Bómullarhöllin

Frá hinu huggulega Hilton hóteli eru um 200 km til Pamukkale, þangað sem förinni var nú heitið. Þar eru stórmerkileg náttúrufyrirbrigði, samfella af allstórum kalsítkerjum utan í mikilli hlíð, sem myndast hafa á árþúsundum vegna kalkúrfellinga úr volgu vatni sem flæðir þarna alls staðar niður hlíðina. Þetta er hreint út sagt mögnuð náttúrusmíð, yfirmáta áhugaverð og einstaklega falleg.

Pamukkale merkir „bómullarhöllin“. Hlíðin að baki radíóvirkjans gæti úr fjarska virst vera þakin bómull

Þarna getur fólk gengið berfætt eða í sokkum (skór eru bannaðir til að skaða ekki kalsítmyndanirnar) upp alla hæðina og baðað sig eins og það lystir. Efstu kerin eru heitust, milli 30 og 40 gráður og smákólna þegar neðar dregur.

Kalsítúrfellingar úr volga vatninu mynda ótal svona ker
Myndatökumómentin….

Efst á hæðinn eru miklar fornminjar, grísk-rómverska spa-borgin (baðborgin) Hieraplis og eru bæði náttúran hérna og minjarnar á verndarskrá Unesco. Við ferðalangarnir höfðum teigað svo ríkulega af minjum Efesus í gær, að við áræddum ekki að taka inn annan jafn stóran skammt af Rómverjum og Grikkjum í bili og geymdum því minjarnar til næstu ferðar, en sem fyrr segir vorum við bergnumdir af náttúrunni.  

Volga vatnsins notið rétt eins og heima
Stórkostlegt að upplifa þessa mögnuðu náttúrusmíð

Eftir að hafa drukkið í okkur stemningu þessa kyngimagnaða staðar, héldum við áfram í austurátt og settum markið á bæinn Afyonkarahisar sem er í liðlega 200 km fjarlægð og fengum þar inni á ljómandi gistihúsi, tvö samliggjandi herbergi fyrir minni fjárhæð en ódýrustu svefnpokapláss heima. Þetta er milli 700 og 800þús manna borg en lætur lítið yfir sér þar sem hún liggur í yfir 1.000 m hæð. Greinilegt hvað kvöldið er svalara hér en niður við sjóinn.

Eknir 430 km