Oftar en ekki eru atburðir dagsins settir á netsíðuna á kvöldin eftir að samferðungurinn er sofnaður. Nennti því ekki í gærkvöldi, þannig að morguninn fór í þetta stúss, sem eflaust er fljótgert fyrir þá sem til verka kunna, en skrásetjari hér er tæknilegur fimbulfambari og því tekur allt sinn tíma. Komumst þó af stað um tíuleytið og eins títt er um þá sem hátt ná, lá okkar leið nú niður á við. Enn ökum við að mestu á afar fínum götum og liggur vegurinn yfirleitt í 1500 til 1800 m hæð. Sól og 18-25 stiga hiti, hjólin rúlla þægilega og áreynslulaust eftir þessum notalega bugðótta hálendisvegi.
Náttúran tekur á sig skemmtilegar myndir alveg við þjóðveginn, sem býður upp á myndatökur með litlu vasatölvunni. Fararbroddur fylgist vel með mér í baksýnisspeglinum og þegar ég hverf úr honum, veit hann að vinurinn hefur stoppað til myndatöku og býður nokkru framar.
Í dag gerðist þetta fáeinum sinnum og í einu tilfellinu kem ég að hjólinu hans í útskoti við veginn og fjárhirðar sem þarna voru í hádegsmat í móanum, búnir að bjóða honum í mat. Þeir tóku okkur fagnandi, settu undir okkur brekán þarna á foldinni og buðu til veislu.
Með matnum er drukkið te, sem reyndar er „drykkurinn“ hér um slóðir. T.d. er ávallt frítt te í boði á bensínstöðvum, úr stórum hitakatli sem stendur utandyra og sykurkar hjá. Það var eins hjá gestgjöfum okkar þarna á þúfunum og öðrum hérlendum, menn undrast ávallt þegar við afþökkum sykrið. Sýndist mér sykurmoladunkurinn vera eitt stærsta matarílát þessara fjárbænda. Orðaskipti áttu sér stað með táknmáli að hluta, en að sjálfsögðu hjálpaði gúgull í flóknari samræðum. Höfðum við af þessari samverustund mikla ánægju og virtist okkur þessir elskulegu karlar hafa ekki síðri skemmtan af nærveru okkar í miðdegisverðinum.
Þegar við ökum hjá bænum Agri, sem er næstsíðasti stærri bærinn á þessari þjóðleið til Írans, þá er vopnaður hervörður við veginn, sem stoppaði suma en hermennirnir, sem horfðu rannsakandi augum á okkur, veifuðu okkur áfram án frekari afskipta. Þegar nær dregur náttstað okkar, Dogubeyazit, liðlega 100þús manna bæ, blasir við hátt fjall með fallegum snækolli. Ég var búinn að sjá á korti að við ættum hér að vera nokkuð nálægt einu frægasta fjalli veraldar, en hausinn á mér tengdi samt ekki fyrr en ég sé á kortinu í símanum að þarna blasir við mér fjallið þar sem gamli Nói strandaði sínu fleyi fyrir margt löngu, 5.137 m hátt eldfjallið Ararat.
Ég les mér til um að þessi síðasti viðkomustaður okkar í Tyrklandi, hefur verið eins konar miðstöð útivistar- og fjallgöngufólks sem sótt hefur í fjallið, en eftir því sem ég kemst næst er það nú lokað íþróttafólkinu, herinn hefur lagt það undir sig.
Árið 2003 þegar ég keypti mér fyrsta BMW hjólið, K1200LT, fjárfesti ég líka í góðum hjólaskóm. Nú var rennilásinn í skónum orðinn svo stífur og erfiður að ég spáði í að kaupa mér nýja hjá BMW-Niederlassung í Istanbul. Tæknimaðurinn í túrnum taldi það óþarfi, smá olía gæti lagað ástandið. Mér hafði svo sem hugkvæmst þetta, en einhvern veginn ekki haft trú á að svo einföld aðgerð gæti gagnast. Falaðist ég eftir smá olíudropa á rennislásinn hjá þeim BMW mönnum, en slíkt vafðist eitthvað fyrir þeim, utan við hefðbundna verkferla. Held því áfram að eiga í þessari baráttu við lásana þegar ég klæðist og afklæðist skónum, þangað til skíðamaðurinn við hliðina á mér rifjar upp, að mamma sín hefði núið kertavaxi á rennilásana í skíðafatnaðinum ef þeir stirðnuðu hér á árum áður.
Þarna erum við staddir í bænum Erzincan og förum við rakleitt í næstu dagvöruverslun til að kaupa kerti. Þau fást ekki færri en 50 í pakka og þó þetta kosti ekki mikið telur radíóvirkinn mig á að rölta svolítið áfram og sjá hvort við finnum ekki smærri smásölueiningar. Tekur nú við hver húsgagnaverslunin af annarri og sé ég í uppstillingum m.a. kertastjaka. Förum inn og ég fæ gúgul til að spyrja afgreiðslufólkið hvort hægt sé að fá keypt eitt svona tekerti eins og þarna var. Alúðleg brostu þau og létu mig hafa kertið endurgjaldslaust, það tæki ekki að greiða fyrir svona smotterí. Og til að gera langa sögu stutta, þá rauð ég þessu mjúka ilmkerti á rennilásana og skórnir eru sem nýir. Hugsa ávallt hlýlega til mömmu hans Gumma þegar ég klæðist skónum og lásarnir opnast og lokast við minnstu viðkomu. Eknir 279 km