Denizli til Bandirma

Yfirgáfum North Point hótelið í Denizli um hálfníuleytið og vorum óðara komnir á þægilegan þjóðveg sem þræddi sig í gegnum gróskumiklar sveitirnar. Beggja vegna vegarins voru breiður af vínekrum og ókum við um vínræktarlönd hátt í 200 km leið. Inn á milli voru svo ólífutré og aldintré ýmiskonar sem ég kunni ekki að greina á 100 km hraða, auk þess bómullarakrar og sykurreir hér og hvar. Þar sem, fyrir fáeinum dögum, höfðu verið skýli bænda við veginn að selja banana, voru melónur nú sú afurð sem mest bar á.

Melónur í hverju söluskýli
Alls konar niðursoðið

Þegar við gáfum okkur stund til að heilsa upp á einn melónusalann, reyndist hann líka vera með mikið úrval af alls kyns niðurlögðu grænmeti og ávöxtum bæði í litlum glösum og stórum krukkum, safa í flöskum og eitthvað af þurrkuðum ávöxtum einnig. Melónan sem við fengum að smakka hjá honum er einhver sú besta sem við höfum bragðað, eðalsæt og safarík.

Fljótlega eftir að við lögðum af stað ókum við yfir fjallaskarð og þar ofan af blasti við dalur, eða öllu heldur slétta mikil milli tveggja fjallgarða. Hér eins og heima er plastið mikið notað við ræktun og var sléttan öll, eins og betrekkt með plasti, ekki síst var það notað á vínviðinn.

Landslagið víð þakið plasti

Mér varð ósjálfrátt hugsað til þeirra hundruð eða þúsunda tonna af plasti, sem notuð eru til að pakka inn heyi fyrir búpening á Íslandi, horfandi á landið hér í plastikkápu á stórum svæðum. Þá fagnar maður því lofsverða framtaki stórverslunarinnar Krónunnar, að hafa tekið skrjáfpokana undir ávexti og grænmeti úr umferð og lagt þannig sitt af mörkum til að draga úr plastmengun heimsins.

Þegar við yfirgáfum Íran vorum við á því, að slá í sitt hvorn Efes bjórinn til að halda upp á vel heppnaða Íransför, Tyrklandsmegin við landamærin þar sem áfengissala er leyfð. Eitthvað var samt lítið um ölið þar austast í landinu, en fór að sjást á veitingahúsum þegar vestar dró. Bregður þá svo við, að innlendi bjórinn Efes fæst hvergi, en alls staðar bjóða menn upp á Tuborg og Carlsberg. Hér hafa danskir sölumenn sannarlega staðið sína vakt með sóma. Samferðungurinn lét sér þetta í léttu rúmi liggja og drakk þessar dönsku veigar, en sérviskan í mér varð til þess að ég hélt mér bara við vatnið góða og varð hugsað til séra Jóns Prímusar þegar umboðsmaður biskups innir hann eftir guðfræðilegum kenningum. Þá sagðist hann aðeins hafa eina kenningu og fengið hana hjá séra Jens heitnum á Setbergi, ef ég man rétt og hún er þessi: Vatn er gott. Minnist þess hvað mér fannst þetta mikil snilld þegar ég las bókin fyrst, velti því svo fyrir mér hvað væri svona stórkostlegt við þessa kenningu og komst að þeirri niðurstöðu að vatn er undirstaða alls lífs, sem sé: ekkert vatn, ekkert líf og hvaða gagn væri þá í allri mytólógíu, teólógíu og fílósófíu heimsins.

Náðum áfangastaðnum, Bandirma, tímanlega eftir einstaklega þægilegan akstur á fremur fáförnum þjóðveginum. Eknir 379 km

Sólsetur i Bandirma