Lagt upp frá Nesradíó

Lagt upp frá Nesradíó kl 9. Þangað mættu að sjálfsögðu betri helmingar okkar beggja til að vinka okkur bless. Einnig kvaddi okkur þarna í Síðumúlanum Bjöggi ritari BMW hjólaklúbbsins og altmugligman á þeim vetvangi, einn af styrkustu stoðum þess ágæta selskapar. Til að auka enn á ánægju þessa augnabliks og gefa því aukið vægi gaf Kristján hringfari sér tíma til að koma og gefa okkur síðustu heilræðin fyrir brottför og mætti auk þess færandi hendi með sætabrauð og kruðerí til að hafa með síðasta kaffisopanum í höfuðborginni að sinni. Jafnframt stóð sá mikli globetrotter fyrir myndatökum með skipulögðum uppstillingum af þeim sem þarna voru. Að aflokinni þessari kveðjustund héldu ferðalangarnir út í suddann, hlakkandi til komandi ævintýra.

Ákveðið var að fara norður um þar sem veðrið yrði skárra þar. Engu að síður vorum við í súld eða rigningu mestan part leiðarinnar til Mývatns, þar sem við gistum, nema rétt þegar við ókum gegnum Skagafjörðinn, þar var þurrt á okkur. Þegar veðurkortið var skoðað á netinu var eins og yfir þjóðveginum norður um land lægi mjór en massífur regnskýjafláki og ókum við sem sé undir honum, en einhvern veginn tókst Skagfirðinum að klippa á hann og halda utan við sitt áhrifasvæði. Í Borgarnesi bættist þriðji maður í hópinn, Garðar flugmaður og radíóvirki, en hann hafði boðið okkur gistingu í myndarlegu gistihúsi við Mývatn, sem hann rekur þar ásamt bræðrum sínum.

Á Akureyri ræddi ég það við samferðamennina að við ækjum Víkurskarðið, því ég ákvað það þegar Vaðlaheiðargöngunum var kippt út úr gangnabiðröðinni á sínum tíma og troðið fram fyrir mikilvægari framkvæmdir á þeim vettvangi, að ég myndi aldrei styrkja þetta projekt með því að aka þar um og greiða skattinn. Félagarnir vildu nú heldur fara þessa styttri leið og töldu mig á að koma með, í ljósi þess að mótorhjól eru undanþegin vegaskattinum, því gæti ég með góðri samvisku ekið þar um án þess að skilja eftir krónu hjá því fyrirtæki. Skemmst er frá því að segja eftir akstur í súld og regni lenti maður þarna í göngunum í öflugum þurrkara, því hitinn inn í fjallinu fór upp í 34 gráður. Þar sem kompaníið hafði ekkert af mér fyrir að fara þarna um, leyfði ég mér að vera áfram sáttur við minn innri mann. Um kvöldið snæddum grillmat hjá Garðari hótelhaldara og gengum saddir og sælir, frekar tímanlega til náða. Eknir 479 km.