Teheran

24.09.19

Dögun í Teheran

Hér í 17 milljóna manna borginni Teheran er eins og gefur að skilja margt að sjá og skoða. Vandinn er að umferðin í borginni er skelfileg og þegar við reyndum að fá hótelið til að finna handa okkur bílstjóra til dagsins, sem færi með okkur á valda staði, var svarið bæði frá starfsfólki gestamóttöku og ferðaskrifstofu, sem er með aðsetur á gistihúsinu, að best sé að ferðast um borgina á kvöldin, of mikil umferð á daginn. Þetta leiddi til þess að við fórum yfir fáeina af top 10 stöðunum sem mælt er með og ákváðum að sleppa þjóðminjasafninu, múslimska safninu, sem er samt mjög áhugavert, stóra basarnum, búnir að skoða þann í Istanbul tvisvar og ótal aðra svipaða, einnig merkilegum moskum. Settum þess í stað markið á tvær af mögnuðustu túrista attraksjónum í bænum, Golestan höll og safn þjóðargersema landsins sem varðveitt er í mikilli hvelfingu í höfuðstöðvum seðlabankans og vill svo vel til að þetta tvennt er í göngufæri hvort við annað. Bankinn sýnir fjársjóðina einungis frá tvö til hálffimm þrjá daga vikunnar og vorum við svo heppnir að vera á réttum degi.

Teheran liggur sunnan undir Tochalfjöllum og búa þar tæplega 9 millj íbúa, um 15 millj með úthverfum

Í þéttu kraðaki umferðarinnar er um klukkustundar akstur frá Parsian Esteghlal hótelinu, sem eitt sinn hýsti gistiþjónustu fyrir Hilton fjölskylduna, að Golestan höll sem var til afnota fyrir þjóðhöfðingja fyrri tíða.  Á miðöldum byggðu þeir þarna slot, en það sem nú stendur lét keisarinn Nasser al-Din byggja á árunum 1848-96, innblásinn af evrópskum höllum og kastölum. Síðustu keisarar notuðu húsakostinn fyrir opinbera viðburði og hápunktar þeirra voru krýningar tveggja þeirra sem síðast stjórnuðu. Eins og flestu miðaldra fólki er í fersku minni, hrökklaðist hinsti keisarinn frá völdum ´79.

Mósaíkskreyttir veggir Golestan hallar
Þarna hafa menn komið sér huggulega fyrir

Og nú er húsið safn sem við nutum þessa að berja augum í fámenni og rólegheitum. Það er víst ekki mikið um erlenda ferðmenn hér í landi þessi missirin. Einn fremur fámennur hópur af Ítölum og annar álíka stór af Japönum var allt sem við rákumst á í þá veru.

Afdrep til gestamóttöku

Á leiðinni í seðlabankann römbuðum við á litla huggulega restrasjón sem er vestrænni en aðrar þær, sem höfðu orðið á vegi okkar á þessari hálftíma gönguleið og losuðum við okkur þar við hádegishungrið. Biðröðin í seðalbankanum var stutt, en fólk þurfti að skilja eftir síma og myndavélar áður en því var hleypt í helgidóminn. Við fylgdum enskumælandi leiðsögumanni sem fór yfir helstu djásnin og sögu þeirra. Margt af því sem þarna er, á sér langa sögu, var fyrr á öldum rænt frá þjóðinni, tekið aftur sem herfang og meðal þess sem Indlandskeisari neyddist til að skila ásamt með miklum gersemum öðrum um miðja 18. öld, er 182 karata demanturinn Darya-ye Nur (haf ljóssins), sem sagður er vera stærsti óslípaði demantur heims. Annar frægur demantur var jafnframt hluti af gersemum þessarar þjóðar fyrr á öldum, en hann hefur þó lengi verið eitt af krúnudjásnum Breta, sennilega frægasti demantur heims, sjálfur Koh-i-Noor (fjall ljóssins). Ekki er hægt að sleppa því að nefna þrjá aðra stórkostlega hluti sem þarna eru varðveittir, 34 kg hnattlíkan sem þakið er 51.366 eðalsteinum, höf og vötn þakin emeröldum og land þakið rúbínum, nema Bretland, Frakkland og Íran, í þau lönd dugði ekkert minna en demantar. Annar gripur er hið svo nefnda „Páfuglshásæti“, sem þakið er 26.733 eðalsteinum og svo hásætið sem notað var við krýningu síðustu keisara yfirhlaðið eðalmálmi og eðalsteinum. Áhugavert er að gersemar þessar eru hluti af „gullforða“ þjóðarinnar sem stendur á bak við gjaldmiðilinn.

Dinner á hótelinu, rólegt kvöld. Hjólin óhreyfð.

