Með Hussein um Isfahan

Abbasi menn bjóða upp á ljómandi árbít og þokkalegasta kaffi í afar vistlegum sal, þar sem ganga um beina flottir þjónar, svo nú var það ritari sem óskaði eftir mynd af sér með einum úr þeirra hópi.

Það er stíll á þjónum Abbasi hótelsins

Hussein, bróðir Ali´s vinar okkar heima, sótti okkur um 10 leitið og sýndi okkur m.a. Chehelsotoon höll, sem byggð er á 17. öld og þjónaði sem móttökuhöll þeirra tíma þjóðhöfðingja. Hún liggur í fallegum og friðsælum garði og er löng manngerð tjörn útfrá húsunum, bæði framan og aftan við þau.

Með Hussein í garði Chehelsotoonhallar

Leiðin liggur síðan rólega í átt að helsta aðdráttarafli borgarinnar, sem er hið óviðjafnanlega Naqsh-e Jahan torg, torgið sem við röltum á í gærkvöldi.  Við syðri enda þessa aflanga torgs er hin nafntogaða Imam moska, sem þykir afburða meistaraverk persneskt arkitektúrs og eins og gefur að skilja, á verndarlista Unesco. Þarna vantaði okkur störnuarkitektinn, systur radíóvirkjans, til að upplýsa okkur um hin arkitektúrísku gildi guðshússins, en vorum sáttir við að drekka í okkur fegurð byggingarinnar sem slíkrar.

Anddyri Imam moskunnar
Mósaíkskreyttir veggir í hólf og gólf

Allt umhverfis torgið eru eins konar göng, samfelld röð sölubása og í raun framlenging á basarnum við hinn enda torgsins. Hussein rölti dágóða stund með okkur um þennan verslanastíg og hefur sennilega skynjað frekar takmarkaðan áhuga okkar á hinum margbreytilega varningi sem þar er á boðstólum. Vorum sérstaklega tregir til að njóta leiðsagnar í „sýningargalleríum“ teppasala, svo hann fór með okkur á djúsbar, þar sem líka fékkst ís og þáðum við hann gjarnan í hitanum. Hér er ísinn einstaklega góður, ólíkt því sem við fengum ítrekað í Tyrklandi, ís svo pakkaðan af sykri að hann var seigur og mann hreinlega klígjaði við honum, ég tala ekki um þegar hann var með rósaolíubragði eða kardamommukeim.

33ja boga brúin á björtum degi

Eftirmiðdaginn höfðum við til eigin afnota, en Hussein hefur greinilega undirbúið matarveislu fyrir okkur á morgun, laugardag og sækir okkur um kl 11. Honum er í mun að gera sérdeilis vel við okkur og spurði hvernig vín okkur þætti góð, varð greinilega fyrir vonbrigðum þegar við upplýstum að báðir hefðum við aflagt áfengisneyslu.

Í dag er sem sé föstudagur, eini frídagur vikunnar og mikil ró yfir öllu. Í almenningsgörðum eru fjölskyldur saman á teppi, með nesti og huggulegheit. Við röltum að þrjátíuogþriggja boga brúnni sem við höfðum gengið kvöldið áður. Hún var full af fólki, sem og allt umhverfi hennar, meira að segja á grynningunum neðan undir henni óð fólk ána upp í miðja kálfa, sumir berfættir en aðrir bara í skóm sínum og fatnaði.

Ró og værð yfir fólki á eina frídegi vikunnar

Hér sést, vel að merkja, enginn á stuttbuxum. Róin og friðurinn á svæðinu var svo alltumlykjandi að meira að segja samferðungurinn, sem unir sér sjaldan án fyrirliggjandi dagskrár og verkefna, sat bara langtímum saman á garðvegg með mér, slakur sem aldrei fyrr og drakk í sig friðsemdina.

Jafnvel athafnasömustu menn ná slökun í alltumlykjandi hvíldardagsrónni

Síðar um daginn tyllti ég mér aðeins inn á gistinguna til að sinna netsíðunni, en netið er svo stopult að það dettur iðulega alveg út, rétt á meðan reynt er að koma myndum inn á textann í framhaldssögunni. Þá er bara að reyna aftur síðar. Hér er það eins og víðar, þrautseigjan sem gildir. Á meðan ég var að bjástra þetta, er ekki samferðungurinn búinn að leita uppi hreint frábæra matsölu í göngufæri. Þangað var skundað og snæddur mjög seinn brunsh eða kvöldskattur með fyrra fallinu, nema hvoru tveggja væri.

Á einu kaffihúsinu þar sem við fengum okkur kaffi, skrapp samferðungurinn á klóið og komst þá í skemmtilega nýjung, þar sem bæði má tæma blöðruna og þrífa hendurnar samtímis. Með tilliti til venjulegs ferlis þessarar athafnar, er ég samt ekki viss um að þetta sé neitt framtíðarmódel.

Óvenjuleg nýjung

Og fyrst við erum á þessum nótunum, þá finnst mér rétt að hafa hérna með mynd af áhaldi sem ég hef ekki séð áður, en er augljóslega afar hentugt fyrir þá sem eiga erfitt með að húka á hækjum sér og miða á gatið í gólfinu.

Skemmtileg hönnun

Kvöldinu vörðum við á torginu þar sem fjölskyldur sátu enn á teppum sínum með nesti og ungir drengir voru í boltaleikjum innan um gangandi og hjólandi vegfarendur. Enn upplifum við harmóníska ró yfir svæðinu og hefur sá athafnasami við hliðina á mér meira að segja orð á þessu. Þó að við værum með fulla vasa að peningum var ekkert sem freistaði okkar þarna nema sín hvor vatnsflaskan. Talandi um peninga þá er gjaldmiðillinn hér fjarskildur krónunni okkar að því leiti að hann er ekki mjög stabíll. Reyndar hefur hann náð öflugri dífum en blessuð krónan, jafnvel þó sú gamla væri enn við líði, því um 900 ríal eru í einni íslenskri nýkrónu, þannig að maður gengur með milljónir í vasanum. Hef enn ekki náð utan um skilgreiningar innfæddra á fjárhæðum, því t.d. 5.000 virðist mér geta þýtt 50þús, 500þús eða jafnvel 5millj en aldrei 5þús.

Hér liggja liðlega 30 milljónir

Hinn síðbúni miðdegisverður stóð svo vel með manni að hvorugur fann fyrir svengd það sem eftir lifði dags og gengum við sælir og vel haldnir til náða. Hjólin óhreyfð.