Komnir úr fjöllunum

Eftir því sem við færumst vestar, verður morgunverðarhlaðborðið líkara því sem gerist á okkar slóðum. Hér á Holiday Inn var það ljómandi gott, meira að segja hægt að velja um neskaffi úr vél, sterkt, en samt neskaffi, eða uppáhellt, sem reyndist nú vera óttalegt englapiss. Með því að blanda þessu saman var komið vel drykkjarhæft kaffi.

Þægilegur akstur, meira og minna á hraðbrautum um landbúnaðarhéruð, þar sem hver lófastór blettur er nýttur til grænmetis- eða ávaxtaræktar. Af og til sást þvottaaðstaða við bensínstöðvarnar og var tækifærið notað á einni slíkri til að þrífa hjólin, sem hafði síðast verið gert við rætur Araratfjalls. Ungur og elskulegur starfsmaður á bensínstöðinni benti okkur á gistihús í bænum, þar sem hann sagði að fara myndi vel um okkur. Vorum komnir tiltölulega snemma að ströndinni til Mersin, smábæ að við héldum, sem valinn hafði verið til næturgistingar.  Þegar til kom er þetta milljóna borg, ein af stóru hafnarborgunum hér á suðurhluta Tyrklands og ört vaxandi ferðamannabær með strandlengju mikilli. Útifyrir sigla fraktskipin svo þétt til beggja átta, að stundum sést varla bil á milli þeirra.

Hafi maður látið tyrkneska umferð pirra sig þegar við hófum að aka hér um, þá er hún hjóm eitt hjá umferðinni í Íran. Einnig eru vegirnir gegnumgangandi betri hér en í Íran og annað hitt, að hraðahindranir voru á aðalvegum við bæjarmörk allra bæja í Íran og jafnvel þegar vegurinn lá utan í bænum án þess að fara inn í hann, voru samt hraðahindranir á götunni, ekki ein eða tvær, heldur oftast fimm eða sex, allt frá knöppum bungum til hárra og breiðra bungna, grófyrjóttra, til að trufla aksturinn svo mikið sem verða mætti. Var þetta iðulega beggja vegna bæjarins og frekar hvimleitt til lengdar, þó venjast megi þessu eins og hverjum öðrum leiðindum svo sem. Trúlega er þetta samt nauðsynlegt til að hafa einhvern hemil á umferðarhraðanum, en hraðamörk voru afar illa virt, svo vægt sé til orða tekið. Þó var lögreglan mjög víða við hraðamælingar á vegum úti, en ekki mjög sjáanleg í bæjunum. Hér í Tyrklandi er engu slíku fyrir að fara og meira að segja kurteislegar vegakveðjur hers og lögreglu virðast alveg að baki þegar hingað er komið. Eknir 303 km.

Komnir úr fjöllunum