25.09.19

Til að sleppa við hina skelfilegu morgunumferð sem er komin á fullan skriðþunga um 7 leytið, var ákveðið að vakna hálfsex og vera komnir af stað ekki seinna en sex. Vöknuðum á undan vekjaranum og drifum okkur á fætur og stóðum niðri hjá gjaldkera korter fyrir sex. Þar kom náttúrulega babb í bátinn, netið lá niðri og ekkert hægt að gera fyrr en það slumpaðist inn aftur. Vel að merkja, hér er allt greitt með reiðufé og því ekki vandi vegna kredikorta. Við bárum okkur illa og gerðum mönnum grein fyrir því hvers vegna við lögðum það á okkur að vakna svona snemma. Hofmóðugur benti afgeiðslumaðurinn á töflu sem sýndi að net lægi niðri að nóttu á þessum fína gististað og opnaði ekki fyrr en 5:45. Vildi þá svo til að klukkan á sömu töflu sýndi 5:46, sem við bentum á til baka. Það breytti engu, netið lá niðri.

Þeir voru með passana okkar og við áttum bara eftir að borga gistinguna. Þar sem mér óaði við hinu hrikalega umferðaröngþveiti morgunsins stressaðist ég upp og beitti öllum brögðum, gerði þeim grein fyrir að við hefðum farið á fætur fyrir allar aldir til að forðast morgunumferðina skelfilegu, en ekki til að bíða fyrir framan þetta afgreiðsluborð þar til umferðin kæmist á fullan skriðþunga, lagðist næstum á hnén, en samferðungurinn hélt ró sinni. Það var engu tauti við þá komið, hér myndi ekkert gerast fyrr en netið flæddi í vírum tölvunnar. Við gengum frá töskunum á hjólin og gerðum þau klár í von um að netið skilaði sér í tölvur gistihússins, sem gerðist náttúrulega ekki. Allt í einu, einhverra hluta vegna gáfust félagarnir í gestamóttökunni upp, lofuðu okkur að gera upp næturnar tvær og afhentu okkur vegabréfin. Hvílíkur léttir. Klukkan var ekki nema örfáar mín gengin í sjö þegar hjólin rúlluðu af stað og komumst við á korteri suður fyrir þá staði, sem tók leigubíllinn á annan klukkutíma að aka, í skoðunarferð okkar í gær.

Þetta er ekki moska heldur veitingahús við þjóðbraut

Góðum klukkutíma síðar, þegar við stoppuðum til að fá okkur morgunmat gaf sig á tal við okkur maður sem talaði fullkomna ensku. Kom í ljós að hann býr í Kanada en er í heimsókn hjá fjölskyldunni í Kashan. Hann spurði, eins og allir þeir sem við hittum og geta tjáð sig á ensku, hvort hann gæti aðstoðað okkur. Bað ég hann þá um að hringja í gistihús sem ég hafði sigtað út og panta gistingu, svo við hefðum ákveðinn punkt að aka á í Kashan. Þar reyndist þá uppselt, en okkar maður þekkir til og pantaði í svipaðri heimagistingu í miðbænum, Morshedi House, eitt af þessum hefðbundnu veglegu húsum, þar sem byggingar hússins hringa sig um mikið garðport með tjörnum og gullfiskum. Afar huggulegur staður með ljómandi veitingasölu. Vingjarnlegi kanadíski Íraninn lét okkur síðan hafa nafn og símanúmer, ef til þess kæmi að hann gæti orðið okkur að liði.

Á leiðinni til Kashan eru afar áhugaverðar fornminjar, en það er neðanjarðarbærinn Nooshabad. Þetta eru jarðgöng mikil á þremur hæðum, á frá fögurra til átján m dýpi og eru þau gerð á þriðju öld.

Mikil jarðgöng á þremur hæðum, efsti hlutinn á 6 m dýpi, næsti á 12 og neðsti hlutinn á 18 m dýpi

Tilgangur þeirra var að veita skjól gegn veðri sem getur orðið ofurheitt á sumrin þarna á eyðimerkursvæðum Írans og jafnframt hrollkalt á veturna. Þar að auki var þessi neðanjarðarbær notaður sem felustaður fyrir óaldarflokkum sem fóru um og voru settar eins konar gildrur á  göngum efstu hæðarinnar til að torvelda óboðnum frekari innkomu. Þarna gátu um 3.000 manns hafst við í nokkrar vikur í senn, gert var ráð fyrir öllu sem fólk þurfti og feikna gott loftræstikerfi er í göngunum, sem virkar skv lögmáli Pascal´s (sem ég kann ekki að útskýra hér), reyndar næstum hálfu öðru árþúsundi áður en franski vísindamaðurinn Blaise Pacal sýndi fram á þetta lögmál á 17. öld.

