Marokkó 2018

Vélin sem flytur okkur fyrsta legginn, það er til Kaupmannahafnar, flýgur ekki fyrr en um hálfellefu, en þó var boðuð mæting í fjallabílinn fyrir utan Nesradíó laust fyrir kl. 7:00. Allt í lagi svo sem, maður er hvort eð er vaknaður snemma að vanda, en engin skýring var gefin á þessu bráðlæti. Háfjallagarpurinn Hermannsson kom okkur klakklaust suður í flugstöð á 45 tommu blöðrunum, þrátt fyrir skort á blindbyl, sköflum og annarri ótíð. Þurfti reyndar að fínstilla loftþrýstinginn í þessum miklu dekkjum við hvern farþega sem bættist í bílinn, en þar sem slíkar aðgerðir eiga sér stað í stjórnborði ofurjeppans og ekkert sem truflar farþega nema örlítill hávaði úr loftdælum farartækisins, gekk þessi undirbúningur vandræðalaust fyrir sig.

Með í skutlunni var lyfsali Reykjalín sem hafði sent sitt eigið hjól frá Suður-Þýskalandi á áfangastað, flugkapteinn Traustason sem ávallt er klár með gps kort og niðurhalaðar leiðarlýsingar fyrir þá sem þeirra þarfnast og með honum hans spúsa María sem fer fyrir lungnadeild Landspítala og er frekar ný í iðkun mótorhjólaaksturs, að ógleymdum höfuðsnillingnum Ragnarssyni, skipuleggjara þessa túrs og primus motor í starfsemi hjólaklúbbs BMW.

Af gömlum vana hafði ritari tékkað sig inn kvöldið áður og reyndist þegar suður eftir var komið, vera sá eini í hópnum sem það hafði gert. Ferðafélagarnir gerðu stuttann stans við mannlaust innritunarborðið og afgreiddu innritunina sjálfir í þar til gerðum tækjunum sem biðu þeirra í röðum og voru mættir upp í biðsal í kaffi og samviskur fljótlega á eftir ritara. Þægilegt flug SK596 til Köben, rólegheit yfir fólkinu og hófsemd í drykkju. Vélin sem flaug með okkur til Malaga fór ekki fyrr en laust fyrir níu um kvöldið og áttum við því hátt í fimm lausa tíma til afnota hjá gömlu herraþjóðinni. Eftir nokkrar bollaleggingar þótti óþarft að tromma tólf saman oní bæ til öls og matar, alþjóðaflugvöllur Dana býður upp á nokkrar matsölur misgóðar eða öllu heldur mislélegar og var afráðið að láta slag standa þar á staðnum og voru menn þokkalega sáttir við það sem þar var innbirgt.

Flugið til Malaga gekk að óskum. Á hótelinu biðu okkar Haukurinn úr þýska BMW klúbbnum sem búsettur er í suðurhluta Þýskalands og Grímur tannlæknahrellir sem starfar við að koma góðum og vel smíðuðum tönnum upp í landann á sanngjörnu verði, í heljarmikilli ofurtannklíník í Búdapest. Að undirlagi þessara dáindismanna beið hópsins pízza og bjór á borðum þegar hann mætti á gistihúsið. Þarna var klukkan langt gengin í nýjan sólarhring og allir fletinu fegnir að afloknum málsverði.

14.04.18

Eftir árbít var haldið beint á hjólaleiguna þar sem búið var að ganga frá flestum formsatriðum og menn tóku hver við því hjóli sem á þá var skráð. Þjóðverjinn Niederberger sem rekur leiguna hefur trúlega búið það lengi meðal Spánverja að annáluð þýsk nákvæmni virðist hafa slípast örlítið af kappanum. Alltént vantaði á sum hjólin ýmist tank- eða hnakktöskur nema hvoru tveggja væri, nauðsynlegur búnaður til transporteringar farangurs í svona reisu og voru hluti af þeim pakka sem keyptur var af hans forretningu. Allt reddaðist þó áður en yfir lauk og var haldið í smá upphitun í huggulegan skrans á skemmtilega bugðóttum fjallvegum til Ronda. Einkar sjarmerandi bær, þekktur fyrir fornar stórar flottar brýr og aldagamlan nautaatshring, kirkjur miklar og fyrir mótorhjólafólk einmitt fyrir ánægjuna af leiðinni krókóttu upp að kaupstaðnum.  Í svona fjölmennum hópi má reikna með að einn og einn heltist einhvern tímann einhvers staðar úr lestinni og sú var og raunin hér strax á fyrsta degi. Á þröngum og sérdeilis bugðóttum skógargötum dróst ritari t.d. aðeins aftur úr þeim smáhópi sem hann fylgdi og vissi ekki fyrr en hraðskreiðari félagarnir voru endanlega horfnir sjónum. Verandi án gps tækis á hjólinu var notast við gömlu góðu vegaskiltin sem með smá hjálp vasafjarskiptatækis skilaði honum í hús nokkru á eftir hinum.

