Haldið til Shiraz

Nakin fjöllin í hita og þurrki

Frá Arg-E-Yadid hótelinu í Yazd lögðum við upp kl 9, beint inn á veg sem liggur um fjöllin í áttina til Shiraz. Náttúrufegurðin þarna í auðninni og algerlega gróðursnauðum fjöllunum er engu lík, þar sem hver fjallgarðurinn rís upp af öðrum og maður sér þá í gegnum dulúðugt mistur.  Sem betur fer þurfti fararstjórinn að stoppa einu sinni eða tvisvar til að endurræsa ratarann í símanum sínum, sem trúlega var kominn á yfirsnúning vegna mikillar yfirferðar og náði ég þá að bæta fáeinum myndum í gagnasafnið.

Fengum okkur eitthvert góðgæti í vegasjoppunni hjá þessum dömum

Við vorum enn að aka í eyðimörk, en þegar dagleiðin var tæplega hálfnuð gjörbreyttist landslagið og við tóku gróðursælar lendur, akrar miklir, grænmetisgarðar og ávaxtarækt. Á leiðinni náðum við liðlega 2.500 m hæð á fjallvegum og var hitinn þægilegur þar uppi, um 22 gráðurnar, en Shiraz er í einhverjum 1.200 metrum og vel heitt á daginn, en afar þægilegt eftir að skyggir.

Á vegunum er mikill fjöldi gamalla Benz vörubíla, sem eru með fæðingarvottorð skráð snemma á áttunda áratugnum og er óskemmtilegt að lenda á eftir þeim upp brekkur. Sé ég stundum fararbroddin hverfa í eimyrjustrók þar sem hann ekur framúr slíkum farartækjum í hæðóttu landslaginu og á þá sjálfur eftir að halda í mér andanum á meðan ég kem mér sem hraðast fram fyrir þá. Ósjaldan standa þeir svo með húddið opið á þjónustumiðstöðvum við veginn, sennilega svolítið viðhaldsfrekir.

Margir fararskjótarnir eru komnir nokkuð til ára sinna

Eina túristastoppið á leiðinni til Shiraz er við minjarnar í Pasargadae, þar sem hæst ber grafarstein á stalli miklum sem stendur þar einn og sér. Að sögn fræðimanna er þetta hinsti dvalarstaður Kýrusar mikla sem stofnaði heimsveldi Persa á sjöttu öld fyrir Krist og byggði Pasargadae sem höfuðborg sína. Eitthvað lærði ég um Kýrus sem barn í sveitinni og var svo hrifinn af nafninu, að síamskötturinn sem okkur var gefinn, fékk þetta merka nafn.

Grafhýsi Kýrusar Persakonungs, sem ríkti á 6. öld fyrir Kr

Frá Pasargadae var ekið beinustu leið til Shiraz þar sem við fengum inni á Chamran hóteli, fínasta herbergi með þremur rúmum á 16. hæð. Saba, vinkona Ali og ofurleiðsögukona að hans sögn, sækir okkur árla dags á morgun og fer með okkur í Persepolis.  Eknir 448 km