Þarna er setið á einu af loftræstiopum þessara stórmerkilegu jarðganga
Leiðsögumaður upplýsir samferðunginn um leindardóma jarðganganna

Leiðin sem við ókum að þessum stað var vægast þannig að oft hélt fararbroddurinn að MapsMe ratarinn í I-phoninum hans hefði kortslúttað. En svo kom á daginn að eyðibæjirnir sem við ókum um og stígarnir sem virtust alveg eins geta leitt mann út á öskuhauga, þetta varðaði allt leiðina sem leiddi að krákustígum smábæjar, inn á lítið torg og voila, þarna var skilti um að tækið hafði skilað okkur á réttan stað. Merkilega lítið viðhaft um jafn áhugaverðan stað, sem að sjálfsögðu er undir alþjóðlegri minjavernd eins og flest sem ferðamaðurinn skoðar í þessu landi.

Göngin eru mikið völundarhús

Eftir þessa heimsókn var haldið á gistihúsið í gamla miðbænum í Kashan og var aðkoman að því eins og að hafa lent í bíómynd, þröngir stígar á milli leirlitaðra hús- og garðveggja.

Ratarinn kom okkur vafningalaust að réttum áfangastað í götuflækjum bæjarins

Þarna vorum við dottnir inn í 1001 nótt. Sem fyrr segir er Morshedi gistiheimilið einstaklega notalegt og á veitingahúsi þeirra fengum við okkur kjúkling í plómusósu, sem slær við öðrum máltíðum í landinu til þessa, algert hnossgæti.

Ævintýralegt var að aka um fornar götur miðbæjarins í Kashan að gistihúsinu Morshedi house
Baðhúsið forna

Við röltum um bæinn og af því áhugaverðasta veljum við að skoða baðhús fornt og afar fallegt. Röltum svo áfram á basarinn, sem er einskonar miðpunktur hvers bæjar hér um slóðir.

Gott útsýni var af þaki baðhússins í Kashan
Radíóvirkinn slakar á í huggulegum miðgarði Morshedi gistihússins

Snæðum aftur heima á gistihúsinu um kvöldið og síðan tylli ég mér með tölvuna út í garðportið til að hripa niður nokkrar línur um atburði dagsins. Veit ég þá ekki fyrr til að stúlkurnar úr móttökunni koma með afmælistertu með kerti á. Ég renndi strax óhýru auga til samferðungsins, taldi víst að hann hefði upplýst dömurnar um afmælisdaginn, sem var reyndar ekki fyrr en daginn eftir, til að gera smá at í mér. En nei, hann var saklaus, þær höfðu veitt þessu athygli í passanum mínum.

Með stúlkunum elskulegu sem héldu mér smá afmælisteiti þarna í miðri Persíu

Við höfðum látið þær vita að við myndum rjúka af stað árla morguns, en þær vildu gleðja afmælisbarnið þar sem afmælisdagurinn rynni upp í þeirra húsum. Þarna voru hjón í portinu með okkur, Írani og hans fillipseyska kona, búsett í Bandaríkjunum, með dætrum og tengdasonum og tóku þau þátt í þessum óvænta afmælisfagnaði. Afar ánægjulegt kvöld en lítið skrifað. Eknir 261 km

26.09.52

Árbíturinn snæddur fyrir brottför frá Kashan
Marjan fylgdi okkur að hjólunum um morguninn, filmaði okkur við brottför

Nú var haldið á hraðbrautina til Isfahan. Á frekar fáförnum veginum ökum við gjarnan á miðakrein af þremur í sömu átt, því sú lengst til hægri er oft með lélegra malbiki, ég læt mér detta í hug að það geti verið vegna stóru flutningabílanna sem halda sig á henni. Alltént sem ég ek þarna í góðum gír á eftir fararbroddinum, veit ég ekki fyrr til en að bíll sem fer fram úr mér á innstu akrein, er kominn press upp að hjólinu og hélt ég að þetta væri mitt síðasta, ég hélt bara að nú ætti að aka mig niður. Það er eins og að þó engin sé umferðin, komi bíll í hælana á þér á miðakrein, þá ætlast hann til að þú víkir í stað þess að hann færi sig yfir á vinstri akrein og taki fram úr þér. Ef þú gerir það ekki, ekur hann á hvítu línunni og reynir að þrykkja þér til hliðar. Eins og fólk almennt er yndislegt, hjálplegt og tekur manni alls staðar vel, þá hef bara aldrei kynnst jafn yfirgengilega óforskömmuðum ökumönnum og hér í þessu landi. Hef rætt þetta við innfædda og ein stúlkan sem ég nefndi þetta við, samsinnti með þeim orðum að undir stýri breyttust Íranar í „monster“.

Ókum víða um fjalllendi
Hvar sem stansað var flykktust áhugasamir um ferðamennina og hjólin þeirra

Heilu og höldnu komumst við þó til Isafahan og fengum gistingu á Abbasi hóteli, sem systir radíóvirkjans hafði mælt með og stóðst fullkomlega væntingar.

