Úganda 2017

Eftir um mánaðar útilegu, 3 vikur á Tene í golfi og nokkurra daga stutt stopp hjá piltunum í París erum við loksins sest upp í vél Kenýa Airways sem ber okkur fyrsta leggin í langþráðri ferð okkar til Stefáns Jóns í Úganda. Með þriggja tíma stoppi í Nairóbí og þriggja tíma flugi þaðan til Entebbe sem bætast við þá 7 og hálfan tíma sem flugið tekur héðan frá París CDG til Kenýa, verðum við komin um 3 leytið að nóttu á áfangastað, eftir að hafa tekið á loft kl. 10:10 á CDG.

Einhvern veginn atvikast það undantekningarlítið að við hina afskaplega misströngu og mannfjandsamlegu vopnaleit þegar gengið er um fordyri biðsala á flugvöllum heimsins, þá flauta á skrásetjara þessarar frásagnar öryggishliðin, þó aldrei finnist neitt á manninum sem tilefni gæfi til slíks, enda orðinn vel meðvitaður um alla þá hluti sem þessi dyntóttu tól láta fara í taugarnar á sér og hefur því komið sér upp vel þjálfuðu rútínuferli í að fjarlægja allt það sem gæti með einhverjum hætti komið þeim í uppnám. Á síðari árum er sprengjuleit orðið vinsælasta áreitið og þó manninn reki ekki minni til að hafa fengist við sprengjur og sprengjugerð síðan hann í barnæsku fyllti tóm kindabyssuskothylki af eldspýtnabrennisteini, sem var vandlega skafinn af spýtunni í hylkið, kleip saman opið og bretti uppá svo hylkið héldist vel þétt og lamdi síðan á „sprengjuna“ með hamri á steini eða steðja til að ná afar sannfærandi hvelli. Þegar þetta uppgötvaðist var pilturinn skammaður og brýnd fyrir honum hættan sem af þessu gæti stafað, en ekki átti sá ungi maður von á því að örlaganornirnar hefðu ákveðið að refsa honum á efri árum fyrir svo smávægilega yfirsjón með því að blása öryggisvörðum flugvalla í brjóst að áreita hann í svo gott sem hverri hans flugferð og velja hann úr stórum hópum flugfarþega til sérstakrar sprengjuleitar. Því er þetta nefnt hér, að svo undarlega vill til að á þeim góða flugvelli CDG flauta hvorki viðvörunarbjöllur né er farið fram á sprengjuleitarathugun og þá bregður svo merkilega við að þessum flugfarþega dettur ekkert fyrr í hug en hvort farið sé að slá slöku við í þessari ábúðarmiklu öryggisgæslu.

Þrátt fyrir að ferðlangarnir hafi víða farið og margt upplifað á sínum ferðaferli, er allnokkur spenningur og heilmiklar væntingar bundnar við þessa fyrstu Afríkuferð frúarinnar, ef frá eru talin örfá lönd norðurálfunnar, en karlinn hefur tvívegis stungið niður fæti sunnan við miðbik þessarar magísku heimsálfu. Okkar maður á staðnum sem hér hefur yfirumsjón með framkvæmdum á vegum íslenskrar þróunaraðstoðar, hefur skipulagt dagana þannig að gestirnir upplifi sem allra mest og útbúið dagsskrá fyrir flestar vökustundir dvalarinnar. Er slík aðstoð seint fullþökkuð, því í stuttri ferð er allnokkur kúnst og heilmikil vinna að finna út úr hlutum og ná góðri nýtingu tímans sé maður upp á sjálfan sig kominn að öllu leyti.

Flugið sjálft var notað til lestrar milli þess sem ferðalöngunum rann í brjóst. Út úr vélinni var gengið beint inn í Afríkuhlýindin utan við flugstöð Entebbe flugvallar sem frægur varð um árið á velmektardögum Idi Amins Dada, þegar Ísraelsmenn björguðu fullri flugvél af gíslum sem þar voru í haldi og vissu heimamenn ekki fyrr en búið var að tæma vélina og koma fólkinu í aðra sem þarna hafði lent öllum að óvörum og voru komnir í loftið með fólkið áður en Úgandamenn höfðu áttað sig á því sem gerst hafði. Eðlilega var svo gerð Hollywoodmynd um þennan atburð allan, heimsbyggðinni til ánægjuauka.

