Upp fyrir allar aldir

Til að sleppa við hina skelfilegu morgunumferð sem er komin á fullan skriðþunga um 7 leytið, var ákveðið að vakna hálfsex og vera komnir af stað ekki seinna en sex. Vöknuðum á undan vekjaranum og drifum okkur á fætur og stóðum niðri hjá gjaldkera korter fyrir sex. Þar kom náttúrulega babb í bátinn, netið lá niðri og ekkert hægt að gera fyrr en það slumpaðist inn aftur. Vel að merkja, hér er allt greitt með reiðufé og því ekki vandi vegna kredikorta. Við bárum okkur illa og gerðum mönnum grein fyrir því hvers vegna við lögðum það á okkur að vakna svona snemma. Hofmóðugur benti afgeiðslumaðurinn á töflu sem sýndi að net lægi niðri að nóttu á þessum fína gististað og opnaði ekki fyrr en 5:45. Vildi þá svo til að klukkan á sömu töflu sýndi 5:46, sem við bentum á til baka. Það breytti engu, netið lá niðri.

Þeir voru með passana okkar og við áttum bara eftir að borga gistinguna. Þar sem mér óaði við hinu hrikalega umferðaröngþveiti morgunsins stressaðist ég upp og beitti öllum brögðum, gerði þeim grein fyrir að við hefðum farið á fætur fyrir allar aldir til að forðast morgunumferðina skelfilegu, en ekki til að bíða fyrir framan þetta afgreiðsluborð þar til umferðin kæmist á fullan skriðþunga, lagðist næstum á hnén, en samferðungurinn hélt ró sinni. Það var engu tauti við þá komið, hér myndi ekkert gerast fyrr en netið flæddi í vírum tölvunnar. Við gengum frá töskunum á hjólin og gerðum þau klár í von um að netið skilaði sér í tölvur gistihússins, sem gerðist náttúrulega ekki. Allt í einu, einhverra hluta vegna gáfust félagarnir í gestamóttökunni upp, lofuðu okkur að gera upp næturnar tvær og afhentu okkur vegabréfin. Hvílíkur léttir. Klukkan var ekki nema örfáar mín gengin í sjö þegar hjólin rúlluðu af stað og komumst við á korteri suður fyrir þá staði, sem tók leigubíllinn á annan klukkutíma að aka, í skoðunarferð okkar í gær.

Á þessu kaffihúsi sá einn kúnninn um að bóka fyrir okkur gistingu á Morshedi heimagistingunni í Kashan

Góðum klukkutíma síðar, þegar við stoppuðum til að fá okkur morgunmat gaf sig á tal við okkur maður sem talaði fullkomna ensku. Kom í ljós að hann býr í Kanada en er í heimsókn hjá fjölskyldunni í Kashan. Hann spurði, eins og allir þeir sem við hittum og geta tjáð sig á ensku, hvort hann gæti aðstoðað okkur. Bað ég hann þá um að hringja í gistihús sem ég hafði sigtað út og panta gistingu, svo við hefðum ákveðinn punkt að aka á í Kashan. Þar reyndist þá uppselt, en okkar maður þekkir til og pantaði í svipaðri heimagistingu í miðbænum, Morshedi House, eitt af þessum hefðbundnu veglegu húsum, þar sem byggingar hússins hringa sig um mikið garðport með tjörnum og gullfiskum. Afar huggulegur staður með ljómandi veitingasölu. Vingjarnlegi kanadíski Íraninn lét okkur síðan hafa nafn og símanúmer, ef til þess kæmi að hann gæti orðið okkur að liði.

Lítur út eins og moska en er veitingastaður

Á leiðinni til Kashan eru afar áhugaverðar fornminjar, en það er neðanjarðarbærinn Nooshabad. Þetta eru jarðgöng mikil á þremur hæðum, á frá fögurra til átján m dýpi og eru þau gerð á þriðju öld. Tilgangur þeirra var að veita skjól gegn veðri sem getur orðið ofurheitt á sumrin þarna á eyðimerkursvæðum Írans og jafnframt hrollkalt á veturna.

