Morguninn tókum við að venju rólega, enda einstaklega góður árbíturinn hjá Hilton fjölskyldunni og sérdeilis vistleg aðstaða á veröndinni strandmegin undir hótelveggnum. Fyrir utan hvað hlaðborðið var fjölbreyttara og flottara en við höfum átt að venjast og var þó undan fáu að kvarta, meira að segja tvær tegundir af venjulegum osti í sneiðum, eins og við þekkjum hann. Svo fór að ég sótti tölvuna og skráði niður atburði liðins dags og kom þeim texta inn á bloggið áður en við gerðum upp og héldum á braut, aldrei fyrr svo seint sem nú, klukkan langt gengin í ellefu.
Þegar við tékkuðum okkur út var í afgreiðslunni afskaplega líflegur og skemmtilegur ungur maður sem talaði ágæta ensku, bæði hratt og mikið. Sagði okkur m.a. að hann hafi mætt á reiðhjóli í vinnuna í dag og ætlar að gera það framvegis í stað þess að nota bílinn. Þetta væri ekki nema um hálftími akstur hingað, en þar sem hann býr í hæðunum ofar í bænum, yrði hann nú öllu lengur heim og sennilega alveg búinn á því, þegar heim væri komið. Nú, þá verður frúin ekki ánægð með þig, ef allur vindur er úr þér þegar þú kemur heim, gantaðist ég við hann. Þá rétti kappinn upp báðar hendur með sundurglennta fingur sem allir voru hringlausir og upplýsti okkur um að hann væri skilinn og hann var svo kátur með þetta, að það var eins og að hann hefði unnið úrslitaleik í fótbolta.
Sjálfur hafði ég ekki skoðað kort af leiðinni sem aka átti í dag, hélt að þetta væri þægilegur en seinfarinn akstur meðfram ströndinni, vegna þéttbýlis og umferðar. Raunin var reyndar aðeins önnur, víst fylgdum við ströndinni að mestu, en allstóran hluta leiðarinnar ókum við yfir fjöllin meðfram strandlengjunni og utan í hlíðunum í um fjögur til fimm hundruð metra hæð á vegum sem voru eins og að aka Hellisheiði eystri samfellt í tvo tíma. Þó aksturinn væri krefjandi, var þetta afar skemmtileg leið og einstakt útsýni svona hátt ofan úr hlíðunum, yfir ströndina, hafið og nærliggjandi fjöll og bæi.
Þar sem við fengum okkur hádegissnarl aðstoðaði okkur gestur á staðnum, Yilmaz Aksoy, við að panta matinn. Hann talaði reyndar enga ensku, en reiprennandi þýsku. Hefur verið búsettur í Þýskalandi frá því að hann lærði þar rennismíði fyrir fjórum áratugum síðan og er nú kominn á eftirlaun. Karlinn á íbúð á hæðinni ofan við veitingasöluna og dvelur hér í góða veðrinu og lága verðlaginu eins og hann lystir, en fer síðan reglulega heim til Stuttart, þar sem konan hans á enn eftir að vinna í fimm ár, þar til hún kemst líka á eftirlaun. Skrafhreifinn karl og kátur með sitt.
Þegar við nálgumst áætlaðan næturstað, er stoppað á bensínstöð til að vinsa úr hótellista ratarans. Ég spyr samt starfsfólk á bensínstöðinni um góða gistingu, sem stundum hefur reynst vel, og er okkur vísað á Michell hótelið sem þarna er rétt hjá. Þar fáum við gistingu á góðu verði og það er ekki fyrr en við erum beðnir að rétta fram handlegginn til að setja á okkur Michell armbandið, sem við erum upplýstir um að innifalið í gistiprísnum sé öll neysla á mat og drykkjum á dvalartímanum.
Til að auka á ánægjuna skemmti svo kúbanskur dansflokkur við sundlaugarbarinn um kvöldið, þó sumir í ferðahóp okkar hafi ekki haft þrek til að fylgjast með þeirri skemmtan til enda. Eknir 328 km.