Fínn sumarbústaður

Bygging Peles kastala hófst árið 1873, var í byggingu með viðbyggingum vel fram á síðustu öld, eða til ársins 1914. Þetta var sumardvalastaður og veiðihús Rúmeníukonunga. Honum hefur verið afar vel við haldið og má Ceaucescu garmurinn eiga það að hann lokaði slotinu og lagði áherslu á viðhald húsanna. Á seinni árum hefur setrið verið notað við gerð nokkurra alþjóðlegra kvikmynda. Við tókum stærri túrinn um stiga og sali hallarinnar sem sannarlega gladdi augað. Þrír konsertsalir, lítill leikhússalur sem breyttist í bíósal í tímans rás og vistarverur íbúanna var meðal þess sem við fórum um.

Fínn sumarbústaður þetta…

Eftir þetta, kaffi og kaka og síðan á hjólin áleiðis til Búlgaríu. Tvö slot á jafnmörgum dögum var að mati radíóvirkjans orðinn doldið mikill túrismi. Við erum í missión og það þarf að halda áfram. Við komumst vandræðalaust yfir landamærin og settum stefnuna á Ruse, bæ á stærð við Reykjavík sem er einn af mikilvægustu hafnarbæjum landsins, því hér rennur Dóná hjá, annað mesta vatnsfall Evrópu, á leið sinni í Svarta hafið.

Kvöldstemning í Ruse

Hlutirnir stóðu þannig af sér að við náðum ekki öðru en banana og vatnsflösku í hádegismat og var því ákveðið að gera vel við sig í gistingu og mat. Fundum þetta flotta hótel við aðaltorg bæjarins, Hotel Dunav Plaza og kvöldskattinn snæddum við á matsölunni Terrace, sem bauð upp á hreint út sagt frábæran mat og ljómandi þjónustu, enda mun þetta vera eitt besta vertshúsið í bænum. Eknir 218 km.