Til Isfahan

Árbíturinn snæddur í garðporti gistihússins
Marjan kvaddi okkur þegar við yfirgáfum gistihúsið góða Morshedi House

Nú var haldið á hraðbrautina til Isfahan. Á frekar fáförnum veginum ökum við gjarnan á miðakrein af þremur í sömu átt, því sú lengst til hægri er oft með lélegra malbiki, ég læt mér detta í hug að það geti verið vegna stóru flutningabílanna sem halda sig á henni. Alltént sem ég ek þarna í góðum gír á eftir fararbroddinum, veit ég ekki fyrr til en að bíll sem fer fram úr mér á innstu akrein, er kominn press upp að hjólinu og hélt ég að þetta væri mitt síðasta, ég hélt bara að nú ætti að aka mig niður. Það er eins og að þó engin sé umferðin, komi bíll í hælana á þér á miðakrein, þá ætlast hann til að þú víkir í stað þess að hann færi sig yfir á vinstri akrein og taki fram úr þér. Ef þú gerir það ekki, ekur hann á hvítu línunni og reynir að þrykkja þér til hliðar. Eins og fólk almennt er yndislegt, hjálplegt og tekur manni alls staðar vel, þá hef bara aldrei kynnst jafn yfirgengilega óforskömmuðum ökumönnum og hér í þessu landi. Hef rætt þetta við innfædda og ein stúlkan sem ég nefndi þetta við, samsinnti með þeim orðum að undir stýri breyttust Íranar í „monster“.

Hjólið verður svolítið aðalfyrirsætan í svona leiðangri
Áhugasamir hópast að ferðamanninum og dást að honum og fararskjótanum

Heilu og höldnu komumst við þó til Isafahan og fengum gistingu á Abbasi hóteli, sem systir radíóvirkjans hafði mælt með og stóðst fullkomlega væntingar.

Vel tekið á móti gestum á Abbasi gistingunni

Flottast af því sem hér er að sjá, er aðaltorgið, gríðarlega stórt og var mikill íþróttaleikvangur og kappreiðavöllur fyrr á öldum og ýmsar merkar byggingar umhverfis það. Sem fyrr erum við endalaust teknir tali, enda fátt um erlenda ferðamenn í landinu. Ungir menn sem tala hrafl í ensku og gefa sig á tal við okkur, koma með fáeinar hefðbundnar spurningar og vilja síðan skipta peningum, selja okkur leiðsögn, sýna okkur teppi eða annað í þeim dúr. Ungu dömurnar sem gefa sig að okkur vilja bara fá að bjóða ferðamanninn velkominn, þjálfa enskuna og kannski fá af sér mynd með útlendingunum.

Hjá Imam moskunni við Naqsh-e-Jahan torg

Ali, íranskur vinur okkar heima á bróður hér í bænum og var undirbúið að við myndum hitta hann. Við erum sóttir um kvöldið og fer hann með okkur í smá skoðunarferð um bæinn, m.a. upp í hlíðar fjalls þar sem útsýni er yfir þessa þriggjamilljón manna borg í kvöldmyrkrinu.

Þrjátíuogþriggjaboga brúin Khaju yfir Zayanderudfljót

Hleypir okkur svo úr bílnum við heljarmikla og einstaklega fallega og skemmtilega lýsta göngubrú yfir fljót sem rennur um borgina, þaðan sem stutt var á hótelið. Ætlar að hitta okkur næsta morgun. Rólegt kvöld. Eknir 207 km