Reykjavík – Istanbul 2014

Upphaf þessarar sögu má rekja til þess að einn daginn vaknaði maður úti í bæ við það að hann þyrfti að fara í hnattferð á mótorhjólinu sínu. Hann hafði fyrir aðeins liðlega tveimur árum stigið í söðulinn fyrsta sinni og þó hann væri kannski ekki heltekinn af íþróttinni, greip hún huga hans og knúði til ævintýra. Hver afræður að fara einn síns liðs á farartæki sem hann hefur aðeins nýlega lært að stjórna og hemja? Hnattfarinn er einstaklega þægilegur í viðkynningu, geðprýðismaður með fullkomnunaráráttu á ofurstigi og eiturvilja, sem ekki er vanþörf á til að verksetja hugmynd með jafn ýktri áskorun. Til að ýta verkefninu úr vör valdist með í för tæknitröll og höfuðsnillingur sem oft er búinn að leysa vanda áður en hann verður mönnum ljós og ljúka verkefnum áður en nokkur hefur skilgreint þau, útvarpsvirki og formaður BMW safnaðarins á klakanum. Sjálfur fékk ég að fljóta með af því að það var laust pláss og þyki tiltölulega vandræðalaus. Tók upp á því að hripa niður atburði daganna, svona til að við getum síðar rifjað þá upp í réttri röð, standi hugur til þess.

Ferðbúnir við fararskjóta hringferðarinnar

Lagt var af stað í Sæviðarsundið um 12 leytið og þar tekinn brunch í garðinum hjá Ásdísi og Kristjáni í blíðskaparveðri. Um hálftvö er lagt í hann með viðkomu í RMC og síðan sem leið liggur upp að litlu kaffistofunni þar sem myndað var og filmað m.a. með þyrlu. Næst stoppað við tjónabíla umferðarstofu þarna skammt frá, þar sem mikil myndasession átti sér stað. Baldur sonur Kristjáns og Gunnar vinur hans voru í því verki. Hjólið mitt stóð í vegkantinum og vildi ekki svo ótrúlega til að allt í einu birtast bílar sem eru að mála kantlínur á veginn. Máttum við hlaupa til og færa hjólið.

Þarna stóð hjólið skyndilega í vegi fyrir bíl sem var að mála hvítu kantlínuna

Eftir myndatökurnar allar var ekið tíðindalaust á Selfoss og ákveðið að stoppa þar og kaupa sér vatn því hlýtt var í veðri og menn vel klæddir og höfðu sumir svitnað verulega í rólegheitum myndataknanna og voru því þyrstir mjög. Þar hittum við fyrir fjóra knáa unga menn sem einnig voru á leið í ferjuna á fákum sínum, allt F800 hjól nema eitt. Þeir slógust í för með okkur og komu örlitlu seinna en við á Hvolsvöll þar sem við hinkruðum eftir þeim. Síðan ekið sem leið liggur og ekki áð fyrr en í Vík þar sem einhverjir bættu á sig bensíni og þaðan á Klaustur þar sem aðrir bættu á sig eldsneyti.

Áfram á Skaftafell og er þar markverðast að sjá lengstu brú landsins standa svo gott sem á þurru. Sprænan sem undir hana rennur er ekki vatnsmeiri en svo að næstum mætti fara yfir hana þurrum fótum á gúmmískóm. Á þessari ferð blasti fegurð suðurlands við okkur eins og það gerist fallegast í sumarblíðunni, iðagræn fjöllin upp í efstu eggjar, rétt eins og þau væru lögð grænum flauelsdúk.

Eknir voru 344 km á Bimmanum þennan fyrsta dag. 26326 km á mæli hjólsins. Kristján kenndi mér að tjalda smátjaldinu, sem hann var svo almennilegur að selja mér við svo góðu verði, að hann hefur ekki gefið það upp enn sem komið er. Þegar ég síðan mjakaði mér inn í tjaldið svoldið eins og ormur að færa sig úr einum stað í annan, leið mér í fyrstu eins og ég væri staddur í minni hinstu vistarveru við ævilok. Þessi tilfinning rjátlaði þó af mér um leið og ég lokaði augunum. Verð að viðurkenna að fyrsta nóttin í tjaldi eftir nokkra áratugi var einhvern veginn þannig að næsta nótt hlýtur að verða betri. Áttaði mig ekki á þegar ég keypti lítinn svefnpoka sem fer vel í mótorhjólatösku, að þetta er eiginlega eins og púpuhylki utan um mann og þó mér væri afar hlýtt þegar ég lagði mig, þá vaknað ég upp um miðja nótt kaldur utan sem innan. Varð að klæðast peysunni sem þjónað hafði hlutverki kodda fram að því augnabliki og upprúlluð skálm af hjólabuxunum tók við sem koddi. Sofnaði aftur við hrotur ferðafélagans og hef eflaust bætt mínum hljóðum í þá næturhljómhviðu. Um hálfsjö var ég glaðvaknaður og enn frekar kalt. Vona að ég fái ekki kvef, það er alltaf svo skrambi hvimleitt. Fór á fætur og var búinn að taka saman og koma dótinu í hjólið áður en aðrir skreiddust á fætur. Sólin yljaði tjaldstæðið þaðan sem hún sendi geisla sína handan Öræfajökuls.