Gestirnir sem nú voru nýlentir hafa sem betur fer ekki af neinum slíkum ævintýrum að segja, en eins og títt er um þróunarlönd, þá eru þau með einstaklega spaugilega öryggisskoðun víðs vegar á sínum flugvöllum og að sjálfsögðu eru menn hér engir eftirbátar annarra slíkra í þeim efnum.  Ábúðamikill landamæravörður tekur sér góðan tíma í fingraskönnun, fyrst fjórir á hægri, síðan hægri þumall, þá sama ferli fyrir vinstri og að lokum ljósmynd af andliti, horfa beint í vélina, gjöra svo vel. Þessi prósess er vinsæll í Bandaríkjunum og hefur öðrum þróunarlöndum fundist þetta flott, svona verðum við líka að gera, helst svoldið meir. Heilt komst fólkið í gegnum þetta, ekki kannski hlæjandi á þessu tíma sólarhrings þrátt fyrir allt spaugið í móttökuathöfn stjórnvalda. Þarna um miðja nótt tekur Lawrence bílstjóri á móti ferðafólkinu úfnu og illa sofnu, en þessi ökumaður hefur fylgt starfsfólki þróunaraðstoðarinnar um árabil og kemur okkur í hús hjá okkar góða vini. Eftir að hafa rætt og raupað um allt og ekkert, einkum þó plan íhöndfarandi daga, fór heimamaður til vinnu en gestir stungu sér undir teppið til nokkurra stunda kríu.

28.02.2017

Augun opnuðust aftur um hádegisleytið, bað og bollaleggingar og góður árbítur sem í raun var eiginlega hádegisverður. Vorum heima við þar til húsráðandi kom úr vinnu og var þá haldið á kontórinn til að berja hans starfsstöð, í húsakynnum danska sendiráðsins, augum. Þangað inn kemst enginn nema að undangenginni ítarlegri öryggisskoðun. Þegar daman sem mundaði öryggisleitartækið og bar það upp að gesti, pípti það og veinaði hvar sem niður var borið og gesturinn sem áttaði sig strax á alvarleik þessarar rannsóknar setti sig óðara í þá stellingu sem krafist er við samsvarandi athafnir jafnt í öryggishliðum bandarískra sem rússneskra flugvalla, stillti sér upp með gleiða fætur og hendur saman ofan við höfuð. Við þetta setur að ungu dömunni hlátur mikinn og hélt hún gleði sinni óslitið á meðan tækið flautaði og hún þreifaði og þuklaði gestinn og höfðu bæði augljóslega gaman nokkurt af.

Eftir að hafa heilsað fólki sem þarna sinnir sínum störfum, var haldið á golfvöll bæjarins, sem liggur svo gott sem í Hljómskálagarði Kampalaborgar. Starfsmaður einn íslenskrar ættar fylgdi með til leiks og átti hópurinn þar skemmtilega stund. Það er ný og einkar ánægjuleg upplifun að spila með kylfubera sér við hlið. Hann finnur boltan sem oftar en ekki er utan brautar, hann þrífur kylfuhausinn eftir hvert högg, hann þrífur kúluna eftir hverja holu og fyrir hvert högg réttir hann manni rétta kylfu, og veitir holl ráð, þægilegur maðurinn, þó hann hjóti nú að pirrast agnarögn á jafn lélegum spilara og þessum flugþreytta ferðalangi. Einn lítill g og t í klúbbhúsinu og dinnerinn á huggulegum stað í verslunarmiðstöð rétt neðan við heimili okkar manns áður en heim er haldið og gengið til náða.

1.03.

