Samferðungurinnn varð fyrir vonbrigðum með bleiku moskuna fallegu hér í Shiraz, út af því hve hún var ekki nógu bleik að hans mati, einkum þar sem kominn er bleikur október.
Hún var fyrsti áfangastaður okkar í morgun og nutum við þess að skoða guðshúsið og fylgjast með öðrum gestum þess.
Í bænahúsinu sjálfu eru litglaðir steindir gluggar sem varpa marglita birtu inn í salinn og hefur kvenkynið yndi af því að láta taka af sér myndir í margvíslegum uppstillingum í birtu þessara glugga.
Ábúðarmikill siðgæðisvörður gekk um húsið og sá til þess að dömur í of stuttum fatnaði, t.d. pilsum sem náðu ekki nema niður á miðja kálfa, hyldu sig betur og afhenti þeim kufla, ekki svarta eins og algengast er, heldur smáblómótta, eins og sængurver. Slíkar yfirhafnir voru til þarna í ómældu magni.
Þaðan héldum við í lítinn en afar fallegan garð í námunda, Naranjestan og inn af honum var örlítið fornmunasafn, jafnframt kaffihús með ljómandi espresso.
Með hjálp ratarans komumst við síðan að virki miklu, Citadel, sem byggt var af Karim Khan fyrir hartnær 300 árum. Var þetta bústaður þess höfðingja, en er eins og margir slíkir, safn í dag.
Gáfum okkur góðan tíma þarna áður en við héldum í Eram garðinn, einstaklega fallegt og vistlegt útivistarsvæði, þar sem fjölskyldur breiddu undir sig teppi á grasinu og nutu blíðunnar.
Sjálfir vorum við á hæglætis randi eftir stígum garðsins og tylltum okkur í skugga. Fólk heilsar og reynir að skiptast við okkur á orðum og karl einn sem kemur þarna kann örfá orð í ensku og gefur sig á tal við samferðunginn. Með karli eru kona hans og sonur ásamt tengdadóttur og fer nú sonurinn að spyrja um okkar hagi, en hann réði yfir heldur meiri orðaforða en faðir hans. Höfðum við ánægju af þessum orðaskiptum. Svo býður karl okkur heim til sín í kvöldmat með þeim fjölskyldunni, en við afþökkum með miklu þakklæti og leggur þá karl nokkuð hart að okkur, virtist vera mikið í mun að fá að sýna útlendingunum gestrisni. En við vorum með önnur plön.
Hún Saba okkar hafði mælt með matsölunni Haft Khan til kvöldverðar. Okkur fannst sá staður frekar langt í burtu, einkum þar sem bílferðin neðan úr bæ heim á hótel í gærkvöldi gekk afar hægt. Vissum um annan ágætan veitingastað nær. Þegar við biðjum sætu stelpuna í gestamóttökunni að skrifa niður heimilisfangið á þeim stað, Kohan, mælir hún eindregið með að við förum frekar á stað sem heitir Haft Khan. Þó að þær séu nú báðar búnar að róma þessa ágætu matsölu, Saba og stúlkan í lobbíinu, héldum við við okkar keip og fengum adressuna á Kohan. Leigubílstjórinn, sem talar ágæta ensku, spyr hví við ætlum á Kohan, hann geti farið með okkur á annan stað miklu betri, Haft Khan. Þá létum við undan og sáum ekki eftir því.
Ljómandi matur og staðurinn allur frekar vestrænn, flottur og hreinn. Við gestamóttökuna á gistingunni okkar þegar við komum til baka, rekumst við á vinkonu okkar og leyndi hún ekki gleði sinni yfir því að við skyldum hafa kosið þennan fína stað til að matast á. Segist ávallt fara þangað á afmælisdaginn sinn. Hjólin óhreyfð, en vekja mikla athygli við aftari inngang hótelsins.