Van vatnið

Fyrsta hálftímann ökum við afar huggulega leið meðfram Van vatninu, með snarbrattar hlíðar á aðra hönd og smágárað vatnið á hina.

Van er feykistórt stöðuvatn

Síðan er þetta fjallaakstur með svipuðu sniði og undanfarna daga í þægilegum svala, um 18-20 gráðum. Á vegi okkar verða göng nokkuð löng og þegar þeim sleppir lendum við í smá regni. Sáum svart úrkomuskýið fyrir ofan okkur, en vorum nokkuð snöggir að skutlast undan því og urðum ekki varir við frekari vætu það sem eftir lifði dags. Ský dempuðu geisla sólar fram eftir degi, en svo lá leiðin niður úr fjöllunum og var þá enginn filter lengur á himni, heldur sendi orkuboltinn mikli heita strauma sína óhindrað á hjólandi ferðalangana.

Þægilegur svali var í fjöllunum

Ekki voru nema 5 vegatálmar hersins á leið okkar í dag. Tvisvar vorum við stöðvaðir og skipst á kveðjum og hvaðan eru þið og síðan brosað og kvatt. Heimamaður sem við spjölluðum við á hótelinu nú í kvöld upplýsti okkur aðspurður um, að þessi afskipti hersins af umferðinni hér sunnan til í landinu, væru búin að vera viðvarandi ástand um margra ára skeið. Ég reyndi að forvitnast hjá honum út á hvað árásir Tyrkja á Sýrland gangi og útskýrði hann það fyrir mér í grófum dráttum, en þar sem mig skortir alla grunnþekkingu á málinu, finnst mér betra að tjá mig ekki mikið um það.

Samferðungurinn hefur skoðað það á landabréfi, að við erum í um 100 km fjarlægð frá landamærunum og einn hermaðurinn sem gaf sig á tal við okkur spurði hvort okkur þætti ekki öruggara að færa okkur örlítið norðar á kortið. Þar sem allt hefur út af fyrir sig gengið vandræðalaust til þessa, sjáum við ekki ástæðu til að breyta aksturstefnunni, en látum okkur líða vel í því fallega umhverfi, sem búið var að segja okkur að einkenndi svæðið, sem leið okkar liggur um. Eknir 315 km.

Það fer vel í mann að aka um svona landslag