Með í för er jafnframt Jón Grindvíkingur og stórútgerðarmaður Emil, snjall ekill sem reyna vildi „off road“ getu hjólsins og brá sér út í heldur miklar torfærur til að hjólið réði við þær. Með örlítilli aðstoð samferðarmanna fór hjólið vandræðalaust upp á akbraut aftur og hélt ökuþórinn því á fyrirfram ákveðnum brautum það sem eftir var ferðar.

Á netinu þurfti að fylla út þar til gerð eyðublöð fyrir hjólin með öllum helstu kennitölum bæði manns og hjóls fyrir marokkósk túristayfirvöld. Að sjálfsögðu er þetta dokument á frönsku, en með hjálp góðra manna tókst að koma öllum þeim upplýsingum, sem Múhameð kóngur Hassansson í Marokkó vill fá um förumenn, til skila á skjalið og prenta síðan út í þríriti. Kvöldskatturinn snæddur fremur seint að hætti spánskra og skriðu flestir beint undir teppið að honum loknum.

15.04.18

Um það bil hálftíma akstur er frá Hotel Guadacorte Park að bryggjunni þar sem Afríkuferjan beið eftir sínum farþegum. Á meðan beðið var fylltu menn út bæði innskráningarmiða og annan til útskráningar til afhendingar landamæravörðum þessa norðurafríska ríkis. Förin yfir sundið frá einni heimsálfu til annarrar tók innan við klukkutíma og um borð þurfti að fara í passaskoðun hjá spönskum yfirvöldum. Afgreiðsla tollyfirvalda Afríkumegin tók sinn tíma, fyrst var öllum smalað saman í þröngan stiga sem upp lá um eina hæð og stóðu menn þar í langri röð á meðan einn var afgreiddur í eina á örlitlum kontór inn af stiganum. Að þessu loknu voru menn leiddir út og að tollvarðabúri og hér mátti afhenda þríritið sem fyllt var út kvöldið áður. Síðan tók við löng bið eftir því að öll þessi dokument yrðu færð til bókar, að því loknu var nafnakall og fengu menn þá til baka  tvö blöð af þeim þremur sem skilað var inn. Nú var ekkert lengur að vanbúnaði að hefja akstur um afríska grund. Stutt var á hótelið, innskráning og hjólin í var. Farið á rölt inn í gamla hluta bæjarins þarna rétt hjá, ljómandi kaffi og krósanta á Cafe de Paris og svo bara vaðið inn í þrönga stíga þessarar seiðandi borgar til að upplifa markaðsstemninguna og mannlífið. Ævinlega eru það matarmarkaðirnir sem heilla mann og draga til sín athyglina. Á röltinu til baka að hótelinu fóru sumir að finna fyrir þurrafúa og því var kærkomið að bregða sér inn snyrtilegan sundlaugarbar á nærliggjandi hóteli til að væta aðeins kverkarnar á leiðinni á gistihúsið. Átakalítill en ánægjulegur dagur endaði með snæðingi á hótelinu og léttu spjalli áður en hver hvarf í sitt skjól.

16.04.18

Leiðin í dag liggur um all fjölfarna sveitavegi og landbúnaðarhéruð. Við blasa akrar með margs konar gróðri, sumum sem ferðamaðurinn er ekki viss um hvort ræktaður sé fyrir skepnur eða mannfólk. Kornakrar breiða líka úr sér, trúlega bygg eða hugsanlega hveiti til couscousgerðar. Vegfarandi þekkir ekki muninn. Ólífutré þekja hæðir og ása, appelsínutré blasa hvarvetna við og nú er greinilega uppskerutími fyrir ætiþistla sem falboðnir eru víða meðfram vegum ásamt appelsínum og tómötum. Að mestu leyti var ekið á ágætum malbikuðum vegum en á stöku köflum voru þeir svo holóttir að ferðamanni datt ekkert fyrr í hug en að hér hefði Holu-Hjálmar annað hvort sótt innblástur um hvernig ástand Reykjavíkurgatna skuli vera eða að hann hafi verið mentor hérlendra í götugerð. Síðustu 30 km áður en komið var til Volubilis var ekið um einstaklega fallegt landslag þar sem iðagrænir akrar teygja sig svo langt sem augað eygir og í fjarska fagur fjallahringur.