Á fætur um sjöleytið í kjölfar húsbóndans sem farinn var til vinnu þegar ferðafólkið hafði tínt á sig leppana og gægst fram fyrir dyr. Árbítur í rólegheitum og litið í blöðin en um 10 leytið var ævintýrafólkið sótt af tveimur ökumönnum ferðaskrifstofu Walters, í skoðunarferð um höfuðborgina sem farþegar á gömlum vélarvana smámótorhjólum. Vinstri umferðin hér lýtur alfarið sínum eigin lögmálum og í transporti milli áhugaverðra staða voru þessi smáhjól pökkuð inn í iðandi óreiðuna, sem á lítið skylt við umferð í okkar merkingu þess orðs. Ferðfólkið hvort aftan á sínu hjóli var flest augnablik ferðalagsins aðeins hársbreidd frá því að nuddast utan í bíla, gangandi vegfarendur eða önnur hjól og hreint með ólíkindum að hæglátir og fremur rindilslegir ökumennirnir hafi komið farþegum sínum heilum gegnum þennan fyrsta dag marsmánaðar.

Hápunktar þessarar skoðunarferðar voru Bahaíhof, eitt af átta sem til eru í heiminum, stóri matvörumarkaðurinn, þar sem rölt var eftir fremur aurugum stígum milli „sölubásanna“ í ávaxta- og grænmetishlutanum. Þar næst Gaddafimoskan er mikið guðshús múslima, sem sá miður vel þokkaði höfðingi þessarar þjóðar, Idi heitinn Amin lagði grunnin að en náði ekki að klára sökum stríðsátaka, en fékk sinn góða vin Gaddafi yfirstrump í Líbíu til að fjármagna að mestu og náðist að ljúka við áður en hans tími var allur. Við konungshöllina sem konungurinn reyndar býr ekki í, enda vart meira en eins og meðal herragarður að stærð, er einhver alræmdasti og hryllilegasti staður sem ferðafólki á þessum slóðum býðst að skoða, en þarna eru pyntinga- og dauðaklefar einræðisherrans skelfilega þar sem hann lét drepa um 19.000 manns, flesta að undangengnum hræðilegum meiðingum. Arftaki hans og fyrrum samherji, Obote, tók svo við keflinu og varð um 6.000 manns að aldurtila á þessum stað með hliðstæðum meðulum og hans fyrrum besti vinur.

Allt átti þetta sér stað í ekkert mjög stórri neðanjarðarhergagnageymslu sem Ísraelsmenn höfðu byggt fyrir úgandíska herinn einhvern tímann allnokkru fyrr. Idi þurfti að nota hergögnin því ógn steðjaði af gamla vininum Obote og var þarna þá komið hið heppilegasta fangelsi með nokkrum allstórum rýmum inn af gangi nægilega breiðum til að aka þar inn stríðstólum. Standa rýmin um metra ofan við ganginn sem pyntingarmeistarar einræðisherranna fylltu gjarnan af vatni, hleyptu háspennu á vatnið og hrintu svo fórnarlömbunum í. Það er eins og viðurstyggðinni séu engin takmörk sett þegar upphugsa þarf aðferðir til að kvelja þá sem menn telja sér ekki þóknanlega.

Í kraðaki miðbæjarins var áð til að snæða rólex, eins konar pönnuköku sem á er sett afar þunn kydduð eggjahræra og henni svo rúllað upp og fengum við þetta skorið í bita á diski en hefði mátt stífa úr hnefa líkt og sykraða pönnsu íslenska. Afbragðs matur, eins konar þjóðarréttur hér, er okkur tjáð. Um nónbil var haldið heim á leið með stuttu stoppi við minnismerki um sjálfstæði landsins frá ´62. Heim komið var óðara haldið í næsta lið á dagsskrá, 90 mín nudd. Ekki veitti af, enda bæði háls og herðar herpt eftir streituna á vélhjólinu og gamlir bólgudraugar í vöðvum víða um kroppinn nuddaðir úr í leiðinni. Tveir endurnærðir einstaklingar hittu svo gestgjafann á matsölu í sama húsi og var snæddur hreint afbragðsgóður indverskur matur þetta kvöldið.

