Súld í Mývatnssveit

Súldin fylgdi okkur þennan morgun út Mývatnssveitina, en á Mývatnsöræfum vorum við komnir í þurrara veður sem breyttist svo í sólskin á Möðrudalsöræfum og hélst þannig út Jökuldalsheiðina og í raun það sem eftir lifði dags. Fjalladrottningin skartaði snækolli og gladdi augað sem endranær, þar sem hún rís upp úr umhverfinu og gnæfir yfir dyngjur og önnur fjöll sem umhverfis hana liggja. Þar sem við liðum þarna áfram á okkar fráu farskjótum, rifjuðust upp ferðirnar inn í Herðubreiðarlindir og Öskju á gömlum breyttum hertrukkum, þegar maður ungur að árum vann við leiðsögn hjá Safaríferðum Úlfars Jacobsen, áður en Ísland komst í tísku og fjöldanum fannst ástæða til að leggja lykkju á sína ferðamannsleið hingað norður í næturbirtu og ofurverðlag. Þetta voru sannar ævintýraferðir, tjaldgisting og eldhúsbíll og stundum slark, en fyrst og fremst yfirmáta skemmtilegar reisur.

Fengum okkur miðdegissnarl í alveg hreint stórskemmtilegri matsölu á Egilsstöðum. „Skálinn Diner“, heitir vertshúsið og er vægast sagt virkilega vel útfærður amerískur „diner“, eins  og maður hefur upplifað þá vestra og séð í ótal kvikmyndum. Og aðalatriðið, maturinn frábær og vel útilátinn, algerlega í stíl við það sem maður kannast við frá USA. Síðan áttum við bara eftir hina stuttu en bugðóttu leið niður á Seyðisfjörð þar sem ferjan bíður. Brunuðum þetta í einstakri veðurblíðu. Á Seyðisfirði súnnuðum við okkur í sólinni, fengum lánaðan torklykil nr 50 á verkstæði við höfnina, til að herða skrúfu á skjólhlíf við handfangið á hjólinu mínu og endurskipulögðum farangurinn á hjólin, því nú voru yfirhafnir og skjólflíkur tjóðraðar við fákana áður en þeir yrðu strappaðir niður í kvið ferjunnar. Snæddum síðan kvöldskattinn á Öldunni, ljómandi fiskur og franskar, nýr og safaríkur fiskurinn í orlydeiginu akkúrat hæfilega eldaður. Sérviskan í manni er komin á það stig að þegar ég panta fisk á veitingahúsi, sem ég geri oftast, er ég gjarnan haldin hálfómeðvitraðri spennu yfir því hvort fiskurinn verði nokkuð ofeldaður, er þó ekkert að velta því mikið fyrir mér en fagna ævinlega þegar fiskurinn reynist ferskur og safaríkur.

Þegar við keyptum farmiðana í ferjuna 26. mars var uppselt í allar skárri vistarverur þessa stóra skips, þannig að okkur bauðst enginn kostur annar en svefnpokapláss í 9 manna klefa neðan við sjólínu, þrír kojurekkar og þrjár hæðir í hverjum, takk fyrir. Þar sem þetta er nú bara þriggja nátta gisting má svo sem alveg vel við una.

Eftir að hafa tjóðrað hjólin drifum við okkur niður til að koma okkur fyrir. Tryggðum okkur fletin á fyrstu kojuhæð af þremur og skröltum svo upp á dekkbarinn á áttundu hæð ferjunnar og héldum okkur í efri byggðum þar til ferjan lét úr höfn, en þá skröngluðumst við niður til að forvitnast um herbergisfélaga. En sjá, enginn hafði bæst í klefann, þannig að við fögnuðum því að hafa þetta rými fyrir okkur, alla vega til Færeyja. Búið var að segja okkur að ferjan væri full þaðan til DK, en nú gátum við alla vega hrotið hvor í kapp við annan án þess að hafa áhyggjur af samferðafólki.

Glaðbeittir ævintýrapiltar

Á barnum á sjöttu hæð var færeyskur skemmtikraftur með hljómborð sem söng af miklum krafti og innri gleði jafnt gömul djasslög, eldri slagara og eurovision vinningslög og gerði kappinn stormandi lukku hjá klíentalinu þar sem við radíóvirkinn vorum í hópi yngstu áheyrenda. Með tóna þessa hressa trúbadors í skynfærunum héldum við niður í neðri byggðir og lögðumst þreyttir hvor í sinn sekk. Eknir 198 km.