17.04.18

Lagt upp frá Volubilis í lengstu dagleiðina, til Bin el Ouidane vatns og í samnefnda gistingu. Örstutt stopp til að festa á flögu rómverskar rústir árþúsundagamlar.  Landslagið heldur áfram að vera eins og ekið sé um Suður-Evrópu. Meðfram vegum eru fjárhirðar með eina til tvær tylftir sauðfjár á beit í vegköntunum eða hér og hvar einn maður með kú sem hann heldur til haga við þjóðveginn. Við blasir líka fólk sem stendur eitt sér eða 2 til 3 saman, situr á steini eða bara húkir á hækjum sér í einhverri óræðri bið eftir því að lengra líði fram á öldina. Hvarvetna transportera menn jafnt fólki sem varningi á hestvögnum og asnakerrum. Múldýr í sömu störfum eru jafnfram algeng sjón. Ekið er að mestu um til þess að gera „þægilega“ sveitavegi og komast flestir vandræðalaust á áfangastað. Þó gerist það hjá Laurent tæknimanni Somers að keðjan á hjólinu hans gefur sig og veldur þessi slitna keðja verulegum truflunum á hans túr. Með einhverju móti tekst að fá gert við keðjuna þannig að dugi til að koma hjólinu á áfangastað.

18.04.18

Bin el Ouidane til Marrakesh er til þess að gera stutt dagleið og viljandi eða óviljandi bættust smá hlykkjóttir fjallvegir aukalega við aksturinn hjá sumum. Ofurvirki verktakinn Villi á erfitt með að hemja fákinn, sjái hann bugðótta brekkuvegi sem bæta má við aksturinn, en slær undir nára og sér á eftir honum eins og rakettu upp krókótta brautina í bröttum fjallshlíðunum.

Aksturinn inn í miðbæ Marrakesh gekk vonum framar í skemmtilegri ringulreið umferðarinnar og kraðaki borgarlífsins. Eftir að ferðafólkið hafði komið sér fyrir á Riad Africa, fóru flestir í skoðunarrölt um þessa seiðandi borg, en ritari brá sér í hammam og kærkomið nudd til að mýkja stífar axlirnar. Kvöldverður með magadanssýningu á Le Marrakchi, ljómandi matur og svolítið þreytt „túristashow“.

19.04.18

Morgunmaturinn á Riad Africa var upp urinn áður en helmingur gestanna var mættur á svæðið. Ágætis fransbrauð og ostur og súkkulaðikrósöntur dugðu rétt fyrir þá sem fyrstir komu. Kaffið, reyndar ljómandi gott þegar það birtist, kom um það leyti sem þeir heppnu voru að ljúka við brauðmetið. Þá kom jafnframt á borðið ljúffengur appelsínusafi, en glösin öll horfin. Höfðu verið notuð undir kaffi þegar kaffikrúsirnar kláruðust. Á endanum fengu þó flestir smá árbít í einhverju formi. Transportmenn komu farangri hjólafólksins af ríadinu út á vaktaða bílastæðið í handvögnum þar sem menn pökkuðu hjólin og héldu af stað í átt til Boumalne, liðlega 300 km akstur yfir Atlasfjöllin. Aksturinn út úr Marrakesh um þröngar götur og stíga í iðandi kös af bílum, hjólandi fólki og gangandi vegfarendum, börnum og gamalmennum, er krefjandi en skemmtilegur. Sem fyrr fara menn saman í litlum hópum og ritari fylgdi formanninum að vanda auk fjögurra annarra valinkunnra reiðmanna. Framan af ber fátt til tíðinda, hjólin renna í átt að fjöllunum og svo smám saman upp hæðirnar. Ákveðið er að taka bensín á fyrstu bestu stöð, því óvíst er um eldsneyti þegar í háfjöllin er komið. Fljótlega rennur hópurinn inn á stóra og flotta stöð með mörgum dælum, en sorry, þær eru innsiglaðar. Stöðin svo ný að hún var sennilega bara ekki komin í gagnið ennþá. Þegar nokkuð er upp í fjöllin komið gisnar bilið á milli hjóla þannig að formaðurinn, sem gaman hefur að því að slá undir nára í bugðóttum krákustígum fjallanna, hann hvarf næsta manni. Fyrir aftan hann töfðust ferðafélagarnir við myndatökur og damlar hann stakur áfram um vegina upp eftir fjöllunum. Þar sem engin frekari bensínstöð hafði orðið á vegi manna, fór nú sá staki að hafa áhyggjur af því að ná ekki yfir um þessa 2.300 hæðarmetra á lögginni sem enn var í tanknum. Lét því af hraðaakstri og tók upp sparakstur. Það var ákveðinn léttir að komast yfir hæsta punkt, því droparnir á tanknum duga margfalt betur niður í móti. Formaður vissi af þessum vandræðum með eldsneytið og neðar í fjallinu bíður hann eftir sínum manni. Upplýsir að aðeins séu 10 km í næsta tank. Um 20 km síðar er ljóst að enginn var bensínstöðin þar sem GPS tækið hafði staðsett hana, en aðeins 30 km í næstu. Það stóð svo á endum, að þegar einungis var eftir örlítil gufa af bensíni í tanknum hjá ritara, renndu þeir félagarnir inn á stöð með dælum sem fylltu hjá þeim eldsneytishólfin.