2.03.

Að afloknum árbít og sturtu eru ferðalangarnir sóttir af Peter, fyrrum bílstjóra embættisins sem nú er kominn með eigin bíl og eigin rekstur, en er starfsfólki embættisins innan handar hafi það þörf fyrir bíl og bílstjóra. Fyrir 300 þús. peninga, um 100 US dollara, ók hann parinu út á Mehta golfvöll í Lugazi sem eru ekki nema um 50 km frá Kampala en þó um hálfsannars tíma akstur því lungan af leiðinni er farið um þéttbýli, þorp og bæi.

Mehta golfvöllur er í eigu úgandísks manns af indverskum ættum sem rekur eina stærstu sykurverksmiðlu landsins þarna rétt hjá og byggði faðir hans völlinn svona fyrir sjálfan sig. Svo til allar brautir liggja ýmist utan í holtum eða þvert yfir aflíðandi gil og skógur allt um kring. Alveg hreint einstaklega fallegt og vinalegt umhverfi, afar fjölbreyttar brautir og þó að á þeim flestum sé gengið ýmist upp eða niður í móti, er hann ekkert sérstaklega erfiður á fótinn. Sem fyrr sáu kaddýar um að bera kylfur og þrífa eftir þörfum, en sérstakur boltafinnari, „ball finder“ fór ávallt fram á brautina og fylgdist með boltanum, til að finna hann þegar hann fór út af. Ekki þurfti fólkið þó „fánaþjón“ á þessum golfhring, eins og vinur þeirra eitt sinn í ónefndu landi álfunnar, en starfi þess manns  var að hlaupa með fánann að næstu holu þegar spiluð hola var búin, því aðeins var til einn fáni á vellinum.

Talandi um fána, þá gerðist það þegar ritari sló boltanum inn á flöt á holu 7 að hann fór beint í fánastöngina og við það súrraði illa fest flaggið niður, rétt eins og skotinn fugl á staur og vakti þetta nokkra kátínu viðstaddra. Livingstone framkvæmdastjóri þarna er einstaklega elskulegur og glaðlegur náungi sem birtist stundum óforvarendis á vellinum til að veita leiðbeiningar ef höggin geiguðu og hvatti þá óspart til að slá öðrum bolta og var svo horfinn. Eftir fyrri 9 var indverskur miðdegisverður snæddur á smá hóteli sem tilheyrir sama sykurbarón og er í sama huggulega umhverfi og svo spilað þar til gestir voru spilamettir og héldu heim.

Þegar í hús var komið, var betri helmingur gestgjafa komin úr snjónum heiman af klakanum og urðu að sjálfsögðu fagnaðarfundir. Setið að skrafi fram undir kvöldverð sem gestgjafar buðu til á líbönskum stað nærri heimili þeirra. Afar huggulegur staður og ljúffengir réttir, hver öðrum betri. Haldið árla til náða því næsta morgun skildi vaknað snemma til safaríferðar.

3.03.

