Tyrkland kvatt að sinni

Ferðalangarnir voru orðnir svo spenntir fyrir framrás komandi dags, einkum vegna þess að nokkur óvissa var um hvort þeim yrði hleypt inn í fyrirheitna landið, að þeir vöknuðu báðir hálftíma áður en vekjarinn hringdi kl. 5:45. Þá var bara að drífa sig á fætur og koma sér af stað.

Tyrkland kvatt að sinni og Ararat fjall

Leiðin að landamærunum var fljótfarin, tæpir 40 km í morgunsvalanum, hitinn var 16 gráður þegar við ókum af stað en var kominn upp í 20 við landamærin hjá bænum Gurbulak og 30 stig þegar við yfirgáfum landamærastöðina Íransmegin, við Bazargan. Svona árla dags var lítil umferð og voru tyrknesku landamæraverðirnir ekki að tefja okkur svo neinu nemi, á tékkpóstunum sínum þremur.

Síðan erum við komnir að hliði sem við máttum ekki fara um fyrr en við höfðum fengið passaskoðun hjá Írönunum. Til þess þurfti að fara í skála mikinn þar við hliðina, í biðröð með fólki sem kom þarna úr nokkrum rútum. Biðröðin endaði í liðlega axlarbreiðum grindargöngum um tveggja metra háum og leiddu þau að embættismanninum með stimpilinn. Fararbroddurinn, sem alla jafna er í forystu, fékk tiltölulega fljóta afgreiðslu en mitt vegabréf þurfti að grannskoða mun lengur. Fékk það svo afhent með brosi og þar með vorum við, einstaklingarnir, raunverulega komnir langleiðina yfir landamærin. En það eru hjólin, sem eru hinn krítíski þáttur þess að komast þarna yfir.

Nú máttum við fara yfir á svæði, þar sem okkar kontaktmaður, Yasin, beið okkar, til að vasast í því sem að hjólunum sneri. Við höfðum gengið frá svokölluðum “Carnet de Passage” pappírum hjá Hossein, góðvini Kristjáns hringfara, en þetta eru ákveðin tryggingarbréf sem mörg lönd krefjast að séu klár, eigi að aka um þau í eigin farartæki. Yasin, hans maður á staðnum, stóð upp fyrir haus í þessu vafstri, á meðan við sátum á stéttarkanti í skugganum og var okkur borið bæði te og kaffi. Klukkutími leið og svo annar og svo kom okkar maður og útskýrði að netið hefði dottið niður og vonuðust menn til að það skilaði sér aftur innan klukkustundar eða svo. Til að slökkva þorstann í biðinni, var það fyrsta sem við keyptum fyrir íranska ríala í þessu haturslandi BNA, merkisberi amerísks kapítalisma, Coca Cola. Í þessari bið allri hríslaðist af okkur óvissuspennan, við vorum orðnir sallarólegir og nokkuð trúaðir á að þetta næðist í gegn. Margir sem þarna voru við störf, bæði afgreiðslumenn og embættismenn skoðuðu hjólin, spurðu um þau og létu aðdáun sína á þessum tæknilega fullkomnu farskjótum í ljósi.

Svo gerist það að Yasin kemur ásamt ungum manni og segir okkur að fylgja honum. Hann skundar í gegnum fólksþvögur og framhjá rútum að leigubíl og fylgjum við svo bílnum inn á eitthvert illa skipulagt moldarplan stórt, þar sem allt var fullt af flutningabílum.

Hjólin bíða heimildar til að krossa landamærin

Okkur er bent á að bíða með hjólin fyrir utan stóran skúr þar sem hann hljóp inn og afgreiddi mál, síðan fylgdum við honum eftir að öðrum svona skúr, en afgreiðslan þar tók lengri tíma. Ég tyllti mér þar inni á laust sæti og fylgdist með þvögunni við afgreiðslubásana, þar sem hver reyndi að troðast eftir bestu getu,  en út á plani var bæði orðið heitt vel og mikið sandfok.

Afgreiðsla tolllskjala

Þegar sem næst 4 tímar voru liðnir frá því að við sýndum passana fyrst, afhendir ungi maðurinn okkur hin nauðsynlegu skjöl og vorum við nú komnir inn í fyrirheitna landið. Það lá við að við föðmuðumst.

Farnir að aka um íranska grund

Höfðum ætlað beint í átt að fyrsta planaða áfangastað, Kandovan, sem Ali vinur okkar hjá Oz benti okkur á. Hossein, sem útvegaði okkur skjölin fyrir hjólin, lagði svolítið að okkur að gista hjá sér fyrstu nóttina. Það var nokkuð úr leið, en svona sem þakklæti ákváðum við að hjóla til hans, um 300 km leið. Eins og Íranar eru þægilegir og virka rólegir, er samt síst minna áreiti í umferðinni hér en hjá Tyrkjum. Akreinar aldrei virtar frekar en þær séu ekki til, þegar ekið er í þéttri umferð eru þeir með stuðarann næstum því á afturhjólinu hjá manni, jafnvel vörubílar. Maður er sífellt með frambretti bíls, sem er að reyna að troða sér fram fyrir mann, utan í sér og svo vinka þeir manni, gefa stutt flaut eða hrópa kveðjuorðum, þannig að þetta er greinilega allt í góðu. Svo er að sjá sem fyrir þeim sé ein akrein æltuð a.m.k. tveim ökutækjum samsíða, eða jafnvel fleirum ef svo ber undir.

Stóran hluta af leiðinni ókum við í hífandi roki, stífum hliðarvindi og hitinn fór upp í 39 gráður. Svona hliðarstrekkingur tekur á, maður þarf að einbeita sér miklu meira að akstrinum en annars. Fengum okkur ljómandi hamborgara og vatn með, á skyndibitastað við veginn og rjómaís á eftir. Kostuðu herlegheitin sama og ein sódavatnsflaska á bensínstöð heima. Og talandi um bensínstöð, ég fyllti tankinn á hjólinu fyrir krónur, segi og skrifa, 160,-. Þar sem við höfðum vaknað snemma, rokið og hitinn náð að þreyta mann, þá var ég þeirri stund fegnastur er við renndum inn í portið hjá Hossein. Þegar til kom var hann ekki heima, en foreldrar hans tóku á móti okkur. Við máttum velja um herbergi inni hjá þeim eða betri vistarveru annars staðar. Þreyttir ferðalangar völdu fyrri kostinn. Eftir kvöldmat skriðum við báðir beint í koju, samferðungurinn í efri og ég í neðri.

Samferðungurinn lét sér efri kojuna vel líka

Við vorum sem sé komnir í kojugistingu. En hvað um það, við duttum útaf samtímis, um leið og hausinn snerti koddann. Eknir 337