Nú var óhætt að spretta aftur úr spori og var aksturinn allur hinn ánægjulegasti. Þeir félagar fá sér hádegissnarl þarna í einu þorpinu og freista þess að bíða eftir þeim sem á eftir komu. Ekkert bólar á þeim svo þá var bara að halda áfram. Síðar kom í ljós að þeim þótti rétt að líta við á áhugaverðum stað sem mælt hafði verið með að skoða. Ekki var sú leið nógu slétt og felld fyrir alla og lagði sá mikli akstursmaður Arngrímur fjalladræver fákinn á hliðina og tókst að setja smá gat á ventlalokið svo olía lak úr. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst og tók nú Hermann mekaniker Halldórsson málin í sínar hendur, velti hjólinu á hina hliðina til að stöðva lekann og náði að útbúa gúmmífleig úr einhverju óskilgreindu sem meðferðis var og rak í gatið.  Til frekari þéttingar var seilst upp í Alla tekniker Jör eftir tyggjói, sem stöðvaði allan leka. Þegar næst var stoppað athugaði Grindavíkurjarlinn Jónemil hvort kíttið héldi og fór um það nettum höndum eða öllu heldur hönskum, sem klíndust allir út í heitu tyggigúmíinu og olían fór að smitast út aftur.  Þá var einn eftir með jórturleður, lyfsalinn og nikótínistinn Reykjalín sem fórna þurfti lítt tuggnum nikótínskammti á ventlalokið. Þetta hélt að mestu, en þó þótti fíkniefnið lakari kostur en hefðbundin tugga án eiturs.

20.04.18

Rólegur dagur, fór í fylgd Möllersins og Reykjalíns lyfsala í Totra gljúfrin. Þangað er um klukkustundar akstur, leiðin liggur um bæinn Tineghir sem er um 60 þúsund manna samfélag og liggur minni gljúfursins ekki fjarri bænum. Hérna megin Atlasfjalla er allt annað landslag og einkum gróðurfar en vestan fjallanna. Nú er ekið um hálfgerða eyðimörk, endalausar sandbreiður með örlitlum þurragróðri dreifðum um sandinn enda er orðið stutt í sandauðnina miklu, Sahara.

Totra er mikið gil, stundum þröngt með háum veggjum og annars staðar víðara, hlykkjast í miklum bugðum inn í fjöllin. Framan af rennur lítil á eftir gljúfurbotninum en innar er allt vatnslaust. Malbikaður vegurinn liggur eftir botninum, en á löngum köflum er slitlagið orðið ansi dapurt. Snörluðum eftir að komið var til baka úr fjöllunum og renndum síðan heim á Kaspah Perla du Dades.