Upp fyrir allar aldir, því nú er á dagskrá akstur í Murchison Falls þjóðgarðinn, sem eðli hlutanna samkvæmt er sambland af skógum og gresjum, náttúra full af spennandi villidýrum. Leiðin liggur um þorp og bæi með iðandi mannlífi og seigfljótandi umferð, en á einhverjum tímapunkti datt bílinn inn á sveitaveg með strjálari byggð og rann þar viðstöðulítið fram veginn. Eftir um 7 tíma akstur var hópurinn kominn að bökkum Nílar og þar tókst að semja við ferjumann, fyrir sanngjarna þóknun, um transport yfir ána utan fastra ferða, en annars hefði hópurinn mátt bíða á annan tíma eftir næstu ferð. Ofan bakka, handan árinnar er þjóðgarðsgistingin Paraa Safari Lodge, þar sem dvelja á næstu 2 nætur. Huggulegt gistihús hreiðrað inn í skóginn og villidýrin allt um kring. Á meðan fólkið var enn handan árinnar eygði það fíla á bakkanum framan við gistihúsið. Vörtusvín rölta upp á gangstéttarnar í bakgarðinum, skepnur sem eru svo óheppnar með útlitið að samúð með skepnunni fyrir ófríðleikann getur ekki annað en blandast kátínu um leið og dýrið er borið augum. Í sundlauginni er bar og þar við steyptir hnallar til að tylla sér á í vatninu á meðan veiga er notið. Barþjóninn var oftar fjarverandi en ekki, enda fáir gestir. Ekki brást að þegar starfsmaðurinn hvarf, kom afleysingarbarþjónn í formi bavíana sem gerði sig ansi heimakominn á barnum, ekki til að þjóna gestum heldur öllu fremur til að þjóna eigin búkþörfum, velti m.a. um rusladöllum í leit að góðmeti. Komst þó ekki í flöskurnar áður en hinn launaði starfsmaður hljóp til og skaut einhverju smálegu með teygjubyssu í aparæfilinn. Ferli þetta endurtók sig nokkrum sinnum meðan fólkið svamlaði þarna í lauginni og er, að því er virðist, hluti af heimilishaldi staðarins, því bavíanahópur var ávallt einhvers staðar á rjátli umhverfis þessi huggulegu híbýli.

Annars allt rólegt til kvöldverðar, hlaðborðs sem sór sig í ætt þess konar veitinga, hvorki gott né vont, en oftar en ekki má finna eitthvað vel ætilegt í slíku borðhaldi. Spjall og skemmtilegheit þar til lagst var fremur tímanlega undir teppin, enda fótaferð vel fyrir allar aldir næsta morgun til að vera komin á dýraslóðir í dagrenningu.

4.03.

Vaknað upp úr hálfsex og á slaginu 6 var hópurinn mættur við hliðið þar sem Dennis, leiðsögumaður dagsins, steig inn í bílinn í kolniðamyrkri. Var sá hæglætismaður vopnaður heljarinnar vélbyssu gamalli, sem virðist vera staðalbúnaður garðvarða hér. Eins og aðrir innfæddir sem lóðsað hafa gestina hér um bæi og sveitir, muldraði hann nokkuð staðlaða þulu um prógram dagsins í miklu hæglæti, hvorki skírmæltur né að honum lægi hátt rómur. En glöggur var hann að spotta dýrin og upplýsa hverju sinni hvaða skepnur væru þar á ferð. Í niðamyrkri morgunsins urðu fyrst fyrir hópnum antílópur af tegund sem heitir Jackson heartbeast, en í byrjun sást ekkert nema endurskin bílljósanna í augum dýranna. Þegar nær þeim var komið, sáust skepnurnar í ljósunum á veginum og við vegakantana á löngum vegaköflum. Þetta eru langleitar skepnur með nokkuð löng horn sem standa beint upp úr hausnum með smá bugðu á endunum. Stuttu síðar féllu ljósin á aðra tegund antílópna, kob sem er þjóðardýr Úganda. Andlitsfríð skepna, karldýrin hyrnd en kvendýrin kollótt og voru þessi dýr þarna í miklum breiðum. Smám saman skímar af degi og sést þá grilla í eitt minnsta dýrið af þessari tegund, oribi, rétt á stærð við lömb eða kiðlinga og var það þarna á beit innan um fyrrnefndar frænkur sínar.

