Stuttur en snarpur göngutúr um bæinn svona til að liðka skankana og koma blóðinu á hreyfingu, áður en við settumst að morgunsnæðingi. Að afloknum árbít voru gps-tækin á hjólunum stillt á Sibiu, borg rétt norðan við Karpatafjöllin, þar sem hinn margfrægi 100 km langi, snarbugðótti vegur Transfagarasan liðast yfir fjallgarðinn og Jeremy Clarkson gerði skemmtileg skil í einum af sínum mögnuðu Top Gear þáttum.
Ókum í dag um landbúnarðarhéruð, ýmist í hæðóttu landslagi, jafnvel fjalllendi, sem og yfir víðáttumiklar sléttur, fyrst í Ungverjalandi og síðan tók Rúmenía við. Mest bar á víðfeðmum sólblómaökrum á víxl við enn stærri maísakra, inn á milli heljarinnar grænmetisekrur og ávaxtatré. Á landamærunum yfirgáfum við Shengen og þurfti því að framvísa passa, ökuskírteini, skráningarskírteini hjólanna og staðfestingu á tryggingum. Þetta var allt til taks og fór ungverska daman fyrst yfir gögnin og þegar hún hafði samþykkt skilríkin fyrir sitt leyti, að afloknu miklu kontróli í tölvum embættisins, rétti hún ábúðarmikil rúmenskum starfsbróður sínum á skrifstofunni við hliðina dokumentin og fór hann einnig skilmerkilega yfir þau áður en við fengum þau aftur í hendur og héldum för okkar áfram.
Akstur um sveitavegi og samfellda keðju þorpa sem þeir þræða sig í gegnum, er tafsamur, meira og minna er á þessum brautum 50 km hámarkshraði. Nokkuð var einnig um krókótta fjallvegi, stundum með ofurslitnu malbiki, þannig að við komumst ekki alla leið á áfangastað, en renndum inn í smábæinn Aiud og duttum inn á hótel, ja hvað haldið þið, nema Viktoria, en af annarri stjörnugráðu en gistihús síðustu nætur með sama nafni. Eknir 365 km