Bómull

Nú ökum við um hrjóstugar sléttur og rétt sést móta fyrir fjöllum í hitamistrinu við sjóndeildarhringinn. Á þessum frekar gróðursnauðu grjótmelum er samt fjöldi fjárhirða með hjarðir sínar á beit, svona um eitt til tvö hundruð skepnur í hóp. Einstaka nautgripahjarðir ber líka fyrir augu. Fyrr en varir erum við komnir í ræktarlönd aftur og nú blasa við víðáttumiklir bómullarakrar. Uppskeran er í fullum gangi, fólk við týnslu á ökrunum og vörubílar með fjallháar hleðslur af þessum varningi aka um vegina.

Bómullartýnsla

Af vegatálmunum hersins er það að segja að tálmanirnar eru ekki eins tíðar og í stað þungvopnaðra hermanna er núna léttvopnuð lögregla með umsjón á þessum hindrunum. Séum við stoppaðir er það aðeins til að eftirlitið hafi smá tilbreytingu, spyrja um okkar för og góða ferð.

Náunginn sem við hittum á hótelinu í gærkvöldi sagði okkur að á leið okkar í dag færum við framhjá afar merkilegum fornminjum, sem við höfðum alls enga hugmynd um að til væru. Þarna eru sem sé 12.000 ára gömul mannvirki og skv. því sem lesa má um þau, eru þetta elstu byggingaminjar sem vitað er um á þessari jörð. Þær eru í Göbekli tebe og samþykkti samferðungurinn að bæta skoðun á þessum stað við ferðplanið, svo hann var stimplaður inn í ratarann. Þegar við nálgumst svæðið teymir tækið okkur markvisst inn á æ mjórri og ómerkilegri götur og fer mér að finnast ótrúlegt að jafn merkur staður hafi jafn ómerkilega aðkomu og þessi leið er að verða.

Ekki tekur svo betra við, því allt í einu er mjóa malbikaða gatan orðin að illakandi malarstíg, eða öllu heldur einhvers konar kalkmalarstíg. Þarna var mér ljóst að tækið var búið að leið okkur í villur, stoppaði hjólið og skoðaði kortið, en svo virtist að við værum bara spölkorn frá áfangastað. Fararbroddurinn hins vegar lék á alls oddi, loksins komið eitthvert fútt í aksturinn og eins og hans er vandi í svona kringumstæðum, sló bara duglega undir nára. Sjálfur hélt ég mér í hæfilegri fjarlægð á eftir honum, bæði vegna þess að svona aðstæður eru ekki alveg minn tebolli, fer hægar yfir og varlegar og líka vegna hins að lofa kalkduftsskýinu sem hann þyrlaði upp, aðeins að setjast til ég sæi nú slóðina. Sem ég er að bögglast þetta á slóðanum sé ég hvar stór kalkduftsflutningabíll kemur á móti okkur og skýið á eftir honum birgir fullkomlega sýn á veröldina alla, bara eins og versti snjóbylur. Inn í þessu myrka skýi lendir formaðurinn á ferð á úfnum troðningunum, en sjálfur fikra ég mig út í kant og stoppa þar og þurfti að bíða drykklanga stund í logninu áður en skýið var það fallið að eitthvað mótaði fyrir heiminum fyrir framan mig. Stuttu síðar erum við komnir þangað sem tækið vísaði okkur, í kalknámuna, takk fyrir. Engar fornminjar hér.

Þessi kalknáma var svo sannarlega ekki á planinu okkar, en stundum taka tækin völdin

Tæknimaðurinn í hópnum fer nú í ratarann aftur og niðurstaðan af því er að aka áfram og ekki hlustað á neinar úrtölur efasemdamannsins, því nú er gaman hjá okkar manni. Leiðir tækið okkur kílómetrunum saman eftir endalausum malarstígum og renna ekki á mig bara tvær grímur, heldur þrjár eða fleiri. En samferðungurinn er í essinu sínu og þyrlar upp ryki á fleygiferð, ofurkátur með svona troðningaakstur á meðan ég dragnast á eftir honum, fullur tortryggni um stefnuna sem tekin hefur verið. Um síðir lendum við þó aftur á malbiki og fljótlega þar við veginn, er fólk við bómullartýnslu búið að koma sér fyrir undir tré til hádegisverðar. Þarna var kærkomið tækifæri til að á smá stund og skiptast á orðum við fólkið með hjálp gúgúls. Er okkur boðið að tylla okkur og þiggja góðgerðir.

Í matarboði hjá bómullartýnslufólki

Tækið vísar okkur áfram þessa leið og fer svo að lokum að við náum settu marki eftir að hafa vaðið í einhverjum fjallabaksleiðarvillum lengi dags.

Þessi er orðinn mikill áhugamaður um fornminjar

Þarna er stór upplýsingamiðstöð með stórvel unnu fróðleiksefni um minjarnar og rannsóknir á þeim. M.a. er á vegg miklum sýnt brot úr þætti frá National Geographic sem titlaður er „Point zero“, við vorum sem sé komnir á byrjunarreit. Hafa menn með rannsóknum sem hófust 1995, komist að þeirri niðurstöðu að hér efst upp á háu fjalli, séu þessar steinaldarbyggingar hof eða musteri, en ekki íbúðarhús, alla vega notuð til trúarlegra iðkana.

12.000 ára byggingar

Ráðgáta er alltént, svipað og í Stonehenge reyndar löngu síðar, hvernig fólk gat dröslað allt að 60 tonna steinblokkum þangað upp og komið þeim fyrir þarna á fjallinu fyrir 12.000 árum.

Einhvers konar hof eða musteri

Við gáfum okkur góðan tíma til að skoða þessi fornu mannvirki og fræðast um þau áður en við héldum áfram. Þó ég fyndi fyrir miklum áhuga hjá félaga mínum að fara sömu leið tilbaka og við komum, þá virti hann óskir mínar um að halda sér bara við hefðbundnar leiðir á malbikinu slétta. Gistum í Gaziantep eftir 373 km akstur.