Út í eyðimörkina

Ali vinur okkar var búinn að leggja til að við færum ekki stystu leið til Yazd, eins og okkur fannst liggja beinast við, heldur leggja um 400 km krók á leið okkar út í miðja Dasht-E-Kavir eyðimörkina, til að upplifa þar yndislega vin sem pökkuð er döðlupálmum og örlítilli byggð. Þar hafði hann bókað fyrir okkur náttstað í gistihúsi af einfaldari gerðinni.

Auðnin í 38 gráðum. Það slær svo sem ekki að manni í efnismiklum hlífðarjökkunum

Þegar frúin sem rekur staðinn spurði hvort við vildum eitt herbergi eða tvö, svaraði ég að vanda að eitt herbergi dygði, helst með tveimur aðskildum rúmum. Úps, hér eru engin rúm heldur sofið á gólfinu, en þið fáið brekán til að leggjast á. Ekki vandamál, við erum svo sem öllu vanir.

Lögðum af stað um 8 leitið og fyrstu 150 km ókum við um hefðundið landslag og byggðir, en svo tók auðnin við. Framan af var hitinn um 26 gráðurnar, en hækkaði svo í eyðimörkinni og fór hæst í 38. Öryggisstigið er það hátt hjá okkur að við ökum í hlífðarfötum og að sjálfsögðu með hjálm. Þarna í sandauðninni mættum við manni á hjóli eins og mínu og var að sjálfsögðu stoppað til að skiptast á orðum. Reyndist þetta vera Frakki á hringferð um kúluna og ók hann hjálmlaus og bara á bolnum, hjólið ekki minna hlaðið en hringfarans okkar hér um árið, sem að mig minnir að hafi látið sér duga eitt varadekk ofan á allan farangurinn annan, en sá franski var með tvö, svona til öryggis.

Vel pakkað hjólið hjá þeim franska

Þar sem hjólin standa, sitt hvoru megin vegar, er það nóg aðdráttarafl til að bílar heimamanna gera hlé á sinni för og flykkjast að, til að fá myndir af sér við hjólin. Ungir menn koma askvaðandi og heilsa með handabandi en þegar ég ætla að heilsa stúlkunum sem þeim fylgja, víkja þær undan, samt fullar af gáska og gleði. Þetta er í fyrsta sinn í ferð okkar um landið, sem kvenfólk hafnar snertingu með þessum hætti. Var búinn að lesa um þetta, en þar sem við höfum farið um til þessa hafa konur heilsað okkur jafn og karlar og alls ekki sýnt af sér neina feimni í þeim efnum. Ekki veit ég hvort þetta komi upp núna þegar við erum afskekktari slóðum, eða hvort það sé bara tilviljun.

Fjöllin taka við af eyðimörkinni

Náum til vinjarinnar Garmeh eftir liðlega 6 stunda akstur, að stórum hluta á fremur leiðinlegum vegum, malbikið ansi þvottabrettað. Vorum svolítið þrekaðir við hingaðkomuna, fengum ljómandi mat hjá húsráðendum og hölluðum okkur á gólffletin og duttum báðir út.

Kjúklingur með flatbrauði, grjónum og döðlum
Svolítið þrekaður eftir eyðimerkuraksturinn þessi
og þessi náði að lúra ögn lengur

Eftir góðan lúr röltum við um döðlupálmalundinn upp að einni lindinni sem nærir þessa vin. Hún kemur úr eins konar hellisskúta þar sem smáfiskatorfa syndir um og fólk situr á steinum þar inni með fæturna í vatninu, því fiskarnir hér eru sú tegund sem kroppar þurrt skinn af húð fótanna. Eru svona fiskar vinsælir til þess arna víða um heim og hefur þess konar þjónusta verið rekin heima og er kannski enn.

Garmeh vinin er pökkuð af döðlupálmum
í hópi heimafólks við lindina

Nutum sólsetursins í friðsæld pálmalundarins og lindarinnar. Heimafólk sem við mættum var sumt með fötur fullar af nýtíndum döðlum og buðu okkur allir að smakka úr stampi sínum, mikið hnossgæti, fullþroskaðar, mjúkar og sætar.

Pálmarnir pakkaðir sætum, þroskuðum döðlum

Eftir ljómandi kvöldmat, einhvers konar grænmetisstöppu blandaða úlfaldakássu með baunum, brá ég mér upp á þak hússins til að líta á stjörnuhimininn og sátu þar þá heimamenn spjallandi, með sígarettu sem skipst var á að reykja. Þó ég hafi lítið vit á reykingum, fann ég á lyktinni að þetta var ekki Camel.

Þak gistihússins er huggulegt afdrep í „kvöldsvalanum“
Upptyppingarnir eru loftræsting eins og hún hefur verið frá grárri fortíð

Þrjú kameldýr hins vegar voru í gerði framan við gistinguna og höfðu auga með hjólunum okkar.

Þarna hefur nútíminn runnið inn í forna tíð
Þeir náðu ágætlega saman þessir

Umsjónarmaður staðarins er rólyndis náungi, svolítið hippalegur og hægur í fasi og minnti okkur félagana á skemmtilegar týpur sem við kynntumst á öðru ferðalagi fyrir hart nær tveim áratugum.

Það var ekki asinn á síkátum umsjónarmanni gistihússins

Þá ókum við um Bandaríkin á Harley hjólum og komum m.a. í eyðibæinn Ward í klettafjöllunum í Colorado. Hippar höfðu lagt undir sig húsin og lifðu þar sínu hæglætislífi, en matvörubúððin var rekin af tveimur allsveimandi félögum, sem jafnframt sýsluðu við kaffibrennslu. Það var ekki asinn á þeim félögum frekar en okkar manni hér. Hann var hins vegar áhugasamur um ferðalag Íslendinganna og hvatti okkur til að skoða ótal margt sem sjá má þarna í næsta nágrenni. Því miður höfðum við nú ekki tíma til að stunda svo ítarlega skoðun á öllu því merkilega og áhugaverða sem þar má finna, en það er alltaf gott að eiga eitthvað eftir.

Sólsetursstemning í pálmalundinum
Heimamenn slaka á eftir daginn

Restina af kvöldinu vörðum við á litlu skemmtilegu kaffihúsi þarna rétt hjá, en vinur okkar hippinn visaði veginn þangað. Hittum þar fyrir Hollandsþrennu (þrjár hollenskar stúlkur) sem við höfðum rekist á við lindina fyrr um kvöldið, og deildum ferðasögum á meðan heimamenn músíseruðu á einfaldan sítar og slagverk. Svo var ekkert eftir nema skríða heim og leggjast í gólfið. Eknir 380 km.