Regnið sem átti að vera í dag samkvæmt spánni í gær hefur einhvern veginn fjarað út af veðurkortinu í morgunsárið, svo við drifum okkar bara af stað eftir morgunverðinn. Ef eitthvað er, verður enn strjálbýlla eftir því sem austar dregur, en landslagið minnir stundum óneitanlega á íslenskar heiðar, hæðir og ásar, dalir og háfjöll í fjarska. Við erum enn að hækka okkur og komumst hæst í 2.158 m, erum þá liðlega hálfum Hallrgímskirkjuturni ofan við Hvannadalshnjúk, svona til að setja hlutina í samhengi.
Lítið var stoppað á leiðinni, en lentum þó enn í því að lögreglan vísaði okkur út í kant til sín, enda svo sem lítið að gera hjá þeim á þessum fáförnu slóðum og tilbreyting í samskiptum við erlenda vélhjólapilta. Okkur þótti þeir nokkuð slakir, þessir laganna verðir, því nú vildu þeir ekki einu sinni sjá ökuskýrteini okkar. Svo mikið skildum við í Tyrknesku með hjálp fingramáls og bendinga, að þeir forvitnuðust helst um hvaðan við komum og hvert halda skyldi. Ekki voru þeir aflögufærir með smákökur eða súkkulaði, alla vega var ekki boðið upp á slíkar trakteringar að þessu sinni. Við hefðum sennilega ekki heldur komið neinu niður eftir að hafa gert ríkulegu hlaðborðinu á Sivas Büyük Otel feikilega góð skil. Þar var m.a. boðið upp á fransbrauð eins og þau fengust í Björnsbakaríi á árum áður, mjúkt brauð með stökkri skorpu.
Í borðinu eru tvær skálar og í þeim einhvers konar mjólkurvörumassi sem ég hélt helst að væri ostur. Fæ mér smá úr annarri skálinni, og viti menn, er þetta þá ekki smjör, svona bögglasmjör eins og við gerðum í sveitinni þegar mjólkufræðingar fóru í verkfall og hella varð niður mjólkinni. Þá var rjómanum fyrst fleytt ofan af og gamla Kenwood hrærivélin framleiddi hvert smjörkílóið á eftir öðru. Nostalgían tók yfir þegar ég smurði fransbrauðssneiðina með þessu einstaka viðbiti og toppaði svo góðmetið með hunangi sem lak þarna úr stórri vaxköku.
Aksturinn í dag var einstaklega skemmtilegur, hitinn þægilegur, fór mest í 24 gráður og svo niður í 13. Í þeirri litlu umferð sem á þessum vegum er, líður hjólið átakalaust í gegnum umhverfið án nokkurs áreitis á ökumann, hálfpartinn svífur eftir aflíðandi bugðum yfir heiðavegi og þræðir sig mjúklega í gegnum krókóttar dalbrautir í botni þröngra dala. Með þægilegan gustinn í fangið og ilminn af náttúrunni í nefinu, er sem maður samsamist umhverfinu og verður eitt með þeirri veröld sem um er farið. Og þá varð mér hugsað til míns góða vinar, Kristjáns hringfara, sem hefur eflaust verið innblásinn að þessari tilfinningu þegar hann nefndi netsíðuna sína „Sliding through“.
Vorum komnir frekar snemma til Erzincan þar sem við komum okkur fyrir á enn einu ljómandi gistihúsinu fyrir fáeinar krónur. Eknir 249 km