Meðan ferðafólkið var upptekið af að berja alla þessa dýrð augum í morgunhúminu, bendir Dennis þeim allt í einu á ljón örskammt frá veginum, sem var að gæða sér á nýveiddri bráð. Eftir að hafa áð þarna um stund, hætti kisu að standa á sama um farartæki og mannskap og yfirgaf þetta veisluborð. Þar með héldu áhorfendur líka sína leið og urðu hjarðir buffala næst á vegi þeirra. Ekki hafði lengi verið ekið þegar sést til mikils atgangs, rétt áður en efri brún sólar skríður yfir sjóndeildarhringinn. Nú var orðið albjart og má sjá í atgangi dýranna ein fimm ljón og sex hýenur auk nokkurra sjakala og ránfugla slást um bráð sem ljónin höfðu fellt en þær óviðfelldnu hýenur náð undir sín yfirráð og sátu svo gott sem einar að krásunum, fyrir utan hvað sjakalarnir gátu stundum í framhjáhlaupi stolið smá bita og sama gilti um ránfuglana. Þarna undu áhorfendur sér hið besta í alllanga stund.

Vörtusvín bar næst fyrir augu, ótal fuglategundir og svo standa þeir allt í einu á veginum fyrir framan bílinn, gíraffarnir, falleg og hrikalega tignarleg dýr. Þegar komið er svo nálægt þessum skepnum í náttúrunni og horft upp eftir þeirra hávaxna skrokk, þá verður mannskepnan svo agnarsmá. Þarna er stór hópur þessara háfættu dýra, beggja vegna vegarins og á veginum og eru á röltinu yfir veginn, rétt framan við svo gott sem dáleidda farþega bílsins sem þarna stóð. Sjálfsagt er umferð hér nægileg til að skepnurnar hafi vanist henni, enda ekki að sjá að bíll og fólk yrðu til að styggja þær þótt ferðafólkið gæfi sér þarna góðan tíma. Síðan ekið áfram sem leið liggur um moldarstíga frumskógarins niður að Níl þar sem flóðhestarnir mörruðu að mestu í kafi, svo rétt sást í eyru og nasir. Enn var ekið af stað og urðu patasapar fljótlega á vegi vegfarenda. Var þetta heilmikill hópur með ungviði, hugsanlega mánaðargamla unga skv. Dennis leiðsögumanni. Stuttu síðar nokkrir mongoose, skepna svipuð minkum að stærð sem lifir á slöngum, ekki síst eiturslöngum. Má sjá mögnuð myndskeið á Youtube af veiðum þessara dýra og hildarleiki við eiturnöðrur. Skömmu áður en komið var í hús aftur til morgunverðar, lét hópur fíla svo lítið að verða á vegi ferðfólksins og fullkomna þannig þetta árdegi í náttúru sem pökkuð er af villidýrum. Það voru sælir gestir þessa staðar sem sátu yfir árbítnum og fóru yfir upplifanir morgunsins.

Rólegheit hjá fólkinu fram yfir hádegi, en að miðdegisverði loknum var farið í þriggja tíma bátsferð upp Níl að Murchison fossum. Á þeirri leið urðu fyrir breiður af flóðhestum, kródódílar lágu á bakka og mörruðu í kafi við árbakkana og rétt ofan árbakkanna voru waterbuck og fílar á beit. Fallegir fuglar eins og kingfisher og snakebird bar viðstöðulítið fyrir augu. Á leiðarenda var báturinn rétt neðan við fossana mögnuðu, þar sem áin steypist niður klettaþrengsli af óhemjulegum krafti með miklum boðaföllum, svipað og Hvítá í Barnafossi, nema í hundraðasta veldi.

Um kvöldið var boðið upp á grillmat og hlaðborð og þjóðlega tónlist með dansi undir borðum.

5.03.

Enn skrönglast liðið á lappir löngu fyrir sólarupprás til að ná annarri hringferð um dýraheima, nú með James garðverði, ekki síður vel vopnuðum en Dennis í gær. Á vegi gesta urðu að mestu leyti dýr sömu ættar og þau sem við blöstu daginn áður, en mestur spenningur er að sjá aftur og meira af stóru kisunum. Ekki brugðust þær vonir, því meira og minna falin í sefi á bakkanum við Níl er hópur ljóna og liggja ein þrjú á grasflötum framan við sefið. James segir gestgjafa okkar og bílstjóra ferðarinnar að aka af slóðanum og nær köttunum. Út um bílglugga og topplúgu er þessi konungur dýranna ljósmyndaður þar sem hann flatmagaði alveg slakur án þess að láta ferðfólkið trufla sig. Þarna skildi ekki stoppað lengi, því „eiginlega“ eiga bílarnir ekki að yfirgefa slóðana.

