Síðasti spölurinn í Tyrklandi

Frá Grand Asya hótelinu í Bandirma ökum við síðasta spölinn í Tyrklandi og inn í Grikkland. Nú bregður svo við að þokuslæðingur liggur yfir öllu og hitinn er rétt um 17 gráður. Ótrúlega lítil umferð er á vegunum og því afar þægilegur akstur. Þegar við tökum gamla og lúna ferjuna yfir Hellusund (Dardanellasund), sem tengir Marmarahaf við Eyjahaf, er sólin farin að skína.

Á leið yfir Hellusund

Til að ljúka öllu veseni áður en við fengum okkur miðdegissnarl, var ekið óslitið að landamærunum og þar ókum við framhjá um 5 km röð af flutningabílum sem biðu eftir að komast yfir. Skoðunarferlið við grensuna gekk bara nokkuð hratt fyrir sig, aðeins 3 bílar á undan okkur og eftir að Tyrkirnir höfðu tékkað okkur af, einum fjórum sinnum, passi, tryggingarskírteini og skráningarskírteini, var ekið nokkurn spöl yfir einhvers konar einskis manns land og síðan þurftu Grikkirnir aðeins rétt að líta á passana til að gefa okkur grænt ljós inn Evrópusambandið og Schengen.

Grikkland undir hjólunum

Ekki varð nein matsala á vegi okkar framan af og þær sem ratarinn gaf upp voru lokaðar. Síðan gerist það að aðalvegurinn sem við ætluðum að aka til Þessalóníku var lokaður og urðum við því að leggja lykkju á leið okkar sem leiddi okkur í lítinn, afar líflegan og huggulegan 60 þúsund manna bæ við hafið, Alexandroupolis. Náðum þar hádegissnarli á snotrum stað við ströndina klukkan langt gengin í þrjú. Saddir og sælir sjáum við að þetta muni bara vera hinn ákjósanlegasti bær til gistingar og myndum við þá eiga þægilega dagleið eftir á lokaáfangastað í þessari ferðasyrpu. Fáum inni á Grand Hotel Egnatia, litlu einstaklega vistlegu hóteli með stóru nafni, alveg á ströndinni. Nálægðin við öldurnar rétt utan við gistirýmið kom mér til að taka sundsprett Eyjahafinu og var það alls ekki eins kalt og ég hafði búið mig undir.

Saltar öldur Eyjahafs freistuðu ritara

Þar sem ég sit yfir vatnsglasi á bar hins mikla Egnatia hótels og hripa niður þessar línur eftir samfelldan sjö vikna akstur, getur maður ekki annað en fagnað því hve vel og hnökralaust allt ferðalagið hefur gengið. Þrátt fyrir algerlega klikkaða umferðarómenningu í Íran, sluppum við með öllu við vandræði, með því að halda rúmlega fullri einbeitingu í þeim krefjandi kringumstæðum sem óreiðan þar er á götunum.

Fararbroddurinn sér að jafnaði um skipulag íhöndfarandi dags, gerir áætlum um næsta gististað, skoðar veðrið á minnst þremur mismunandi veðurstöðvum, kemur nauðsynlegum upplýsingum í leiðsögutækin og undirbýr félaga sinn undir líklegar akstursaðstæður. Hlutverk ritara var að rita. Í örfá skipti var fylgifisknum hleypt fram fyrir í akstri, en það gerðist aðeins eftir tvö ljósmyndastopp eða fleiri með stuttu millibili. Þá stýrði ég ferðinni eitt stundarkorn, eða þar til þær áhugaverðu sviðsmyndir voru að baki sem valdið höfðu truflun á ferðarennslinu.

Þægindin við að vera svona kjölfarsmaður eru augljós, sá sem á undan fer, er með minnst 2 leiðsögutæki til að vísa veginn og a.m.k. annað hljóðtengt við heyrnatólin í hjálminum þar sem innbyggð rödd konunnar segir honum óslitið til verka. Komi upp sú staða sem stundum gerist að tækin verða ósammála um leiðir, þarf ökumaður að taka skjóta ákvörðun, oft á miklu hraða, hverjum gegna skuli. Á meðan sigli ég hinn lygna sjó sporgöngumannsins, áhyggjulaus um annað en halda í við forsprakkann. Í dag voru eknir 274 km.

Skrifstofa ritara við skráningu pistils dagsins