Hugguleg móttaka hjá þeim Abbasi mönnum

Flottast af því sem hér er að sjá, er aðaltorgið, gríðarlega stórt og var mikill íþróttaleikvangur og kappreiðavöllur fyrr á öldum og ýmsar merkar byggingar umhverfis það. Sem fyrr erum við endalaust teknir tali, enda fátt um erlenda ferðamenn í landinu. Ungir menn sem tala hrafl í ensku og gefa sig á tal við okkur, koma með fáeinar hefðbundnar spurningar og vilja síðan skipta peningum, selja okkur leiðsögn, sýna okkur teppi eða annað í þeim dúr. Ungu dömurnar sem gefa sig að okkur vilja bara fá að bjóða ferðamanninn velkominn, þjálfa enskuna og kannski fá af sér mynd með útlendingunum.

Framan við Imam moskuna, meistaraverk persnesks fortíðar arkítektúrs

Ali, íranskur vinur okkar heima á bróður hér í bænum og var undirbúið að við myndum hitta hann. Við erum sóttir um kvöldið og fer hann með okkur í smá skoðunarferð um bæinn, m.a. upp í hlíðar fjalls þar sem útsýni er yfir þessa þriggjamilljón manna borg í kvöldmyrkrinu. Hleypir okkur svo úr bílnum við heljarmikla og einstaklega fallega og skemmtilega lýsta göngubrú yfir fljót sem rennur um borgina, þaðan sem stutt var á hótelið. Ætlar að hitta okkur næsta morgun. Rólegt kvöld. Eknir 207 km

Á Khayubrú, 33ja boga brúnni yfir Zayanderud fljót er ávallt fjöldi fólks á rölti

27.09.19

Abbasi menn bjóða upp á ljómandi árbít og þokkalegasta kaffi í afar vistlegum sal, þar sem ganga um beina flottir þjónar, svo nú var það ritari sem óskaði eftir mynd af sér með einum úr þeirra hópi.

Það er stíll yfir piltunum á Abbasí gistihúsinu

Hossein, bróðir Ali´s vinar okkar heima, sótti okkur um 10 leitið og sýndi okkur m.a. Chehelsotoon höll, sem byggð er á 17. öld og þjónaði sem móttökuhöll þeirra tíma þjóðhöfðingja. Hún liggur í fallegum og friðsælum garði og er löng manngerð tjörn útfrá húsunum, bæði framan og aftan við þau.

Við Chehelsotoonhöll með Hussein bróður Alis vinar okkar í Reykjavík

Leiðin liggur síðan rólega í átt að helsta aðdráttarafli borgarinnar, sem er hið óviðjafnanlega Naqsh-e Jahan torg, torgið sem við röltum á í gærkvöldi.  Við syðri enda þessa aflanga torgs er hin nafntogaða Imam moska, sem þykir afburða meistaraverk persneskt arkitektúrs og eins og gefur að skilja, á verndarlista Unesco. Þarna vantaði okkur störnuarkitektinn, systur radíóvirkjans, til að upplýsa okkur um hin arkitektúrísku gildi guðshússins, en drukkum í okkur fegurð byggingarinnar sem slíkrar.

Imam moskan
Fagurlegar skreytingar í Imam moskunni

Allt umhverfis torgið eru eins konar göng, samfelld röð sölubása og í raun framlenging á basarnum við hinn enda torgsins. Hossein rölti dágóða stund með okkur um þennan verslanastíg og hefur sennilega skynjað frekar takmarkaðan áhuga okkar á hinum margbreytilega varningi sem þar er á boðstólum. Vorum sérstaklega tregir til að njóta leiðsagnar í „sýningargalleríum“ teppasala, svo hann fór með okkur á djúsbar, þar sem líka fékkst ís og þáðum við hann gjarnan í hitanum. Hér er ísinn einstaklega góður, ólíkt því sem við fengum ítrekað í Tyrklandi, ís svo pakkaðan af sykri að hann var seigur og mann hreinlega klígjaði við honum, ég tala ekki um þegar hann kom með rósaolíubragði eða kardamommukeim.

Eftirmiðdaginn höfðum við til eigin afnota, en Hossein hefur greinilega undirbúið matarveislu fyrir okkur á morgun, laugardag og sækir okkur um kl 11. Honum er í mun að gera sérdeilis vel við okkur og spurði hvernig vín okkur þætti góð, varð greinilega fyrir vonbrigðum þegar við upplýstum að báðir hefðum við aflagt áfengisneyslu.

Í dag er sem sé föstudagur, eini frídagur vikunnar og mikil ró yfir öllu. Í almenningsgörðum eru fjölskyldur saman á teppi, með nesti og huggulegheit. Við röltum að þrjátíuogþriggja boga brúnni sem við höfðum gengið kvöldið áður.

Þrjátíuogþriggjaboga brúin er fallegt mannvirki og vinsæll frístundastaður

Hún var full af fólki, sem og allt umhverfi hennar, meira að segja á grynningunum neðan undir henni óð fólk ána upp í miðja kálfa, sumir berfættir en aðrir bara í skóm sínum og fatnaði.