21.04.18

Nú var ekið í átt að einum hápunkta ferðarinnar, inn í jaðar Sahara sandauðnarinnar. Mótorfákunum er lagt á þar til gerðu stæði og síðan er söðlað um á öllu hægari farskjóta og hastari, því framhald ferðarinnar þennan daginn er á kameldýri. Skjökta menn á þessum skepnum um eins til tveggja tíma reið og eru fegnir að komast af baki við tjaldbúðirnar í eyðimörkinni þar sem ágætri gistingu hefur verið komið upp með allri þeirri aðstöðu sem nútíma ferðamaður gerir kröfu um. Einhverjir í hópnum höfðu fengið andstygðarpöddu í kviðinn, sem olli skelfilegum óskunda í meltingarfærum viðkomandi. Fyrir þá sem þannig var ástatt um var úlfaldareiðin harla blendin skemmtun, en ánægjan þeim mun meiri að komast af baki og rakleitt í þar til gerða aðstöðu bak við lokaðar dyr.

Að öðru leyti er ánægjan fyrst og síðast fólgin í því að fótum troða þessa stærstu sandauðn jarðar og samsamast móður jörð með sand auðnarinnar í öllum vitum, innundir öllu, oní öllu, yfir öllu og allt umkring, taka myndir af herlegheitunum og deila með heimsbyggðinni, þökk sé þeim sem öllu ráða og fylgjast með flestum okkar hreyfingum.

Ritari fór reyndar í annan leiðangur þennan daginn, af allt öðrum toga, þökk sé Grindavíkurjarlinum. Á leið okkar í auðnina tók sá góði maður smá sólónúmer í miðju hringtorgi, smellti sér í götuna og sendi farskjótann fram fyrir sig, lét hann taka hálfhringsveltu, en varaði sig ekki á því að ventlalok vélarinnar er óvarið og svona sirkuskúnstir eiga til að tjóna maskínuna eins og gerðist í þessu tilviki. Sprunga í lokinu olli því að olía lak af vélinni og farskjótinn því ekki til frekara brúks á þessum tímapunkti. Hagleiksmaðurinn Hermann, sem nokkru fyrr í ferðinni hafði séð ámóta tjón og tekið þátt í að plástra á það sár, tók málin hér fumlaust í sínar hendur. Með hjálp þeirra góðu ferðafélaga sem þarna voru staddir tók hann að sér að koma hjólinu á aksturhæft ástand á ný.

Útgerðarmaðurinn mikli var hálfdasaður eftir byltuna og að góðra manna ráði hallaði hann sér þarna á gangstétt sem lá meðfram hringtorginu. Farskjótinn hafði bankað óblítt í ökkla íþróttamannsins í fallinu og var óvíst hvort hann væri heill eða brotinn. Lyfsali Reykjalín var með teigjuband af betri gerðinni og var því til að byrja með vafið um fót þess fallna. Þar sem kappinn lá og hvíldi sig á gangstéttinni bar að innfædda sem án frekari málalenginga kölluðu eftir sjúkrabíl og var hann kominn að vörmu spori, enda hersingin stödd í jaðri kaupstaðar. Það kom í hlut ritara að fylgja ökklanum á hjúkrunarstofnun landsbyggðarinnar í Marokkó. Heldur var aðstaðan með öðrum hætti en menn eiga að venjast á heilbrigðisstofnunum landsbyggðarinnar á Fróni, svo vægt sé til orða tekið. Þarna vorum við á læknislausri heilslugæslu og var okkur tjáð að ökklinn þyrfti að komast undir læknishendur og til þess þyrfti að aka til Arfoud, sem er tæplega hálftíma akstur, nema náttúrulega í þessum eldgamla Nissan station bíl. Þetta hræ hafði fengið blá ljós á toppinn og pláss útbúið fyrir „sjúkrabörur“ og var þar með löggiltur til sjúkraflutninga og bílstjórinn gaf hvergi eftir í akstrinum. Okkar upplifun var að þessi útgerð væri hans einkarekstur og farartækið notað til hvaða annarra flutninga sem er á milli þess að flytja skaddaðan ökkla og fólk með aðra áverka eða pestir.

