Gróðursæl fjöll á leið til Denizli

Frá Michell gistingunni ökum við eina 150 km meðfram ströndinni og gengur alveg þokkalega að komast áfram þrátt fyrir meira og minna samfellda byggð gistihúsa, hótela og „hótel-resorta“ á þessari leið, eins og svo sem gefur að skilja. Við borgina Antalia yfirgefum við ströndina og sveigjum inn í landið mót norðri. Undanfarna daga höfum við séð óhemju margar bananaplantekrur, meira og minna undir plasti, svipað og t.d. á Tenerife. Léttar grindur eru klæddar þykku plasti eða plastdúkum og ná þessar gróðurhúsabyggðir upp frá ströndinni og inn dali. Enn verða slíkar ekrur á leið okkar og við veginn eru sölustandar bændanna pakkaðir af þessari einu afurð.

Hér eru fjöllin gróðursæl

Eftir að við snúum frá ströndinni erum við fljótlega komnir upp í fjöll í um 1.500 m hæð og líðum áfram á góðum vegum í þægilegum hita. Aftur ökum við um frjósöm landbúnaðarhéruð með alls konar akuryrkju og ávaxtarækt. Skepnur verða lítið á vegi okkar núna, en stór skepnuhús, sennilega nautgripabú, sjást af og til og skepnuþefurinn ber fyrir vitin. Á hjólinu er maður með andlitið óslitið upp í vindinn og meðtekur því alla angan, bæði þá geðþekku sem og þá sem minna gleður. Reyndar er nándin við umhverfið miklu meiri á fáknum en í lokuðu blikkhylki, eins og fararbroddurinn fékk að reyna þegar hann ók fullþétt á eftir gripaflutningabíl. Einni kúnni sem aftast stóð á bílpallinum fannst kjörið að losa vökva, einmitt á því augnabliki sem okkar maður var innan seilingar og var það aðeins fyrir snarleik hans að koma sér undan, sem hann slapp við þetta óvænta steypibað.

Þægilegur akstur sem ber okkur í North Point gistihúsið í Denizli. Eknir 358 km.