Í matarboði hjá Hussein og vinum hans

Hussein sótti okkur um ellefuleitið og fór með okkur í um 40 km bíltúr, í sumarbústað vinar hans. Þarna voru tveir æskuvinir hans aðrir, þannig að okkur var boðið í veislu með þessum fjórum æskuvinum og fengum við að vita að þeir hittust svona einu sinni til tvisvar í mánuði fjórir saman í grillveislu og fengu sér gjarnan tár með. Maturinn var góður og menn fóru sér að engu óðslega.

Flaskan sem þarna er hampað inniheldur ekki vatn. Þeir kalla það Armeníuvodka

Spurði Hussein um eitt og annað í írönsku þjóðlífi og fékk m.a. að vita að lægstu laun eru 20-25þús krónur ísl., en hátekjumenn ná aftur á móti mánaðarlaunum sem nema um klst vinnu hjá skilanefndarlögmanni á Fróni. Eftirlaun skyldist mér að séu með svipuðu sniði og hjá okkur, þó fjárhæðirnar séu aðrar. Háskólamenntun er ókeypis í ríkisháskólum, en þangað inn kemst ekki nema brot af þeim sem um sækja, hinir verða að mennta sig í einkaskólum, sem er langt frá því að vera ódýrt. Eigandi „sumarhússins“ hafði rekið stálverksmiðju, en var búinn að selja hana og var greinilega þokkalega efnaður, með þennan fína bústað á nokkuð verklegri landsspildu. Eftir afar dandý miðdegisverð sem náði vel inn í eftirmiðdaginn, kom Hussein okkur aftur heim á hótel.

Einstaklega vistlegt umhverfi við bústaðinn þar sem okkur var boðið í grillveislu hjá Hussein og vinum hans

Kvöldið fór í að moka inn á netsíðuna sem er ótrúlega seinlegt þegar netið liggur meira niðri en það er uppi. Hafðist þó að lokum að koma inn því sem klárt var til birtingar. Hjólin óhreyfð