Tesekür

Þar sem búið var að spá regni á leiðinni sem við förum héðan, þótti okkur betra að verja deginum bara hér í bænum og leggjast yfir Íranskortið í símtækjunum okkar, því við höfum ekkert Íranskort í GPS tækjunum og virðist slíkt ekki vera fáanlegt.

Í gær fórum við á kaffihús og voru öll borð utandyra upptekin, en við eitt þeirra sat einsömul eldri kona þrifleg mjög og fengum við að tylla okkur hjá henni. Höfðum við ekkert af henni að segja nema stöku bros, þangað til ungt par kemur aðvífandi, greinilega til konunnar, sem trúlega hefur verið að bíða eftir þeim og settust þau hjá okkur við borðið glaðleg mjög. Einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að þeim hafi þótt skondið að koma að þeirri fullorðnu í félagsskap þessara myndarlegu útlendinga. Allavega tókum við öll tal saman á táknmáli, þar til unga daman dregur upp símann og spyr okkur að einu og öðru með hjálp þýðandans hjá gúgli. Þau hlógu mikið, svo við gerðum það bara líka og var þetta með öllu hin ánægjulegasta kaffihúsaheimsókn. Í upplýsingamiðlun hvors til annars við kaffiþamb og kökuát, komumst við að því að þessi eldri kona var ekki nema 45 ára og unga konan, dóttir hennar tvítug. Fengum jafnframt að heyra frá þeirri yngri, að þessum tyrknesku borðfélögum okkar þótti við bera aldur okkar vel.

Þarna áttaði ég mig allt í einu á þægindum þýðingarforritsins hjá þeim alvitra og hlóð því óðara niður í vasatölvuna þegar á hótelið var komið. Notaði það síðan óspart í samskiptum við fólk í dag. Lagði á mig að læra að segja takk á máli innfæddra, en ætlaði samt aldrei að geta munað árans orðið, tesekür. Ég hafði litla hjálp af radíóvirkjanum í að muna þetta eina orð, því þó að hann sé eins og alfræðibók í öllu sem snertir bíla, báta, vélhjól, flugvélar og tæki og tól af hinum ólíklegustu sviðum tækninnar og man bæði bílnúmer og símanúmer áratugi aftur í tímann, þá liggur tyrknesk málfræði ekki betur fyrir honum en mér. Áttaði mig svo á því að þetta orð er ekki ólíkt orðinu te-sekkur og þar með reyndist nokkuð auðvelt að muna það. Gerði ég að sjálfsögðu mikla lukku, þar sem ég náði að slá um mig með þessari nýtilkomnu getu minni. Svona getur maður nú verið snöggur að tileinka sér hina nýjustu tækni. Hjólin hvíld með öllu.