Síðasta dagleiðin

Síðasta dagleiðin í þessari ferð, 323 km frá Alexandropolis til Þessalóniku, lá um grísk landbúnaðarhéruð þar sem við ókum lengi dags um bómullarræktun og þyrluðust litlir bómullarhnoðrar um veginn þar til þeir settust í kantgróður og mynduðu samfellda bómullarslikjurönd á um annað hundruð km kafla. Eitt er öðruvísi hér í Grikklandi en annars staðar þar sem við höfum farið um, hér eru engar þjónustumiðstöðvar eða bensínstöðvar við hraðbrautirnar. Fara þarf inn í bæi til að fylla tankinn og fá sér kaffi. Einnig upplifðum við það hér, sem jafnframt hafði borið á í Tyrklandi, að fjöldi bensínstöðva sem ratarinn vísar okkur á, eru ekki lengur starfræktar, tankarnir horfnir og girt fyrir innkeyrsluna.

Hér bíða hjólin eftir okkur til næsta vors

Hjá BMW þjónustunni hér í borginni, sem eitt rit hinnar góðu bókar er kennt við, tekur Ilias Kleidaras á móti hjólunum til þjónustuskoðunar og varðveislu þar til við mætum hér aftur að vori til áframhaldandi aksturs. Eftir stutta leit á hótelbókunarsíðu fundum við einstaklega notalega gistingu í hjarta gamla bæjarins, þar sem þröngar göturnar eru þétt skipaðar kaffi- og veitingahúsum. Okkur þótti nafnið svo lofandi, The Mood Luxury Rooms, eða gæti það verið nokkuð betra.

Tveir slakir utan við The Mood Luxury Rooms

Reyndist vera hið allra vistlegasta gistihús og í fyrsta sinn í ferðinni sem innifalinn morgunverðurinn er „a la carte“ en ekki af hlaðborði, þannig að þarna fáum við á síðasta gistihúsinu svolitla uppfærslu á annars afar ásættanlegum og oft og tíðum ljómandi upphafsmáltíðum dagsins.  

Kvöldstemning í miðbænum
Á rólegheitarölti um stræti Þessalóniku

Ferð okkar nú hefur spannað liðlega 7 vikur og eknir hafa verið 13.989 km. Þetta hefur verið ævintýri, ógleymanlegar upplifanir, stórbrotið landslag, einstakar viðkynningar við fólk sem á vegi okkar varð, vinsemd og hjálpsemi og að undanskilinni umferðinni í Íran er fátt sem truflaði hugarró ferðalanganna. Oft stóð maður sem bergnuminn, eins og frammi fyrir kalsítkerjunum í Pamukkale, sandsteins-skúlptúrunum í Cappadocia, fornminjunum bæði í Efesus og Persepolis, hellahýsunum í Kandovan, þar sem við gistum í fyrsta sinn á ævinni í helli og það engu slorhúsnæði. Sterkar upplifanir eins og að aka mótorhjólinu sínu við rætur Araratfjalls þar sem gamli Nói strandaði sínu fleyi, aka hjólunum um ævintýralega stígana í Kashan að gistingunni Morshedi House þar sem stúlkurnar voru svo elskulegar að búa mér örlitla afmælisveislu með tertu og kerti, að setjast niður hjá fjárhirðum í fjöllunum og þiggja hjá þeim góðgerðir, að finna fyrir áhuga fólks á ferðalangnum og vinsemd í hans garð, allt fylgir þetta manni heim og verður svolítill hluti af manni sjálfum til frambúðar.

Ferðalag af þessu tagi leggur maður ekki í með hverjum sem er. Var svo heppinn að kynnast radíóvirkjanum í heita pottinum á Nesinu fyrir áratugum síðan og atvikaðist það einhvern veginn þannig að við fórum að hjóla saman erlendis. Höfum við fylgst svolítið að í þessari iðju um ótal lönd í fjórum heimsálfum og þó á engan sé hallað, er vart til þægilegri ferðafélagi, sem tekur allri manns sérvisku og dyntum með ótrúlegu umburðarlyndi og jafnaðargeði. Í lok ferðar þakkar maður fyrir slíkan ferðafélaga.

Að lokum skal tekið fram að ritari var aldrei sleipur í stafsetningu og fékk því fyrrum prófarkalesara á Mogganum til að yfirfara textann, reyndar eftir að honum var mokað á netið, þannig að hafi einhver séð villur, hefur viðkomandi náð að lesa textann á undan leiðréttara. Vona að þeir sem nennt hafa að skoða síðuna hafi haft af því einhverja ánægju.