Næturskjól í Sivas

Veðurútlitið var ekki spennandi, rigningu spáð svo til alla leiðina sem fara átti í dag. Og það stóðst, 268 km eknir, svo til allir í rigningu, þrumum og eldingum. Við höfðum svo sem rætt það, að ef við lentum í rigningu væri best að finna sér hótel og halda áfram þegar upp styttir. En hér var ekki margra kosta völ, höfðum sett stefnuna á bæinn Sivas og á leiðinni þangað voru ekki margir fýsilegir kostir til næturgistingar. Fararbroddurinn var kominn vel á annað hundrað km án pásu og taldi ég víst, að hann tæki engan séns á því að stoppa og láta mig tala sig inná að reyna að finna afdrep í einhverjum smábænum á leiðinni, sem þó voru ekki margir. Þegar hann loks lét svo lítið að leita skjóls og fá sér tesopa, voru ekki nema um 140 km eftir á áfangastað og var sammælst um að stoppa kannski tvisvar á þeim spotta og fara ekkert allt of hratt yfir. Hitinn var kominn niður í 13 gráður og leiðinda strekkingur á köflum. Við ökum hér eftir miðjum Anatólíuskaganum í um 1.000 til 1.300 m hæð, sem skýrir hitastigið. Um miðbik leiðarinnar sáum við í fjarska fjall með snækolli á toppnum. Ekki það sem fyrsta kemur upp í hugann þegar rætt er um Tyrkland.

Ökuþórinn stiginn úr söðlinum, bara slakur á kvöldgöngu um bæinn

Á leiðarenda náðum við vandræðalaust og ókum beint á Sivas Büyük Otel í miðbænum, en því hafði verið stillt inn í „ratarana“ okkar. Þetta reyndist hið fínasta hótel, með flottum rúmgóðum herbergjum, spa í kjallaranum og hársnyrtistofu og annarri þjónustu innanhúss. Fyrir verelsið máttum við punga út sem nemur kr. 5.100 og var þá morgunverðarhlaðborð innifalið.

Þessi elegans var næturskjól okkar í Sivas

Undir kvöld stytti upp og röltum við þá um stræti og torg, nærðum okkur og undruðumst með sjálfum okkur yfir því, hve nútímalegt hér er og hreint í þessum 350.000 manna bæ, eins og reyndar víðast, þar sem leiðir okkar hafa ratað hér í landinu.

Fyrsta moskan sem við sjáum með verslanir og veitingastaði undir helgidóminum