Yazd

Fjöllin smá hverfa inn í hitamistrið

Úr pálmalundinum góða er ekið um eyðimörk alla leið til Yazd. Höfðum valið okkur gistingu í bæjarkantinum, Hotel Arg-E-Jadid. Þægilegt er að sleppa við kraðaksumferð miðbæjarins en geta þess í stað rennt viðstöðulaust að gistihúsinu.

Af mörgu merku sem hér er að sjá, hafði ég mestan áhuga á Zóróastró-eldhofinu Ateshkadeh, en þar brennur eldur sem sagt er að hafi logað óslitið frá árinu 470.

Zóróastró eldhofið Ateshkadeh

Sem kunnugt er munu Zóróastró trúarbrögðin vera elsta eingyðistrú heims og er Zaraþústra spámaður upphafsmaður þeirra. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær hann var uppi, en þessi trúarbrögð voru ríkjandi í Persíu allt framundir það að múhameðstrú ruddi sér þar til rúms og eru þar ríkistrú á þeim tíma sem Persía var heimsveldi. Munu þau hafa haft mikil áhrif á síðari tíma eingyðistrúarbrögð, gyðingdóm, kristni og múslimstrú. Eldurinn er mikilvægur þáttur þessara trúarbragða, en hann er tákn fyrir ljós almættisins, en guðinn sjálfur er Ahúra Mazda. Í Töfraflautu Mozarts er tilvísun í þennan spámann, Sarastró er tákngerfingur ljóss og góðvildar í söngverkinu, þó hann þurfi í því verki einnig að vera óvæginn ef svo ber undir.

Eldurinn eilífi hjá Zóróastrófólki

Áhugavert var einnig að skoða „vatnssafnið“, þó það sem slíkt sé ekkert yfirmáta impónerandi. Hins vegar það sem safnið upplýsir, er hve óhemju duglegir menn hafa verið hér umhverfis Yazd, fyrir meira en 2.000 árum að grafa út net manngengra jarðganga til að flytja vatn úr nálægum fjöllum og dreifa því um víðfeðm svæði. Grafið var eftir vatni á allt niður á 300 m dýpi í jaðri fjallanna, vatninu síðan veitt í þessa neðanjarðar kanala og með reglulegu millibili var grafinn eins konar brunnur lóðrétt niður á göngin, þar sem fólk gat nálgast vatnið. Þannig náðu menn að gera eyðimörkina lífvænlega.

Amir Chakhmaq byggingin við aðaltorg bæjarins hýsir mosku, baðhús og vatnslind, svo nokkuð sé upptalið

Dró samferðunginn með í einar tvær moskur, en þegar ég ætlaði að skoða þá þriðju, eina af elstu moskum landsins, þá settist minn maður á steinvegg í skugga og sagðist bíða mín þar. Á meðan ég lét fræða mig um guðshúsið lenti hann á spjalli við enskar dömur sem sögðust vera búnar að skoða hátt í 100 moskur og sannfærðu hann um að hann væri ekki að missa af neinu meiriháttar, þó hann kysi að sitja hjá.

Yfirleitt eru moskurnar fallegar að innan, en til þess að gera látlausar

Kvöldmatinn snæddum við á ítölska staðnum Cesar og verður að segjast eins og er, að þessi staður stendur góðum vestrænum veitingastöðum fyllilega á sporði, jafnt í umgerð sem mat. Starfsstúlka í gestamóttökunni benti okkur á þennan stað og þegar við báðum um leigubíl til að fara þangað, kom framkvæmdastjóri hótelsins aðvífandi og krafðist þess að fá að aka okkur þangað sjálfur. Hann vildi allt fyrir okkur gera karlinn þó að við vidlum ekki snæða á hans ágætu veitingasölu í hótelinu. Vel saddir félagar sem lögðust í koju þetta kvöldið. Eknir 306 km

Kvöldstemning af þaki tehúss í Yazd