Eftir nokkra bið á sýnu stærri heilsugæslu í Arfoud kom læknir, skelegg ung kona sem tók strax af skarið með það, að mynda þyrfti ökklann, en tæki til slíks voru ekki til á hennar stöð. Fara þyrfti til Er Rachidiea liðega klukkustundar akstur beint í norður með okkar ökuglaða sjúkraflutningarmanni. Enn er slegið undir nára og ekið m.a. um langan dal, sem þakinn er döðlupálmum á dalbotninum í þessum annars berangurslegu fjöllum. Þegar í bæinn er komið eftir formúluakstur fornbílsins, þar sem okkur fannst við oft og tíðum vera í meiri lífshættu en annars í þessu margbreytilega ferðalagi, er manninum með áverkann trillað beint inn á þá sjúkrastofnun sem aðeins frekar líktist spítala en þeir staðir sem okkur hafði áður verið ekið á. Að vanda löng bið á göngum og þar sem við gátum illa gert okkur skiljanlega á máli berba og enn síður á arabísku, komu þau örfáu orð sem ritari enn man úr frönskunáminu að því gagni sem helst verða mátti. Einhvern veginn dugðu þau til að viðhalda trú okkar á því að eitthvað væri að gerast í okkar málum, enda gerist það svo að heillöngum tíma liðnum, að ökklinn fór undir geislann á röntgentæki gömlu, ættuðu frá Ítalíu. Ánægjuleg niðurstaða þessarar ljósmyndunar var sú að allt væri óbrotið, einungis kvikindisleg tognun og mar og ökklinn skyldi vafinn. Reyndar gott betur, því gips var sett á fótinn og þegar söguhetjan biður um að fá það svo nett að hann komist í skóinn sinn, setur óstöðvandi hlátur að stúlkunum þremur og unga manninum sem önnuðust aðgerðina. Litla gipsherbergið fylltist af gleði og sjúklingur með fylgdarmanni gátu ekki annað hlegið með og skemmt sér hið besta. Eins og gefur að skilja tóku svo allir myndir af öllum með öllum í þessari alltumlykjandi hamingju, hver á sína vasamyndavél. Að því loknu var tekinn leigubíll í bæinn þangað sem hjólið gaf sig, en viðgerðarmenn höfðu komið hjólum okkar á lögreglustöðina í þorpinu að aflokinni viðgerð.

Hófst nú mikið ferli skýrslugerðar á arabísku með einum fingri á forna tölvu. Margt þurfti Grindavíkurjarlinn að upplýsa marokkósku lögregluna um, umfram það sem við þekkjum úr skýrslugerðum löggæslumanna íslenskra, t.d. nöfn og störf beggja foreldra. Tókst þessum embættismönnum það sem ritari hafði óttast, að halda okkur fram í myrkur á stöðinni, áður en lyklar að hjólunum voru afhentir. Engu að síður héldu þessir tveir farandkarlar út í náttmyrkrið á mótorfákum sínum, annar náttblindur og hinn haltur, í gipsi upp á miðjan kálfa, til að finna hótel sem þeir þóttust vita af í um 20 km fjarlægð.  Gekk það vandræðalaust og gistihúsið besti náttstaður allrar ferðarinnar. Eftir að hafa gert hlaðborði gestgjafa góð skil var kojan kærkomin endastöð dagsins.

22.04.18

Þessi dagur fór í rólega ferð heim í gistihúsið í Boumalne, með viðkomu í mikilli steingervingamiðstöð. Svo mikið finnst hér af steingervingum að gerðir eru alls kyns heimilismunir úr bergi með þessum steinrunnu skepnum í, svo sem skálar, diskar, styttur, vaskar og borðplötur. Um kvöldið sameinuðumst við svo aftur ferðafélögunum sem skiluðu sér heim úr sandauðninni miklu.

23.04.18

Rólegheitadagur. Sumir fóru ekkert, aðrir fóru í styttri túra í nærumhverfinu. Við lyfsalinn fylgdumst að, fyrst í bæinn (Boumaln) í hádegissnarl þar sem við rákumst á hinn málglaða Klaus sem ættaður er frá Frankfurt an der Oder en býr í Muenchen. Að málsverði loknum rúlluðum við lyfsalinn smá spotta inn í döðludalinn og snérum til baka eftir að hafa fengið okkur kaffi. Stjórnborð hjólsins hjá mér sýndi að loft vantaði í afturdekkið, þó að ég væri nýbúinn að bæta í það vegna sömu upplýsinga áður, trúlega gat á dekkinu. Á dekkjaverkstæði við afleggjarann að hótelinu kom í ljós að nagli sat í dekkinu og var gert við hjólbarðann fljótt og örugglega og mátti ég greiða heila 40 peninga (um 450 kr) fyrir þá vinnu. Villi hraðskreiði, sem við hittum á bensínstöðinni þarna rétt hjá, hafði fengið örlítinnn vírspotta í sitt afturdekk og fylgdi mér á gúmmívinnustofuna og dró þar sjálfur vírinn úr barðanum með leðurmanni sem hann hefur í farangrinum. Vírinn hafði ekki farið inn úr gúmmíi barðans og þurfti verktakinn því enga þjónustu þarna að kaupa þó starfsmaðurinn hafi, rétt á meðan við brugðum okkur í einn spresso bolla, verið búinn að kippa hjólinu af hjólinu til þess eins að staðfesta hér væri allt eins og best væri á kosið.

