Brottför verður varla fyrr en e.h., því fyrr yrði hjól radíóvirkjans ekki klárt hjá þjónustumiðstöð BMW. Því ákveð ég að setja óhreinan fatnað í þvott á Lotte Palace hótelinu. Hef haft nóg af sokkum, nærfötum og bolum til skiptanna (og skolað úr þessum fatnaði ef svo bar undir), en buxurnar hafa allnokkrum sinnum verið gegnsósa af svita þegar mætt er áfangastað og engar aðrar með í för, utan þær sem ég skipti yfir í kvöldin þegar dagbrókin er hengd til þerris. Notalegt að fá flíkurnar tandurhreinar í morgun og meira að segja svolítil sótthreinsunarlykt af þeim. Ákveðinn munaður á svona ferð að klæðast hreinu.
Mættum til BMW laust fyrir hádegi og hófum ferli sem heitir „að doka“. Þegar spurt var eftir enskumælandi stúlkunni sem þjónustaði okkur svo lipurlega í gær, vorum við beðnir að bíða í 5 mín. Og svo leið tíminn. Á einhverjum tímapunkti löngu síðar náði radíóvirkinn sambandi við ungan mann sem talar fína ensku og var með alla hluti á hreinu. Pilturinn kom hjólinu hans í sitt ferli og við héldum áfram að doka. Ég minnti á uppfærsluna í tækinu mínu og það var hann með klárt á sinni könnu. Engar áhyggjur. Þegar við sjáum hjólið útvarpsvirkjans skila sér úr skoðuninni, stormar okkar maður að mínu hjóli til að sækja tækið til uppfærslu. Það er ferli sem tekur upp undir klukkustund. Ekki hafði þessum greindarlega pilti dottið í hug að láta uppfærsluna malla á meðan hitt hjólið var á verkstæðinu. Máttum við því doka enn um stund. Allt hafðist þetta að lokum og við rúlluðum í áttina suður til Efesus.
Umferðin í Istanbul er skelfileg. Bílarnir aka þétt upp að manni, reyna jafnvel að þrykkja manni úr sinni akrein, troðast utaní mann og þrengja sér fram fyrir mann, allt á svona 70 til 100 km hraða. Frá því að við lögðum af stað frá Bæjurunum vorum við í svona hryllings umferð eina 60-70 km þangað til við náðum að yfirgefa stórborgartraffíkina. Á leiðinni ókum við eina af voldugu brúnum yfir Bosborussund og fékk ég „velkominn til Asíu“ vink frá fararbroddinum þegar komið var yfir brúna. Skömmu síðar varð enn stærri brú á vegi okkar, Ozmangasi brúin yfir Marmarahafið, fjórða stærsta hengibrú veraldar, tæplega 2,7 km að lengd.
Létum staðar numið á Holiday Inn hóteli í borginni Bursa, en þá var farið að skyggja og við búnir að leggja að baki 248 km.