Hér slaka menn á á föstudögum, eina frídegi vikunnar

Hér sést, vel að merkja, enginn á stuttbuxum. Róin og friðurinn á svæðinu var svo alltumlykjandi að meira að segja samferðungurinn, sem unir sér sjaldan án fyrirliggjandi dagskrár og verkefna, sat bara langtímum saman á garðvegg með mér, slakur sem aldrei fyrr og drakk í sig friðsemdina.

Kyrrð og friðsemd svo alltumlykjandi að athafnasömustu menn sátu bara slakir langtimum saman

Síðar um daginn tyllti ég mér aðeins inn á gistinguna til að sinna netsíðunni, en netið er svo stopult að það dettur iðulega alveg út, rétt á meðan reynt er að koma myndum inn á textann í framhaldssögunni. Þá er bara að reyna aftur síðar. Hér er það eins og víðar, þrautseigjan sem gildir. Á meðan ég var að bjástra þetta, er ekki samferðungurinn búinn að leita uppi hreint frábæra matsölu í göngufæri. Þangað var skundað og snæddur mjög seinn brunsh eða kvöldskattur með fyrra fallinu, nema hvoru tveggja væri.

Á einu kaffihúsinu þar sem við fengum okkur kaffi, skrapp samferðungurinn á klóið og komst þá í skemmtilega nýjung, þar sem bæði má tæma blöðruna og þrífa hendurnar samtímis.

Tvennt í einu…

Með tilliti til venjulegs ferlis þessarar athafnar, er ég samt ekki viss um að þetta sé neitt framtíðarmódel. Og fyrst við erum á þessum nótunum, þá finnst mér rétt að hafa hérna með mynd af áhaldi sem ég hef ekki séð áður, en er augljóslega afar hentugt fyrir þá sem eiga erfitt með að húka á hækjum sér og miða á gatið í gólfinu.

Hugvitsamleg lausn

Kvöldinu vörðum við á torginu þar sem fjölskyldur sátu enn á teppum sínum með nesti og ungir drengir voru í boltaleikjum innan um gangandi og hjólandi vegfarendur. Enn upplifum við harmóníska ró yfir svæðinu og hefur sá athafnasami við hliðina á mér meira að segja orð á þessu. Þó að við værum með fulla vasa að peningum var ekkert sem freistaði okkar þarna nema sín hvor vatnsflaskan. Talandi um peninga þá er gjaldmiðillinn hér fjarskildur krónunni okkar að því leiti að hann er ekki mjög stabíll. Reyndar hefur hann náð öflugri dífum en blessuð krónan, jafnvel þó sú gamla væri enn við líði, því um 900 ríal eru í einni íslenskri nýkrónu, þannig að maður gengur með milljónir í vasanum. Hef enn ekki náð utan um skilgreiningar innfæddra á fjárhæðum, því t.d. 5.000 virðist mér geta þýtt 50þús, 500þús eða jafnvel 5millj en aldrei 5þús.

Þarna liggja liðlega 30 milljónir

Hinn síðbúni miðdegisverður stóð svo vel með manni að hvorugur fann fyrir svengd það sem eftir lifði dags og gengum við sælir og vel haldnir til náða. Hjólin óhreyfð.

28.09.19

Hussein sótti okkur um ellefuleitið og fór með okkur í um 40 km bíltúr, í sumarbústað vinar hans. Þarna voru tveir æskuvinir hans aðrir, þannig að okkur var boðið í veislu með þessum fjórum æskuvinum og fengum við að vita að þeir hittust svona einu sinni til tvisvar í mánuði fjórir saman í grillveislu og fengu sér gjarnan tár með. Maturinn var góður og menn fóru sér að engu óðslega.

Í flöskunni sem þarna er hampað er ekki vatn

Spurði Hussein um eitt og annað í írönsku þjóðlífi og fékk m.a. að vita að lægstu laun eru 20-25þús krónur ísl., en hátekjumenn ná aftur á móti mánaðarlaunum sem nema um klst vinnu hjá skilanefndarlögmanni á Fróni. Eftirlaun skyldist mér að séu með svipuðu sniði og hjá okkur, þó fjárhæðirnar séu aðrar. Háskólamenntun er ókeypis í ríkisháskólum, en þangað inn kemst ekki nema brot af þeim sem um sækja, hinir verða að mennta sig í einkaskólum, sem er langt frá því að vera ódýrt. Eigandi „sumarhússins“ hafði rekið stálverksmiðju, en var búinn að selja hana og var greinilega þokkalega efnaður, með þennan fína bústað á nokkuð verklegri landsspildu. Eftir afar dandý miðdegisverð sem náði vel inn í eftirmiðdaginn, kom Hussein okkur aftur heim á hótel.