Þarna er gengið niður í jarðhýsin í Nooshabad

Þar að auki var þessi neðanjarðarbær notaður sem felustaður fyrir óaldarflokkum sem fóru um og voru settar eins konar gildrur á  göngum efstu hæðarinnar til að torvelda óboðnum frekari innkomu. Þarna gátu um 3.000 manns hafst við í nokkrar vikur í senn, gert var ráð fyrir öllu sem fólk þurfti og feikna gott loftræstikerfi er í göngunum, sem virkar skv lögmáli Pascal´s (sem ég kann ekki að útskýra hér), reyndar næstum hálfu öðru árþúsundi áður en vísindamaðurinn Blaise Pascal sýndi fram á þetta lögmál á 17. öld.

Þarna er setið á einu af loftræstiopunum sem tryggðu gott loft í þessum miklu jarðgöngum
Leiðsögumaður miðlar upplýsingum um þetta neðanjarðarbyrgi til radíóvirkjans

Leiðin sem við ókum að þessum stað var vægast þannig að oft hélt fararbroddurinn að MapsMe ratarinn í I-phoninum hans hefði kortslúttað. En svo kom á daginn að eyðibæjirnir sem við ókum um og stígarnir sem virtust alveg eins geta leitt mann út á öskuhauga, þetta varðaði allt leiðina sem leiddi að krákustígum smábæjar, inn á lítið torg og voila, þarna var skilti um að tækið hafði skilað okkur á réttan stað. Merkilega lítið viðhaft um jafn áhugaverðan stað, sem að sjálfsögðu er undir alþjóðlegri minjavernd eins og flest sem ferðamaðurinn skoðar í þessu landi.

Mikið völundarhús á þremur hæðum

Eftir þessa heimsókn var haldið á gistihúsið í gamla miðbænum í Kashan og var aðkoman að því eins og að hafa lent í bíómynd, þröngir stígar á milli leirlitaðra hús- og garðveggja. Þarna vorum við dottnir inn í 1001 nótt.

Úr 1001 nótt
Ratarinn kom okkur vafningalaust á áfangastað

Sem fyrr segir er Morshedi gistiheimilið einstaklega notalegt og á veitingahúsi þeirra fengum við okkur kjúkling í plómusósu, sem slær við öðrum máltíðum í landinu til þessa, algert hnossgæti.

Einstaklega vistlegur miðgarður gistihússins

Við röltum um bæinn og af því áhugaverðasta veljum við að skoða baðhús fornt og afar fallegt.

Fornt baðhús, einstaklega vistlegt og fagurskreytt
Af þaki baðhússins er gott útsýni yfir bæinn

Röltum svo áfram á basarinn, sem er einskonar miðpunktur hvers bæjar hér um slóðir. Snæðum aftur heima á gistihúsinu um kvöldið og síðan tylli ég mér með tölvuna út í garðportið til að hripa niður nokkrar línur um atburði dagsins. Veit ég þá ekki fyrr til að stúlkurnar úr móttökunni koma með afmælistertu með kerti á. Ég renndi strax óhýru auga til samferðungsins, taldi víst að hann hefði upplýst dömurnar um afmælisdaginn, sem var reyndar ekki fyrr en daginn eftir, til að gera smá at í mér. En nei, hann var saklaus, þær höfðu veitt þessu athygli í passanum mínum.

Marjan (við hliðina á mér) og samstarfskonur hennar voru svo elskulegar að gera mér örlítið afmælishóf

Við höfðum látið þær vita að við myndum rjúka af stað árla morguns, en þær vildu gleðja afmælisbarnið þar sem afmælisdagurinn rynni upp í þeirra húsum. Þarna voru hjón í portinu með okkur, Írani og hans fillipseyska kona, búsett í Bandaríkjunum, með dætrum og tengdasonum og tóku þau þátt í þessum óvænta afmælisfagnaði. Afar ánægjulegt kvöld en lítið skrifað. Eknir 261 km