Afyon til Kappadocia

Föstudagurinn 13. fór í akstur frá Afyon til Kappadocia. Mjög þægileg keyrsla, lítil umferð og hitinn stærsta hluta leiðarinnar ekki nema um 22 gráður. Vegurinn liggur í töluverðri hæð og virtist mér fjöll og ásar vera grjótmelar, en allt grasi vaxið upp í efstu eggjar öfugt við heima. Hér vorum við greinilega komnir upp fyrir trjálínu, að undanskildu greni og furu eða öðrum þeim líkum trjátegundum, sem mynduðu litla skógarreiti hér og þar. Vorum komnir tiltölulega snemma í hina ólýsanlegu ævintýraveröld Kappadocia og verður morgundeginum öllum varið í skoðunarferð um þennan heillandi heim sandsteinsskúlptúra.

Íbúðablokk fyrri ára í Kappadocia

Á annars tiltölulega tilbreytingarsnauðri ferð okkur um göturnar þennan daginn, lentum við þó í því í fyrsta sinn í ferðinni að vera stoppaðir af lögreglu og það ekki bara einu sinni, heldur tvisvar sama daginn. Í fyrra skiptið stóðu einir 6 laganna verðir á allnokkru plani við veginn og stöðvuðu bíla hips um haps og bentu þeir okkur rakleiðis inn á planið til sín. Ekki urðu mikil orðaskipti, en við áttuðum okkur þó á þeirri tyrknesku að ökuskírteina var óskað. Þetta voru hinir vinalegustu karlar og nenntu varla meira en rétt líta á það sem við höfðum að sýna, en buðu okkur í staðinn smákökur og súkkulaði og fóru okkar samskipti þannig að myndir voru teknar af þeim með okkur og okkur með þeim og kvöddu þeir okkur að lokum hver og einn með handabandi og brosi.

Þessir laganna verðir, sem voru við umferðareftirlit, reyndust hinir ljúfustu og gáfu súkkulaði og smákökur

Aðeins nokkru síðar er okkur enn bent út í kant, þar var aðeins einn á götunni og annar í bíl. Fengu þeir sömu dokument og hinir sem við höfðum nýverið kvatt, en í þetta sinn voru skírteinin grandskoðuð og sá í bílnum var í heilmiklu talstöðvarsambandi og tölvuuppflettingum með ökuleyfin okkar í höndunum. Ekki kærðu þeir sig um myndatökur, en voru kurteisir og virkuðu bara hinir þægilegustu drengir, afhentu okkur aftur, það sem okkar var og kvöddu með virktum.

Eknir 446 km