Kvöldið fór í að moka inn á netsíðuna sem er ótrúlega seinlegt þegar netið liggur meira niðri en það er uppi. Hafðist þó að lokum að koma inn því sem klárt var til birtingar. Hjólin óhreyfð

29.09.19

Ali vinur okkar var búinn að leggja til að við færum ekki stystu leið til Yazd, eins og okkur fannst liggja beinast við, heldur leggja um 400 km krók á leið okkar út í miðja Dasht-E-Kavir eyðimörkina, til að upplifa þar yndislega vin sem pökkuð er döðlupálmum og örlítilli byggð. Þar hafði hann bókað fyrir okkur náttstað í gistihúsi af einfaldari gerðinni. Þegar frúin sem rekur staðinn spurði hvort við vildum eitt herbergi eða tvö, svaraði ég að vanda að eitt herbergi dygði, helst með tveimur aðskildum rúmum. Úps, hér eru engin rúm heldur sofið á gólfinu, en þið fáið brekán til að leggjast á. Ekki vandamál, við erum svo sem öllu vanir.

Lögðum af stað um 8 leitið og fyrstu 150 km ókum við um hefðundið landslag og byggðir, en svo tók auðnin við. Framan af var hitinn um 26 gráðurnar, en hækkaði svo í eyðimörkinni og fór hæst í 38. Öryggisstigið er það hátt hjá okkur að við ökum í hlífðarfötum og að sjálfsögðu með hjálm. Þarna í sandauðninni mættum við manni á hjóli eins og mínu og var að sjálfsögðu stoppað til að skiptast á orðum. Reyndist þetta vera Frakki á hringferð um kúluna og ók hann hjálmlaus og bara á bolnum, hjólið ekki minna hlaðið en hringfarans okkar hér um árið, sem að mig minnir að hafi látið sér duga eitt varadekk ofan á allan farangurinn annan, en sá franski var með tvö, svona til öryggis.

Þar sem hjólin standa, sitt hvoru megin vegar, er það nóg aðdráttarafl til að bílar heimamanna gera hlé á sinni för og flykkjast að, til að fá myndir af sér við hjólin. Ungir menn koma askvaðandi og heilsa með handabandi en þegar ég ætla að heilsa stúlkunum sem þeim fylgja, víkja þær undan, samt fullar af gáska og gleði. Þetta er í fyrsta sinn í ferð okkar um landið, sem kvenfólk hafnar snertingu með þessum hætti. Var búinn að lesa um þetta, en þar sem við höfum farið um til þessa hafa konur heilsað okkur jafn og karlar og alls ekki sýnt af sér neina feimni í þeim efnum. Ekki veit ég hvort þetta komi upp núna þegar við erum afskekktari slóðum, eða hvort það sé bara tilviljun.

Náum til vinjarinnar Garmeh eftir liðlega 6 stunda akstur, að stórum hluta á fremur leiðinlegum vegum, malbikið ansi þvottabrettað. Vorum svolítið þrekaðir við hingaðkomuna, fengum ljómandi mat hjá húsráðendum og hölluðum okkur á gólffletin og duttum báðir út. Eftir góðan lúr röltum við um döðlupálmalundinn upp að einni lindinni sem nærir þessa vin. Hún kemur úr eins konar hellisskúta þar sem smáfiskatorfa syndir um og fólk situr á steinum þar inni með fæturna í vatninu, því fiskarnir hér eru sú tegund sem kroppar þurrt skinn af húð fótanna. Eru svona fiskar vinsælir til þess arna víða um heim og hefur þess konar þjónusta verið rekin heima og er kannski enn. Nutum sólsetursins í friðsæld pálmalundarins og lindarinnar. Heimafólk sem við mættum var sumt með fötur fullar af nýtíndum döðlum og buðu okkur allir að smakka úr stampi sínum, mikið hnossgæti, fullþroskaðar, mjúkar og sætar.

Eftir ljómandi kvöldmat, einhvers konar grænmetisstöppu blandaða úlfaldakássu með baunum, brá ég mér upp á þak hússins til að líta á stjörnuhimininn og sátu þar þá heimamenn spjallandi, með sígarettu sem skipst var á að reykja. Þó ég hafi lítið vit á reykingum, fann ég á lyktinni að þetta var ekki Camel. Þrjú kameldýr hins vegar voru í gerði framan við gistinguna og höfðu auga með hjólunum okkar. Umsjónarmaður staðarins er rólyndis náungi, svolítið hippalegur og hægur í fasi og minnti okkur félagana á skemmtilegar týpur sem við kynntumst á öðru ferðalagi fyrir hart nær tveim áratugum. Þá ókum við um Bandaríkin á Harley hjólum og komum m.a. í eyðibæinn Ward í klettafjöllunum í Colorado. Hippar höfðu lagt undir sig húsin og lifðu þar sínu hæglætislífi, en matvörubúððin var rekin af tveimur allsveimandi félögum, sem jafnframt sýsluðu við kaffibrennslu. Það var ekki asinn á þeim félögum frekar en okkar manni hér. Hann var hins vegar áhugasamur um ferðalag Íslendinganna og hvatti okkur til að skoða ótal margt sem sjá má þarna í næsta nágrenni. Því miður höfðum við nú ekki tíma til að stunda svo ítarlega skoðun á öllu því merkilega og áhugaverða sem þar má finna, en það er alltaf gott að eiga eitthvað eftir.

