Shiraz er síðasti ákveðni áfangastaðurinn á ferð okkar um Íran. Nú var komið að vendipunkti hjá okkur, við höfum ekið eins langt suður kúluna og til stóð, þannig að hér var komið að því að snúa hjólunum við. Hugmyndin var að gera úr Íransakstrinum eins konar hringferð, fara til baka öllu vestar en við fórum suður og vera þá í fjöllunum sem teygja sig að hluta til í átt að Persaflóa og síðan Íraks. Algengt er að þeir sem fara þessa leið aki til Ahwaz og gisti þar. Okkur fannst þetta alllangt í einum spretti, einkum þar sem stór hluti leiðarinnar er ekinn á bugðóttum fjallvegum og ekki vorum við vissir um ástandið á malbikinu, þannig að hugmyndin var bara að aka eins langt og við nenntum og finna okkur gistingu. Reyndin varð samt sú að við ókum alla leið til Ahwaz, því aksturinn var þægilegur, þrátt fyrir fjallvegina, en við vorum mest í um 2.500 m hæð. Fararbroddurinn gerir sér grein fyrir aksturstakmörkunum ritara og er ávallt með plan b, sé dagleiðin í lengra lagi, sem hefur þó ekki verið nýtt til þessa.
Leiðin öll er gríðarlega falleg, liggur að miklu leyti um há fjöll og djúpa dali, stundum undir himinháum hamraveggjum, ýmist á aðra hlið eða í gegnum klofninga. Verst hve erfitt var oft að stoppa til myndatöku þar sem landslagið var hrikalegast og flottast. Þegar ofan úr fjöllunum var komið og við farnir að aka á láglendi, snarhækkaði hitinn og fór mest í 43 gráður. Í svona hita munar rosalega mikið um hverja gráðu, eins og menn þekkja í heitu pottunum í Neslauginni. Hærri hita höfum við ekki upplifað í þessari för, en gusturinn í andlitið á 100 km hraða er hættur að kæla, þetta er meira eins og að blása ásjónuna með hárþurrku.
Undir fjöllunum sáum við fjölda hreinsistöðva, veit satt að segja ekki hvort þetta eru olíuhreinsanir eða gasvinnslur. Alla vega voru þetta mikil bákn, með ógnarháum skorsteinum, þar sem feiknalegar eldtungurnar sleiktu himinn. Þó maður hafi séð eitthvað svipað þessu áður, var þetta ansi hreint magnað sjónarspil.
Talandi um gas, þá mun Íran vera það land sem býr yfir mesta gasforða heimsins. Þeir upplýstu okkur um það í matarboðinu um daginn, vinir Husseins, að Íran sé fimmta auðugasta land heimsins, með þennan gífurlega gasforða, ómældar olíulindir, góðmálma og eitthvað töldu þeir upp fleira.
Í Ahwaz fengum við lobbýdrengina á gistingunni okkar til að ráðleggja okkur matsölu fyrir kvöldið og mæltu þeir eindregið með Royal Park. Aftur vorum við komnir á einstaklega traustan stað sem stenst fyllilega samjöfnuð vestrænna veitingahúsa.
Maturinn var ljómandi, allt hér bæði nýtt og elegant og verðlag því í hærra lagi, dinnerinn lagði sig á um 1.600 kr á mann. Reyndar eru útgjöld til áfengiskaupa í lágmarki. Þarna gerðist það enn, að til okkar kemur hópur stúlkna, hvort þær megi taka af sér myndir með okkur útlendingunum, sem eins og fyrri daginn var auðsótt mál.
Reyndar er það svo að hvar sem við gerum hlé á akstrinum eru komnir ungir menn hlaupandi til að fá af sér mynd með mótorhjólunum og knöpum þeirra. Samferðungurinn hefur verið snöggtum duglegri en ritarinn að sinna þessari skyldu, enda miklu hæfari í að útskýra tæknileg ágæti hjólanna. Eknir 516 km