Um ferðalanginn

Undir lok síðustu aldar vann með mér ung kona Sigrún, en hennar maður Jón, vann í hjáverkum við að flytja inn notuð mótorhjól frá Bandaríkjunum. Einhvern tímann í miklum fyrirtækisgleðskap barst talið að þessari sýslan hans og mun hann hafa spurt mig svona í framhjáhlaupi hvort hann ætti ekki að taka eitt hjól handa mér. Þar sem ég er oft og tíðum fljótur að jánka „sniðugum“ hugmyndum svona að óathuguðu máli, játti ég þessari spurningu í einhverjum utanviðmigheitum. Síðan líður tíminn og þetta samtal var mér gleymt, sennilega strax frá næsta degi. Einhverjum vikum síðar lítur Jón við á kontórnum hjá mér og sýnir mér mynd af hjólinu mínu, Suzuki Intruder, 600 kúbíka hjóli sem mér fannst rosalega stórt þá. Á þessum tímapunkti var ekki um annað að ræða en taka bifhjólaprófið. Sat ég með 17 ára unglingum og rifjaði upp umferlögin, fór í gegnum skyndikúrs í skyndihjálp og fékk kennslu í akstri bifhjóls. Hafði aldrei haft neinn áhuga á þeim farartækjum, fannst þessir hröðu farskjótar ógnvekjandi og í hæsta máta óöruggir, ætlaðir djarfara fólki en mér og mínu klani. Engu að síður var ég þarna kominn með prófið og hjólið og ekki um annað að ræða en byrja að aka. Satt að segja hraus mér nú samt nokkur hugur við þessum ferðamáta, manninum komin á fimmtugsaldur og enginn sérstakur ævintýramaður í mér, meira fyrir öryggi en spennu. Því var aldrei farið í neinar langferðir á þessu ökutæki, heldur rúllað svona rólega um götur borgarinnar og út í nánasta umhverfi í jöðrum hennar. Gripurinn var svo seldur síðar án þess að hafa lent í neinum ævintýrum hjá þessum eiganda.

Löngu síðar gerist það að vinur minn Gunnar dísilvélavirki fer að ræða við mig um hvort ekki væri rétt að við keyptum okkur hjól í Ameríku og færum að hjóla þar. Eins og oft áður þegar svolítið fjarstæðukenndar hugmyndir ber á góma, jánka ég þessu og er jafnvel nokkuð spenntur fyrir slíku ferðalagi. Um þetta fabúlerum við Gunni fram og aftur þegar við hittumst. Svo gerist það eitt sinn þegar Gunni kemur heim frá fyrirtækisráðstefnu í USA, að hann hringir í mig segir mér að leggja inn á sig aur, hann sé búinn að fá félaga sinn vestra til að kaupa handa okkur tvö ný Harley hjól af stærri gerðinni. Nú varð ekki aftur snúið, heimur vélhjólaferðalaga var við sjóndeildarhringinn.