Restina af kvöldinu vörðum við á litlu skemmtilegu kaffihúsi þarna rétt hjá, en vinur okkar hippinn visaði veginn þangað. Hittum þar fyrir Hollandsþrennu (þrjár hollenskar stúlkur) sem við höfðum rekist á við lindina fyrr um kvöldið, og deildum ferðasögum á meðan heimamenn músíseruðu á einfaldan sítar og slagverk. Svo var ekkert eftir nema skríða heim og leggjast í gólfið. Eknir 380 km.

30.09.19

Úr pálmalundinum góða er ekið um eyðimörk alla leið til Yazd. Höfðum valið okkur gistingu í bæjarkantinum, Hotel Arg-E-Jadid. Þægilegt er að sleppa við kraðaksumferð miðbæjarins en geta þess í stað rennt viðstöðulaust að gistihúsinu.

Af mörgu merku sem hér er að sjá, hafði ég mestan áhuga á Zóróastró-eldhofinu Ateshkadeh, en þar brennur eldur sem sagt er að hafi logað óslitið frá árinu 470. Sem kunnugt er munu Zóróastró trúarbrögðin vera elsta eingyðistrú heims og er Zaraþústra spámaður upphafsmaður þeirra. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær hann var uppi, en þessi trúarbrögð voru ríkjandi í Persíu allt framundir það að múhameðstrú ruddi sér þar til rúms og eru þar ríkistrú á þeim tíma sem Persía var heimsveldi. Munu þau hafa haft mikil áhrif á síðari tíma eingyðistrúarbrögð, gyðingdóm, kristni og múslimstrú. Eldurinn er mikilvægur þáttur þessara trúarbragða, en hann er tákn fyrir ljós almættisins, en guðinn sjálfur er Ahúra Mazda. Í Töfraflautu Mozarts er tilvísun í þennan spámann, Sarastró er tákngerfingur ljóss og góðvildar í söngverkinu, þó hann þurfi í því verki einnig að vera óvæginn ef svo ber undir.

Áhugavert var einnig að skoða „vatnssafnið“, þó það sem slíkt sé ekkert yfirmáta impónerandi. Hins vegar það sem safnið upplýsir, er hve óhemju duglegir menn hafa verið hér umhverfis Yazd, fyrir meira en 2.000 árum að grafa út net manngengra jarðganga til að flytja vatn úr nálægum fjöllum og dreifa því um víðfeðm svæði. Grafið var eftir vatni á allt niður á 300 m dýpi í jaðri fjallanna, vatninu síðan veitt í þessa neðanjarðar kanala og með reglulegu millibili var grafinn eins konar brunnur lóðrétt niður á göngin, þar sem fólk gat nálgast vatnið. Þannig náðu menn að gera eyðimörkina lífvænlega.

Dró samferðunginn með í einar tvær moskur, en þegar ég ætlaði að skoða þá þriðju, eina af elstu moskum landsins, þá settist minn maður á steinvegg í skugga og sagðist bíða mín þar. Á meðan ég lét fræða mig um guðshúsið lenti hann á spjalli við enskar dömur sem sögðust vera búnar að skoða hátt í 100 moskur og sannfærðu hann um að hann væri ekki að missa af neinu meiriháttar, þó hann kysi að sitja hjá.

Kvöldmatinn snæddum við á ítölska staðnum Cesar og verður að segjast eins og er, að þessi staður stendur góðum vestrænum veitingastöðum fyllilega á sporði, jafnt í umgerð sem mat. Starfsstúlka í gestamóttökunni benti okkur á þennan stað og þegar við báðum um leigubíl til að fara þangað, kom framkvæmdastjóri hótelsins aðvífandi og krafðist þess að fá að aka okkur þangað sjálfur. Hann vildi allt fyrir okkur gera karlinn þó að við vidlum ekki snæða á hans ágætu veitingasölu í hótelinu. Vel saddir félagar sem lögðust í koju þetta kvöldið. Eknir 306 km

1.10.19

Frá Arg-E-Yadid hótelinu í Yazd lögðum við upp kl 9, beint inn á veg sem liggur um fjöllin í áttina til Shiraz. Náttúrufegurðin þarna í auðninni og algerlega gróðursnauðum fjöllunum er engu lík, þar sem hver fjallgarðurinn rís upp af öðrum og maður sér þá í gegnum dulúðugt mistur.  Sem betur fer þurfti fararstjórinn að stoppa einu sinni eða tvisvar til að endurræsa ratarann í símanum sínum, sem trúlega var kominn á yfirsnúning vegna mikillar yfirferðar og náði ég þá að festa fáeinar myndir í gagnasafnið. Við vorum enn að aka í eyðimörk, en þegar dagleiðin var tæplega hálfnuð gjörbreyttist landslagið og við tóku gróðursælar lendur, akrar miklir, grænmetisgarðar og ávaxtarækt. Á leiðinni náðum við liðlega 2.500 m hæð á fjallvegum og var hitinn þægilegur þar uppi, um 22 gráðurnar, en Shiraz er í einhverjum 1.200 metrum og vel heitt á daginn, en afar þægilegt eftir að skyggir.

