Í þessari ferð ætluðum við að sleppa Istanbul, umferðin þar er bæði einstaklega hröð og tillitslaus, hreinlega mjög ágeng. Til stóð að keyra hjá borginni, en svo kom í ljós að í Tyrklandi öllu eru aðeins tvær BMW þjónustustöðvar, önnur í Istanbul og hin í Ankara og hjól félagans þarfnaðist 10þús km olíuskipta og skoðunar, svo okkur stóð lítið annað til boða en að stíma beint á útibú bæverska firmans í Miklagarði. Þangað komumst við viðstöðulaust, en þjónustan varð að bíða til morguns, enda áttum við ekki bókaðan tíma. Notaði tækifærið til að láta uppfæra kortin á gps tækinu nýja.
Fundum hótel þarna í námunda, Lotte Palace, hvorki meira né minna. Fínasta hótel, fengum svítu með svefnherbergi og setustofu, afar snyrtilegt og fínt. Nenntum ekki í miðbæinn á túristaslóðir, enda notuðum við heilan dag með leiðsögumanni til að upplifa allt það helsta sem þar er, þegar við fylgdum hringfaranum hingað fyrir fáeinum árum. Við erum hér í úthverfi með eigin verslunargötur, göngugötu, veitingastaði og markaði. Afbragðs kvöldverður á litlum stað nærri hótelinu, engin enska, bara bent og brosað.
Svo kostar málsverðurinn hér svipað og greitt er í þjórfé á matsölum í öðrum heimshlutum. Þægilegur göngutúr um göturnar áður en gengið var tímanlega til náða. Eknir 212 km.