Á götur Færeyja

Sváfum út og drifum okkur svo í morgunverðarhlaðborðið. Síðan leið tíminn við lestur, myndasorteringar í tölvu og síma og annað daml. Komum til Þórshafnar um þrjúleytið og þó hann væri frekar súldarlegur ákváðum við að láta slag standa og drífa hjólin út á götur Færeyja. Við vorum varla komnir út úr skipinu þegar hann byrjaði að rigna fyrir alvöru, svo þá var bara að drífa sig í regnbuxurnar. Radíóvirkinn smeygði sér í sinn eiturgula vatnshelda samfesting en sjálfur leitaði ég árangurslaust að regnbuxunum sem haldið höfðu mér þurrum langleiðina hingað. Eftir að hafa farið í gegnum allar þrjár töskur hjólsins og sjópokann sem strappaður var á farþegasætið, rak ég höndina í buxurnar, en ég hafði vafið þeim þéttingsvel upp og stungið í vasann á bosmamiklum hlífðarjakkanum sem ég var í. Ánægður með að hafa hvorki týnt neinu né gleymt til þessa, klæddist ég flíkinni og við trilluðum inn í rigninguna, sem þó varð til að þess að Færeyjatúrinn varð mun styttri en til hafði staðið og flúðum við regnið inn í skipsskrokkinn fyrr en ætlað hafði verið. Hengdum blautan fatnaðinn á hjólin til þerris, drifum okkur í heita og kraftmikla sturtu og mættum svo upp í almenning, hreinir og hressir.

Þórshöfn í Færeyjum: Fallegur svipur liðins tíma prýðir bæjarkjarnann

Campari orange fyrir matinn, hlaðborð og síðan upp til að hlusta á trúbadorinn skemmtilega. En úps, nú var kominn einhver gítargutlari sem stóð fyrri skemmtikrafti langt að baki og hélt hann okkur ekki lengi á svæðinu. Neðanþilja hafði enginn bæzt í klefa 2203 og höfðum við því þessa vistarveru áfram fyrir okkur sjálfa, þótti það ekki verra. Greinilegt er að þessi ómerkilegu gistirými teljast ekki með þegar upplýst er um bókunarstatus farkostsins mikla. Radíóvirkinn vill meina að þetta séu ósamþykktar íbúðir.