. Mjög fínt hótel, státar af því að vera það besta á svæðinu, en nú er rólegt og þeir virðast ekki leggja mikið upp úr matnum. Hélt mig hafa lesið einhvers staðar að í því væru fínir veitingastaðir og nokkri barir. Stór og fínn bar er hérna og stór veitingastaður, þar sem því miður fékkst aðeins matur úr hlaðborði, einstaklega óspennandi. Svolítið sérstakt, því við höfum einungis fengið sérdeilis góðan mat alla okkar Tyrklandsdvöl. Svona er nú það.
Á leiðinni upp að hóteli tók radíóvirkinn eftir þvottastöð og var komið þar við, eftir að við höfðum plantað okkur inn á hótelið og búnir að fá okkur hádegissnarl í bænum.
Það verður að segjast eins og er að þegar hjólin stóðu þarna hrein og þurr eftir þjónustu þvottakarlsins, þá hreinlega glaðnaði yfir samferðamanninum og áran varð öll bjartari, enda annálaður snyrtipinni. Þetta voru sem sé fyrstu alvöru þrifin frá því lagt var upp frá Síðumúlanum. Eknir 212 km