Haldið var áfram að fylgjast með þessum öflugu rándýrum af veginum, ekki síst vegna þess að hópur kob antílópna nálgaðist ána til brynningar. Sjá mátti kettina undirbúa sig til árásar og þegar veslings kjánaprikin fallegu voru komin inn í sefið var eitt dýrið hrakið í sjálfheldu við fljótið og lagðist það óðara til sunds, en kisa er ekki fyrir vatnið og fylgdi því antilópunni eftir á árbakkanum. Fór svo að skepnan í vatninu lét sig reka eða synti niður ána og hvarf bak við skóg, þannig að áhorfendur fengu ekki að vita endir þessarar sögu. Haldið var áfram og það sem eftir lifði þessarar skoðunarferðar var ekið fram hjá svipuðum dýrahjörðum og daginn áður. Heima á gististað var snæddur árbítur áður en haldið var til baka, á ferju yfir ána og síðan í næstu gistingu, Budgango Eco Lodge þar sem til stendur að fara í skógargöngu og heimsækja byggðir gamalla frænda, simpansanna. Á þessum ágæta stað er gist í húskofum sem standa með allnokkru millibili við krákustíga út frá matsölu staðarins, sem jafnframt er stjórnstöð þessa þjóðgarðs. Hér hreyfir maður sig ekki spönn frá rassi innan svæðis  nema í fylgd garðvarða og er það ekki gefins. Kvartettinn sammæltist um að taka smá rölt út frá kofunum, en til að það væri hægt varð að greiða lágmark 180,- US dollara fyrir fylgd varðar, sem ferðafólkinu fannst óþörf útgjöld fyrir lítils háttar kvöldröld. Í staðinn var tölt út á þjóðbrautina og tekið um klukkutíma rölt innan um bavíanana sem þar voru á skokki fram og aftur yfir veginn. Beint í fisk og franskar á matsölunni og svo í koju, enda spennandi dagur fyrir höndum.

6.03.

Að árbít loknum var kl. orðin 8 og umsjónarmaður þessa hóps mætti á svæðið. Hér fara menn sér hægt, tala hægt og eru frekar lágmæltir svo sem fyrr er frá greint og leiðbeiningar um skógargönguna samfara viðvörunum við hættum, ásamt frágangi formsatriða tók allt sinn tíma áður en arkað er af stað. Mjög fljótlega mátti sjá fyrstu simpansana hátt upp í tré, ekkert greinilega þó. Hins vegar heyrðust í þeim öskrin allt í kringum okkur. Eftir allnokkra göngu um mjóa skógarstíga og í gegnum skógarþykkni fram og aftur, varð hópur apa fyrir og var allt að gerast á þeim bæ. Fylgdarmaðurinn upplýsti að þarna væri hópur karlapa að berjast um hylli einnar dömu og gekk mikið á. Mikil öskur og atgangur og ruku dýrin upp og niður trén eftir ritúali sem gestir kunnu ekki skil á. Til að áreita ekki náttúruna umfram það sem hún er talin þola, mátti heimsókn hjá þessum frændum okkar ekki vara meira en eina klst, enda höfðu gestir þá fengið óskerta sýningu á þessu magnaða leikriti.

Að aflokinni þessari sérdeilis áhugaverðu heimsókn til ættingjanna í skóginum, var haldið heim til Kampala og heim kominn fór hópurinn, allir sem einn, í nudd áður en snætt var á matsölu í sömu verslunarmiðstöð og nuddstofan. Södd og sæl héldu þau síðan heim í koju eftir góðan dag.

7.03.

