Herbergi 105 í klettinum

Eftir morgunskattinn vildi faðir Hosseins endilega sýna okkur kirkju í bænum, sem hann sagði elstu kirkju jarðar, frá fyrstu öld, sem sé frumkristni. Við vorum heldur tregir til, enda mikil dagsskrá fyrir höndum, en þar sem þetta var bara 10 mín labb, þá slógum við til. Að kirkjunni komum við 45 mín eftir að við stigum úr porti gamla mannsins og til að auka á ánægjuna var kirkjan lokuð, yrði opnuð seinnipartinn.

Gestgjafi okkar og sendibíllinn hans

Á leiðinni til baka bauðst vertinn okkar til að ganga þetta með okkur aftur síðar um daginn. Við þökkuðum pent og endurtókum að við þyrftum að hafa hratt á hæli, þétt skipuð dagskrá.

Molasykurinn er seldur í alvöru pakkningum, ekkert hálft kg eða heilt

Á göngunni spurði ég gestgjafann hvort mikið væri um glæpi í þessari 700þús manna borg. Hann svaraði því til að hér væri allt með friði og spekt, þó svo fólk af mörgum þjóðernum byggði bæinn og nefndi hann Persa, Tyrki, Kúrda og Azera, sem sé Azerbaijanskt fólk og var hann af þeim meiði. Hafi ég skilið hlutina rétt þá heitir héraðið þarna nyrst í Íran  Azerbaijan eins og landið norður af því. Komnir heim í portið þar sem hjólin biðu, gerðum við upp gistinguna og héldum á vit ævintýranna.

Eins og í gær ökum við um falleg fjallahéruð í bland við sandsléttur miklar þar sem vindurinn gnauðar. Var samt ekkert í líkingu við storminn í gær. Sem fyrr segir var stefnan sett á Kandovan, en þar hafa menn höggvið sér híbýli í sandsteinskletta, ekki ósvipað og í Cappadocia. Við slepptum því að heimsækja Tabrizborg þarna rétt hjá, þó þar sé feykimargt að sjá, svo sem basar mikinn sem er undir minjavernd Unesco, moskur frægar og merkileg söfn. Jafnframt státar borgin af því að til forna rann úr aldingarðinum Eden fljót sem nú rennur um borgina og þeir eru til sem vilja meina að þarna hafi almættið plantað forfeðrum okkar að langfeðratali í friðargarði, en þau klúðrað þannig málum að afkomendurnir eru fram á þennan dag, enn að gjalda fyrir misgjörðir þessara frumforeldra mannkyns. Og karlinn kenndi frúnni um og frúin snákræfli sem tæplega hefur haft nokkurt mál, þá frekar en nú.

Í stað alls þessa fórum við í aðrar upplifanir og er bæði merkilegt og fróðlegt að sjá hvernig fólk hefur klappað sér vistarverur inn í sandsteinskletta, rétt eins og írsku munkarnir stunduðu fyrir landnám, í móbergið okkar heima. Hægt er fá gistingu á svæðinu, samt bara í svona helli og þáðum við það.

Samferðungurinn við herbergi 105 í klettinum

Sumir myndu ætla að það væri að fara úr öskunni í eldinn að fara úr kojum í miðbæ Úrmíu í helli upp til fjalla, en í þessum helli hefur satt að segja verið vandað til verka og væsir ekki um okkur hér.

Fleti ritara í hellinum
Radíóvirkinn hafði tvo bedda til afnota
Setustofan í grottunni

Örkuðum stígana meðfram og upp eftir hlíðinni í þessu hellaþorpi og virtum fyrir okkur híbýli fólks sem enn býr í hellunum.

Þetta eru híbýli fólks enn í dag
Húsakosturinn verður varla jarðbundnari

Neðst á svæðinu er gata með verslunum og þjónustu. Á randi eftir götunni gengum við fram á hóp af dömum sem báðu um að fá að taka af sér mynd með síðhærða Grána. Því var vel tekið og var slíkum myndum bætt í safnið á nokkrar vasatölvur þarna.

Þessar dömur langaði í mynd af sér með útlendingnum og var það auðsótt mál

Um kvöldið var snætt á hellishótelinu og komnir í okkar helli datt samferðamaðurinn út að vanda, á meðan skrásetjari myndaðist við að festa þessi orð á blað, áður en yfir atburðina fennir af áframhaldandi upplifunum hvers nýs dags.

Ekki er hægt að minna á sig á fésbókinni lengur, hún kemur ekki inn á vasatölvuna hér og er sennilega bönnuð í þessu landi. Eknir 142 km