Vlad Dracula

Frá Aiud var ekið beinustu leið í Bran kastala í Transilvaníu, sem að sjálfsögðu er langt frá því að vera bein leið. Enn og aftur landbúnaðarhéruð og svo kræklóttir fjallvegir í bland. Mikið er um vegaframkvæmdir, víða búið að fjarlægja annan vegarhelminginn á ca 1-3 km löngum köflum til að byggja alveg nýjan og hinn helmingurinn tekinn síðar. Umferðinni varð eðlilega að stýra með umferðarljósum og mynduðust langar biðraðir við rauða ljósið meðan bílastrollan silaðist framhjá úr hinni áttinni og þannig á víxl. Þar fyrir utan er búið að byggja nýjar hraðbrautir og fleiri í smíðum. Nýja gps tækið mitt sem ég keypti hjá BMW fjöldskyldunni í Dresden er með 2017 uppfærslu, sem ég hafði ekki hugmynd um, hélt einhvern veginn að þegar svona fín tæki eru keypt af jafn virtu fyrirtæki, að þá væri það afhent með nýjustu uppfærslu hugbúnaðar. Þeir béemmvaffarar fá þarna stóran mínus í kladdann fyrir skammarlegan skort á þjónustu. Inn á 2017 uppfærslunni eru ekki allar nýju hraðbrautirnar sem við ókum og því var vélhjólakallinn á skjánum hjá mér akandi úti í móa, klórandi sér í hausnum, hálf áttavilltur ræfillinn.

Á leiðinni ber margt fyrir augu, mikla akra, landbúnaðartæki af stærri gerðinni, þorp og bæi og skógi vaxna ása og fjöll og eins og vera ber í sannkristnu landi, sægur af margturna guðshúsum eins og tíðkast í austurkirkjunni.

Bran kastali Dracula greifa, ansi rafmagnaður.

Í Bran kastala bjó á 15. öld Vlad Tepes prins eða Vlad Dracula (sem var ættarnafnið). Hann átti í styrjöldum, bæði um völd við þá sem nærri honum stóðu, en einnig var héraðið Vallakía, þar sem hann barðist um völdin, í stöðugri baráttu við Ottomannaveldið (Tyrki), sem héraðið heyrði undir. Þegar hann hafði sigra, lét hann gjarna stjaksetja og staurfesta þúsundir úr liði andstæðinganna án minnstu miskunnar og festist þar af leiðandi ímynd blóðþyrstrar skepnu við prinsinn. Bækur um grimmd þessa þjóðhöfðingja voru meðal fyrstu metsölubóka á þýska málsvæðinu og voru þær kannski að nokkru undanfarar bókarinnar sem Bram Stoker skrifað um vampíruna Dracula greifa árið 1897 og hefur sannarlega haldið nafni þessa kaldrifjaða stríðsmanns á lofti. 

Sá eini sanni…

Kastalann skoðar maður í ljósi sögu þessa manns, án þess að byggingin sem slík sé sérstaklega eftirminnileg nema kannski horrortólin, sérhæfð tæki til viðurstyggilegra pyntinga. Hins vegar er í næsta nágrenni annar kastali, Peles, sem er algert djásn í sínu umhverfi, jafnt utan sem innan.

Peles, sumarhöll Rúmeníukonunga

Þetta slot vildum við að sjálfsögðu upplifa líka, svo stefnan var tekin þangað eftir gott og sterkt kaffi og skál af ís. Á leiðinni lentum við í 10 km umferðarteppu, því það var einhver bæjarhátíð í smábæ sem við ætluðum að fá okkur gistingu í, en þar var þá náttúrulega ekkert rúm að fá. Ekki vorum við þó jafn illa staddir og Jósef og frú hér um árið, sem urðu að láta sér fjárhúsið duga til næturgistingar, við ókum bara spölkorn lengra og fengum inni á Hotel Maximilian í Busfeni, uppi á hanabjálka, í hálfgildings íbúð, fyrir jafngildi hálfs svefnpokapláss í Landmannalaugum. Karlinnn sem rekur gistinguna kom úr húsi sínu ofan við hótelið með flösku af plómusnafs og hellti í 2 staup við innritunarborðið og lét okkur ekki hafa herbergislykil fyrr en við höfðum tæmt glösin. Þetta var hans eigin framleiðsla og bara skratti gott. Eknir 298 km