Í samræðum við staðarhaldara var meðal ótal umræðuefna farið yfir sögu skóla sem íslensk kona kom á koppinn af eldmóði miklum og eljusemi. Þar er stúlkum sem erfitt eiga uppdráttar kennd bæði grunnfög náms svo sem lestur, skrift og reikningur, en jafnframt verkmennt svo sem eldamennska, bakstur, hársnyrting og saumaskapur, svo eitthvað sé nefnt. Áhugi gesta varð til þess að farið var í skólann og hann skoðaður, en Íslendingar styðja vel við bakið á starfsemi hans. Allt var þarna einfalt, tiltölulega hreinlegt og það sem allt snýst um, stúlkur sem annars fengju enga menntun, fá þarna kennslu í undirstöðuverknámi og grunnnámi almennt, jafnvel fá þær þarna að læra á tölvur. Ánægjuleg heimsókn og gleðilegt að sjá hverju drifkraftur einnar mannsekju fær áorkað.

Í eftirmiðdaginn var tekinn annar hringur á Kampalavelli þar sem golfklúbbur Úganda ræður ríkjum. Kúnstugt þegar farið er á fyrsta teig, þarf að fara yfir umferðargötu mikla og hefur einn einkennisklæddur öryggisvörður vallarins þann starfa að vaða út á götuna með stóran rauðan fána á löngu priki til að stöva umferðina meðan golfleikarar ganga yfir ásamt kaddíum. Golfið gekk að vanda eins og í vinnunni hjá lyftuverðinum, svona upp og niður, en allir fóru kátir heim.

8.03.

Þennan síðasta dag gesta í Úganda var tvennt á dagsskrá, ferð út á simpansaeyju í Viktoríuvatni og síðan golfhringur á Entebbe golfvelli áður en þeim var komið út á flugvöll. Þannig er að Íslendingar eiga þarna bát sem notaður hefur verið til að komast í byggðarlög á eyjum sem þeir aðstoða. Farið var á þessum ágæta báti, Ísafold, um klukkustundar siglingu út í Ngamba eyju sem lögð hefur verið undir fóstrun munaðarlausra simpansa. Eru þarna nokkrir tugir dýra sem lifa í skógi eyjarinnar á því sem landið gefur en jafnframt eru þau fóðruð með grænmeti og ávöxtum daglega. Stílað er inn á að koma þarna með ferðamenn um það leyti sem dýrin eru fóðruð, því þá mæta þau öll til sameiginlegs hádegisverðar. Í framhaldi af gegningu apanna fengu ferðalangarnir sér líka snæðing, steikta tílapíu úr vatninu ásamt meðlæti.

Þegar komið var að landi var haldið beint á Entebbe golfvöll og spilaðar 9 holur. Kaddíarnir þarna eru aldir upp við völlinn, hafa spilað frá blautu barnsbeini og eru með allt niður í 5 í forgjöf. Af mikilli hógværð laumuðu þeir eftir þörfum smá ráðleggingum um sveifluna að vöskum spilurunum og voru sem annars staðar ævinlega til þjónustu reiðubúnir um flest sem að leiknum lýtur. Af golfvellinum var síðan haldið á flugvöllinn, en áð á ljómandi matsölu sem gestgjafar þekktu.

Þegar landið er kvatt, er enn farið framhjá ábúðarmiklum öryggispiltum með fíkniefnahund og öryggisgræjur við inngang flugstöðvarinnar og síðan hefðbundið ritúal, úr skónum, af með beltið, tölvur og símar úr töskunum og þeir sem fá mest fyrir peninginn eru teknir til hliðar í þukl og þreifingar og þetta allt eftir að hand- og augnskannaatriðið hefur verið samviskusamlega sett á svið á sama hátt og við komuna í landið, í þessu grátbroslega leikriti. Í flugið komst ferðafólkið að lokum.

Full af þakklæti til Stefáns og Guðrúnar fyrir einkar vel skipulagða heimsókn til þeirra framandi heimkynna, heldur ferðafólkið heim til að melta allt sem inn var tekið á þessari sérdeilis vel nýttu viku.