Snæddum árbítinn innan um hóp af kínverskum ferðamönnum, sem bendir til að við séum hér svolítið á túristaslóðum. Við eftirgrennslan virtist mér markverðast til skoðunar: stóra moskan, blómagarður og nokkur grafhýsi. Við létum ekki glepjast af þessum spennandi attraksjónum, en brunuðum suður til Efesus, þangað sem Sál frá Tarsus skrifaði frumkristnum söfnuði lífsspeki og siðferðisleiðbeiningar sem nú eru hluti af hinni góðu bók, reyndar eftir að hann fékk vitrun og breyttist í Pál postula.
Á leiðinni ókum við að mestu eftir splunkunýrri hraðbraut með þrjár akreinar í hvora átt. Þægilega lítil umferð var um veginn, þannig að við gátum haldið okkar striki nokkurn veginn viðstöðulaust. Hér þarf að greiða vegatolla og reiknaðist mér til að við værum að greiða um sem nemur 7 krónum á km pr hjól, eða 700 ísl krónur fyrir hverja 100 km. Kannski er það skýringin á því hversu fáfarinn þessi nýi vegur er. Bensínstöðvar meðfram veginum voru allar í byggingu, sumar samt búnar að opna en aðrar meira á frumstigi smíðaferlis. Nú komst hitinn upp í 35 gráður, en það er nú svo sem bara það sem við reiknuðum með, þótt heitt sé.
Í Efesus er gríðarlegt samansafn fornminja og svæðið að sjálfsögðu á fornminjaskrá Unesco. Elstu minjar þarna eru um 6.000 ára gamlar, en merkasti tími borgarinnar var á dögum Rómverja, þegar hún var fjórða stærsta borgin í öllu Rómaveldi á eftir Róm, Alexandríu og Antíokkíu. Þá bjuggu hér minnst 250.000 manns. Svo voldug og mikilvæg var borgin að Artímesarhofið í staðnum var það stærsta í heiminum og eitt af þeim frægu 7 undrum hinnar fornu veraldar. Reyndar er borgin sögð stofnuð á 10. öld f.Kr. af Androclusi, prinsi af Aþenu, sem flúði frá Grikklandi og á því á sinn hátt grískar rætur.
Einungis er búið að grafa upp um 20% af fornminjunum sem þarna eru, en mest áberandi er eðlilega hringleikhúsið, sem var upphaflega byggt af Grikkjum og tók um 25.000 manns í sæti. Rómverjar endurbættu svo leikhúsið á fyrstu öld, en þá gerði Ágústus keisari borgina að höfuðborg Litlu-Asíu.
Búið er að grafa upp m.a. götur, hof, íþróttahús, bókasöfn og almenningsklósett, þar sem betra fólkið gat keypt sér sitt eigið sæti. Og svo náttúrulega hóruhús sem voru eðlilegur hluti hamingjusams fjölskyldulífs þess tíma.
Þegar við leituðum að hóteli þarna í námunda í gps tækinu, var Hilton eina nafnið sem við þekktum og stefnan því tekin á það. Reyndist gistihúsið frábærlega staðsett gegn snekkjuhöfninni á miðri strönd bæjarins Kusadasi, nokkru norðan við Marmaris sem var vinsælt hjá landanum hér um árið. Það var eiginlega ekki annað í stöðunni en að láta eftir sér að þiggja næturskjól á þessum vinalega stað.
Síðan smá kvöldganga og léttur kvöldverður áður en rölt var á gistihúsið og hripaðar niður línur um atburði dagsins. Eknir 416 km