Teheran

Teheran í dögun

Hér í 17 milljóna manna borginni Teheran er eins og gefur að skilja margt að sjá og skoða. Vandinn er að umferðin í borginni er skelfileg og þegar við reyndum að fá hótelið til að finna handa okkur bílstjóra til dagsins, sem færi með okkur á valda staði, var svarið bæði frá starfsfólki gestamóttöku og ferðaskrifstofu, sem er með aðsetur á gistihúsinu, að best sé að ferðast um borgina á kvöldin, of mikil umferð á daginn. Þetta leiddi til þess að við fórum yfir fáeina af top 10 stöðunum sem mælt er með og ákváðum að sleppa þjóðminjasafninu, múslimska safninu, sem er samt mjög áhugavert, stóra basarnum, búnir að skoða þann í Istanbul tvisvar og ótal aðra svipaða, einnig merkilegum moskum. Settum þess í stað markið á tvær af mögnuðustu túrista attraksjónum í bænum, Golestan höll og safn þjóðargersema landsins sem varðveitt er í mikilli hvelfingu í höfuðstöðvum seðlabankans og vill svo vel til að þetta tvennt er í göngufæri hvort við annað. Bankinn sýnir fjársjóðina einungis frá tvö til hálffimm þrjá daga vikunnar og vorum við svo heppnir að vera á réttum degi.

Fagurlega skreyttur veggur Golestanhallar

Í þéttu kraðaki umferðarinnar er um klukkustundar akstur frá Parsian Esteghlal hótelinu, sem eitt sinn hýsti gistiþjónustu fyrir Hilton fjölskylduna, að Golestan höll sem var til afnota fyrir þjóðhöfðingja fyrri tíða.  Á miðöldum byggðu þeir þarna slot, en það sem nú stendur lét keisarinn Nasser al-Din byggja á árunum 1848-96, innblásinn af evrópskum höllum og kastölum. Síðustu keisarar notuðu húsakostinn fyrir opinbera viðburði og hápunktar þeirra voru krýningar tveggja þeirra sem síðast stjórnuðu. Eins og flestu miðaldra fólki er í fersku minni, hrökklaðist hinsti keisarinn frá völdum ´79. Og nú er húsið safn sem við nutum þessa að berja augum í fámenni og rólegheitum. Það er víst ekki mikið um erlenda ferðmenn hér í landi þessi missirin. Einn fremur fámennur hópur af Ítölum og annar álíka stór af Japönum var allt sem við rákumst á í þá veru.

Ekki væsir um betra fólkið hér
Snotur húsakynni
Hugguleg gestamóttaka

Á leiðinni í seðlabankann römbuðum við á litla huggulega restrasjón sem er vestrænni en aðrar þær, sem höfðu orðið á vegi okkar á þessari hálftíma gönguleið og losuðum við okkur þar við hádegishungrið. Biðröðin í seðalbankanum var stutt, en fólk þurfti að skilja eftir síma og myndavélar áður en því var hleypt í helgidóminn. Við fylgdum enskumælandi leiðsögumanni sem fór yfir helstu djásnin og sögu þeirra. Margt af því sem þarna er, á sér langa sögu, var fyrr á öldum rænt frá þjóðinni, tekið aftur sem herfang og meðal þess sem Indlandskeisari neyddist til að skila ásamt með miklum gersemum öðrum um miðja 18. öld, er 182 karata demanturinn Darya-ye Nur (haf ljóssins), sem sagður er vera stærsti óslípaði demantur heims. Annar frægur demantur var jafnframt hluti af gersemum þessarar þjóðar fyrr á öldum, en hann hefur þó lengi verið eitt af krúnudjásnum Breta, sennilega frægasti demantur heims, sjálfur Koh-i-Noor (fjall ljóssins). Ekki er hægt að sleppa því að nefna þrjá aðra stórkostlega hluti sem þarna eru varðveittir, 34 kg hnattlíkan sem þakið er 51.366 eðalsteinum, höf og vötn þakin emeröldum og land þakið rúbínum, nema Bretland, Frakkland og Íran, þar dugði ekkert minna en demantar. Annar gripur er hið svo nefnda „Páfuglshásæti“, sem þakið er 26.733 eðalsteinum og svo hásætið sem notað var við krýningu síðustu keisara yfirhlaðið eðalmálmi og eðalsteinum. Áhugavert er að gersemar þessar eru hluti af „gullforða“ þjóðarinnar sem stendur á bak við gjaldmiðilinn.

Teheran liggur við rætur Tokalfjalls í Alborzfjallakeðjunni

Dinner á hótelinu, rólegt kvöld. Hjólin óhreyfð.