Á vegunum er mikill fjöldi gamalla Benz vörubíla, sem eru með fæðingarvottorð skráð snemma á áttunda áratugnum og er óskemmtilegt að lenda á eftir þeim upp brekkur. Sé ég stundum fararbroddin hverfa í eimyrjustrók þar sem hann ekur framúr slíkum farartækjum í hæðóttu landslaginu og á þá sjálfur eftir að halda í mér andanum á meðan ég kem mér sem hraðast fram fyrir þá. Ósjaldan standa þeir svo með húddið opið á þjónustumiðstöðvum við veginn, sennilega svolítið viðhaldsfrekir.

Eina túristastoppið á leiðinni til Shiraz er við minjarnar í Pasargadae, þar sem hæst ber grafarstein á stalli miklum sem stendur þar einn og sér. Að sögn fræðimanna er þetta hinsti dvalarstaður Kýrusar mikla sem stofnaði heimsveldi Persa á sjöttu öld fyrir Krist og byggði Pasargadae sem höfuðborg sína. Eitthvað lærði ég um Kýrus sem barn í sveitinni og var svo hrifinn af nafninu, að síamskötturinn sem okkur var gefinn, fékk þetta merka nafn.

Frá Pasargadae var ekið beinustu leið til Shiraz þar sem við fengum inni á Chamran hóteli, fínasta herbergi með þremur rúmum á 16. hæð. Saba, vinkona Ali og ofurleiðsögukona að hans sögn, sækir okkur árla dags á morgun og fer með okkur í Persepolis.  Eknir 448 km

2.10.19

Saba sótti okkur kl 8 og héldum við rakleitt til Persepolis sem er um 60 km utan við Shiraz. Þar eru miklar minjar á stóru svæði af „viðhafnar“– og hátíðahöfuðborg Akkamenída, sem sé hins forna keisaradæmis Persa sem stofnað var af Kýrusi mikla um 550 fyrir Krist. Eins og við sáum í gær byggði Kýrus borgina Pasargadae og þegar hann féll frá tók sonur hans við en ríkti fremur stutt, aðeins í 7 ár og tók þá Daríus, sem var tengdasonur Kýrusar, við stjórnartaumunum. Ríkið sem hann stjórnaði hringaði sig um botn miðjarðarhafs í vestri, frá Egyptalandi upp til Grikklands, Tyrkland allt og að Indusdal í austri. Þegar hann byggir Persepolis mun hann hafa hugsað borgina sem sameiningartákn allra þeirra þjóða sem undir ríki hans heyrðu og má sjá á lágmyndum fulltrúa allra þeirra þjóða.

Eftir að Daríus er allur tekur Xerxes sonur hans við að stjórna þessu víðfeðma ríki og heldur áfram að stækka þá metnaðarfullu borg sem faðir hans hafði byggt. Óperan Xerxes eftir Händel er lauslega byggð á sögu þessa mikla þjóðhöfðingja og þó hún sé sjaldnar flutt en margar aðrar óperur, þá er arían Ombra mai fu eitt af þekktari verkum klassískrar tónlistar, þó mest flutt sem orgelverkið Largo eftir þann mikla snilling barokktónlistar.

Saba, leiðsögukonan góða leiddi okkur í gegnum söguna þarna frá því um 6 öldum fyrir Krist þegar veldi Persa stóð í hvað mestum blóma, allt til þess að Alexander mikli kemur frá Grikklandi árið 330 f.Kr., hertekur landið og leggur Persepolis í rúst. Í fjallinu ofan við þessar miklu minjar eru stór grafhýsi tveggja afkomendar Daríusar, en skammt frá í öðrum hamravegg sem að borginni snýr eru fjögur grafhýsi, m.a. Daríusar og Xerxesar.

Eftir að drukkið í okkur söguna og meðtekið mikilfengleik þeirrar borgar sem eitt sinn stóð á fallegum stað undir fjalli, fór Saba með okkur í ljúffengan íranskan miðdegisverð. Restinni af eftirmiðdeginum og kvöldinu vörðum við að mestu í miðbænum í Shiraz. Já, vel að merkja, Shiraz þrúgan þekkta sem ræktuð er til víngerðar víða um heim, er ættuð héðan, eins og nafnið gefur til kynna. Hjólin óhreyfð.