Haldið heim á hótel. Kvöldskatturinn úr tajinu, lamb með fíkjum og sveskjum og hrísgrjón með.

24.04.18

Ók í samfylgd lyfsalans eftir aðalgötum landsins til Azrou, um 450 km í góðu veðri framan af. Ritari setti allt sitt traust á þann góða mann og hans hátæknivædda leiðsögutæki. Reyndar átti ratvélin til að senda okkur smá aukasnúninga, var á gatnamótum ekki alltaf með akstursleið okkar á hreinu og kvað svo rammt að þessu á tímabili að ritari var farinn að vantreysta þessu annars óskeikula áhaldi. En svo kom náttúrulega í ljós að tækið var ævinlega að gefa réttar upplýsingar, þ.e.a.s. útfrá gefnum forsendum og það sem vantrúaður telur vera rugl í tæki er ekki annað en gleymska á að haka við eða afhaka skipanir, sem reyndar flóir af í svona vél og ekki fyrir hvítan mann að muna hvar er við hakað og hvar hökun vantar.

Segir fátt af ferðum þessara hjólamanna fyrr en veðurspáin fer að ganga eftir, hitinn lækkar og óvinsæl úrkoman fer aðeins að bleyta í vegfarendum. Þessu áttu félagarnir svo sem von á, en alls ekki hinu að lenda í þykkum snjókrapa á veginum þarna í hinni heitu og þurru Afríku. Varð þeim kumpánum um og ó, báðir alls óvanir vélhjólaakstri í vetrarfærð og skíðuðu þeir einhvern veginn í gegnum krapann og hafðist þessi vetrarakstur slysalaust þó annað hjólið hafi í einu augnabliki lagst örlítið á hliðina í snjóinn, en algerlega tjónlaust. Á þessum slóðum fór hitinn næstum niður undir frostmark, mælirinn sýndi 2,5 gráður. Eftir þetta var allt vandræðalaust. Þegar niður úr fjöllunum kom tekur aftur við fallega grænt landslag sem minnir á Suður-Evrópu, iðagræn engi, kornakrar, grænmetisrækt mikil, ávaxtatré og ólífur svo langt sem augað eygir.

Mættum á skikkanlegum tíma í næturgistinguna, sem er flott og vandað gistihús þar sem barinn bauð upp á allar helstu áfengistegundir, ferðamönnum til ánægju og yndisauka. Dinnerinn var jafnframt vestrænni en það sem borið hafði verið á borð fyrir okkur til þessa, fá mátti grillaðan silung og kalkún með sveppasósu, algerlega ljómandi mat. Hæfilega þreyttir og allt of saddir skriðu menn sælir undir teppin.

25.04.18

Enn í samfylgtd lyfsalans þægilega leið frá Azrou til Chefchauen, um 260 km. Áttum að vera komnir fyrir kl 3, því um 4 var rúta í bæinn. Ökum um svipaðar slóðir og í upphafi ferðar, frjósamar sléttur milli iðagrænna hæða, allt í rækt, grænmeti, korn, ávaxtatré, vín og hvað annað sem til landbúnaðar heyrir. Enn eru fjárhirðar með smáhjarðir sínar við vegkantana, maður með eina belju í bandi á beit og á stöku stað jafnvel geitahirðar. Hestar, asnar og múlasnar eru vistvænt hreyfiafl flutnings- og farþegavagna innan um ósandi fornbílana. Þegar ekið var í gegnum borgina Mekenes lentum við í einu umferðartöfunum í öllum túrnum, það tók allnokkurn tíma að silast í gegnum borgina í stybbu af öllum þeim gömlu ökutækjum sem hér fylla götur.

