Eitt er svolítið sérkennilegt við umferðarmenninguna hér, í stað þess að aka á akreinum eins þær eru merktar og víðast hvar er gert, þá aka menn gjarnan með hvítu línuna undir miðjum bílnum, vel að merkja í þeirri takmörkuðu umferð sem við höfum verið í undanfarið. Meira að segja hér á hálendisvegunum sem jafnan hafa tvær akreinar í hvora átt og merkt um það bil metersbreitt miðjusvæði á milli með óbrotinni hvítri línu hvoru megin, þá aka menn jafnvel akkúrat á þessu miðjusvæði milli hægri og vinstri akreina.
Við erum mikið á 80-100 km hraða eftir aðstæðum, en akstur fólksbíla er miklu hraðari, enda víða leyfður 110 km hámarkshraði. Þegar bílarnir aka framhjá okkur vilja þeir gjarnan vera með hægri hlið síns bíls inn á okkar akrein við framúraksturinn, og verður maður helst að vera vel vinstra megin á akreininni sem næst línunni, til að bílarnir haldi sig á sinni akrein þegar þeir þjóta hjá. Í borgum, sér í lagi stórum eins og Istanbul, eru akreinar helst ekki virtar neins, heldur treðst hver sem betur getur, hvar sem honum sýnist vera agnarbil til að smeygja sér inn.
Einu sinni áttum við löggæsluyfirvald sællar minningar, sem fékk þá skemmtilegu hugmynd að láta framleiða pappalöggur. Hér hafa menn þróað þetta ögn lengra og standa pappalöggubílar víða við veginn, m.a.s. með blikkandi ljósum.
Þegar betur var að gáð, þá er þetta nú ekki pappi, heldur eru þessir gervibílar gerðir úr blikkplötum sem festar eru á grind úr járnprófílum og virka nokkuð sannfærandi úr fjarlægð.
Dagurinn hefur farið í rand um bæinn, en fyrst og fremst í að fara yfir alla punkta varðandi Íransheimsóknina. Það verður að segjast eins og er, að við erum báðir nokkuð óþreyjufullir eftir að komast á landamærin. Ætluðum að klára það mál í dag, sem var því miður ekki hægt þar sem föstudagurinn er frídagur í Íran. Verðum að taka daginn snemma á morgun, því við eigum að hitta kontaktmann á landamærunum kl 9 á írönskum tíma, en þeir eru með klukkuna hálfum öðrum tíma á undan Tyrkjum, þannig að við verðum þá þar um hálfáttaleytið í fyrramálið. Getum varla beðið. Hjólin óhreyfð.