Að landamærum Tyrklands

Frá huggulega bænum Ruse var nú stefnan sett á landamærin yfir til Tyrklands og að bænum Edirne, sem er fyrsti stærri bær handan landamæranna á þeirri slóð sem við fórum um. Þar sem við vorum að leggja af stað á sunnudagsmorgni, var bókstaflega engin umferð og þannig hélst það að mestu leyti allan daginn. Einkum var þægilegt að vera laus við gámaflutningabílana. Þrátt fyrir litla umferð var lögreglan afar sýnileg, en fararbroddurinn í túrnum gætir mjög vel að hraðamerkingum og heldur okkur réttu megin við lögin á þjóðvegunum.

Sólblóm út að sjóndeildarhring í allar áttir

Á leið okkar ókum við framhjá stórum og flottum bújörðum og sem dæmi um um stærð akranna tók ég mynd af sérdeilis fallegum sólblómaökrum sem teygðu sig beggja vegna vegar svo langt sem augað eygði. Jafnframt urðu á vegi okkar þorp og smábæir, ekki síst í fjalllendi, þar sem flestar byggingar voru lúnar og allt atvinnulíf og búskaparhættir var smærra í sniðum. Þar gegndi t.d. víða hestvagninn enn sínu gamla og góða hlutverki.

í sveitum Búlgaríu má víða sjá gamla tímann í bland við nútíma landbúnaðartæki

Einhvern veginn atvikaðist það svo að lítið varð úr hádegismat hjá okkur, en við stoppuðum á lítilli matsölu við veginn, fengum okkur kaffi og eitthvað sem líktist hálfri samlokusneið, skorin í þríhyrning og steikt í eggi. Þetta var hitað fyrir okkur í ofni og þegar við fórum að gæða okkur á þessu brauði, reyndist það vera hreinn ostkubbur sem steiktur hafði verið á pönnu og leit því út eins og eggjabrauð. Skiptum þessari mjólkurafurð á milli okkar með sitt hvorum kaffibollanum.

Á landamærunum var stutt biðröð, aðeins fáeinir bílar á undan okkur. Vorum greinilega á góðum tíma, lauslega upp úr hádegi á sunnudegi og þó öll skjöl væru margskoðuð á þeim 100 metrum sem athafnasvæði landamæranna er, tók ferlið ekki meira en svona kannski tæpa klukkustund. Við vorum eins og álfar út úr hól, gengum ávallt kirfilega frá pappírum okkar í töskur hjólanna eftir hverja skoðun, gangandi út frá því að hún væri sú síðasta, en eftir hverja 10 m var nýtt skýli þar sem framvísa þurfti sömu skjölum og skilríkjum og í síðasta bás, 5 sinnum á um 100 m kafla. Þegar við vorum komnir í gegnum þetta skondna ferli og ókum inn í Tyrkland, stóð við landamærin um 10 km röð gámabíla sem biðu eftir afgreiðslu frá Tyrklandi til Búlgaríu. Væri samsvarandi röð á höfuðborgarsvæðinu, næði hún frá t.d. Nesklúbbnum að Elliðaánum.

Þegar við renndum inn í bæinn Edirne og stefndum á hótelið sem búið var að setja í staðsetningartækin, vorum við umkringdir moskum, augljóslega lentir í veröld bænakalla, 5 sinnum á sólarhring. Það sem við vissum ekki er að Selimiye moskan, sú stærsta í bænum og sú sem fyrst varð á vegi okkar er á heimsminjaskrá og þykir ein merkasta og fallegasta bygging arkitekts frá 16. öld, sem á samt nokkrar af þekktustu fornbyggingum Istanbuls. Edirne var nefnilega höfuðborg Ottomannaveldisins áður en hún var flutt til Miklagarðs.

Selimiye moskan er á heimsminjaskrá, hönnuð af Mimar Sinan, stjörnuarkitekt Ottomannaveldisins

Sofum við opinn gluggann til að missa ekki af bænaköllunum, enda þrjár eða fjórar moskur umhverfis hótelið og helst viljum við heyra sönglandann frá þeim öllum í árdegisbæninni kl 5:00 að morgni. Eknir 330 km