Nokkur bið var eftir síðasta hjólafólkinu, en þegar allir höfðu skilað sér fóru smárútur með okkur í bæinn þar sem við röltum um þessa bláu borg sem liggur í hlíðum hæðar og stígar flestir því annað hvort upp í móti eða niður á við. Víða eru húsin eins og fallegar sviðsmyndir úr sjónleikum, t.d. Kardemommubænum eða áþekku leikriti. Rólegt kvöld og beint í koju eftir kvöldskattinn.

26.04.18

Frá Chefchauen til Tanger, rétt liðlega 200 km, ók ég með lyfsalanum og herra forseta, afar fallega leið. Farið var um mikið gljúfur, klifrað upp í heilmikla hæð í morgunsvalanum og niður úr fjöllunum lá leiðin að ströndinni þar sem bugðóttur vegurinn fylgdi víkum, vogum og ásum meðfram strandlengjunni svo að stundum minnti á þá vinsælu braut sem tengir saman Friskó og LA meðfram Kyrrahafsströnd Ameríku. Miðdegissnarlið varð að veislumáltíð að undirlagi formanns sem lét leiðsögutækið vísa okkur á eina af betri matsölum snekkjuhafnarinnar Marina Smir við Tetauen borg. Þaðan var síðan valin fljótlegasta leið til Tanger og áttu menn náðugan eftirmiðdag í þeirri ágætu borg.

27.04.18

Við höfnina í Tanger fór svolítill tíma í að skila inn þar til gerðum pappírum vegna hjólanna og ganga frá passaskoðun með þeirri lítt notalegu bið sem slíku fylgir. Að því loknu þurfti að aka hjólunum, eins og reyndar öllum bílum, upp á pall alllangan, þar sem ferðmenn máttu yfirgefa sín ökutæki áður en heljarmiklum skanna eða geislatæki einhverskonar var rennt yfir þau af stakri nákvæmni, með háværum sírenuhljóðum. Þegar þessi heilsufarsgreining reiðskjótanna var um garð gengin mátti ferjan innbyrða bæði fólk og farartæki og skammt eftir á evrópska grund. Jökladræverinn Hermannsson talaði allann hópinn inn í betri stofu ferjunnar þar sem vel fór um fólkið í þessum skreppitúr milli heimsálfa.

Til að ná þriggja landa sýn þennan daginn var haldið rakleiðis á klettinn Gíbraltar og náðu menn þannig árdegsmat í Marokkó, miðdegissnarli í Bretlandi og kvöldskattinum á Spáni og fannst mönnum þeir orðnir harla víðförlir þegar þeir skiluðu sér á hið huggulega hótel xxxxxxxxxx í Malaga í gistingu og kvöldverðarhlaðborð.

28.04.18

Hjólunum á að skila um fjögur leytið. Ekki þótti við hæfi slíkra hjólagarpa sem þarna voru á ferð að taka beint strik þangað, heldur var kjörið að bæta eins og einum eða tveimur góðum fjallvegum við aksturinn áður en í hús var komið. Þeir lengra komnu nutu þess að slá duglega undir nára og láta sig hverfa upp bratta og bugðótta fjallvegina, á meðan óreyndari ökumenn fóru heldur hægar yfir. Í leit að bensínstöð til að fylla hjólin áður en þeim var skilað, leiddu leiðsögutæki Hauksins frána, sem fór fyrir þessum hópi síðasta spöl Marokkóferðarinnar miklu, okkur eftir skemmtilegum hæðóttum þrengslagötum smábæjar skammt frá hjólaleigunni. Orkustöðin fannst og hjólunum var skilað með fullum tönkum til bmb leigunnar og ferðamönnum síðan transporterað á hótel Holiday Inn Airport Express til gistingar síðustu nótt þessa ferðalags. Síðdegi og kvöldi vörðu flestir í Malagaborg, þar sem rölt var um strætin iðandi af mannlífi, götulistafólki og öðru því sem gæðir líf vegfaranda lífi. Með skilaboðaskjóðu whatsapp var svo  öllum smalað til kvöldverðar á afar vinsælt veitingahús, El Pimpi.

29.04.18

Flogið heim með viðkomu í Köben, þar sem tekinn var léttur miðdegissnæðingur í Nýhöfninni og smá rölt um fornar slóðir. Heim komnir nutum við aftur þjónustu Arngríms á ofurtrukknum til að skila okkur hverjum til síns heima.

Skemmtileg og spennandi ferð á enda runnin, minningarnar eiga eftir að ylja manni og myndirnar rifja upp augnablik, staði og ánægjulegar stundir.