Jökullinn og hjólið

13.08.14

Morgunmatur í þjónustumiðstöðinni við tjaldstæðið í Skaftafelli. Frekar óspennandi, fransbrauðssamlokur, samt nýsmurðar og ágætis capuchino. Smá stopp og bensín í Freysnesi og næsta stopp hjá Knúti Bruun að Hofi.

Fyllt á hjólin í Freysnesi

Flott hús sem karlinn býr í þarna, í svipuðum stíl og sumarhús Guðmundar, nema ögn stærra. Hann bauð okkur svo upp á kaffi og meððí á hótelinu þar sem við litum á myndlistina og spjölluðum við staðarhaldara. Þaðan síðan ekið sem leið liggur á Höfn, með tilheyrandi myndastoppum.

Áð við lónið
Löng ferð fyrir höndum

Á Höfn snæddum við ljómandi salat með saltfiski í Kaupfélaginu. Ekki stór réttur en reglulega góður. Einhver misskilngur var hjá ferðafélugunum um fjarlægð til Seyðisfjarðar. Voru menn að rugla með einhverja 120 km frá Höfn en komust síðan að því að GPS tækið var stillt á loftlínu. Á leiðinni, sem reyndist nú allnokkru lengri, var að sjálfsögðu stoppað reglulega til myndatöku og stundum þurfti að aka til baka og koma svo flottir inn í cameru globetrottersins þar sem hann beið með tækin klár þegar við birtumst yfir hæðina. Kaffi á Djúpavogi. Hafði ekki áttað mig á að allnokkur spotti vegarins til Egilsstaða er malarvegur og yfir fjall að fara. Eins gott, því annars hefði ég bara haft þarflausar áhyggjur af þessum parti leiðarinnar. Piltarnir nutu sín á GS fákunum og slógu undir nára í bugðóttum brekkunum og hurfu í rykmekki líkt og Henry Fonda og félagar vestar á kúlunni fyrir fáeinum áratugum svo sem heimurinn kannast við. Sjálfur gerði ég mitt besta til að dragast ekki langt aftur úr á mínu þunga malbikshjóli. Sem endranær aldrei hraðar þó, en ég treysti mér til að valda hjólinu við slíkar aðstæður. Náðum á Seyðisfjörð rétt áður en veitingahúsið Aldan lokaði og snæddum þar alveg hreint frábærar lambarifjur, perfekt eldaðar, a point. Tjaldað í myrkri sem þó var ekki aldökkt, því skemmtilega kinký skilti með nafni bæjarins upp í miðjum fjallshlíðum varpaði bjarma yfir þann hluta bæjarins þar sem tjaldstæðinu er fyrir komið. Nennti ekki að blása upp vindsængina, en lagðist í alklæðnaði ofan á svefnpokann og sofnaði nær samstundis. Svaf betur þessa nótt en þá síðustu. Þennan dag ókum við 435 km.

14.08.

Nú rennur í garð ferðin yfir hafið sem ég var nú satt að segja nokkuð spenntur að upplifa. Eftir hlaðborðsárbít á Öldunni, þar sem Ásdís hans Kristjáns birtist óforvarendis, manni sínum til jafn mikillar undrunar og gleði og okkur hinum að sjálfsögðu til ánægju líka, var rúllað á kajann. Hefðbundin biðröð með spjalli, áður hjólin trilluðu inn í gímald ferjunnar og lítill Ítali frá Kaprí sem situr í bíl við hliðina á okkur byrjar að spjalla. Svo skemmtilega vill til að Kristján skartar húfu merktri Kaprí eyju og veðrast Ítalinn allur upp við að sjá þennan höfuðbúnað ættaðan frá sinni heimabyggð. Smá tíma tók að strappa hjólin niður og svo var að koma sér fyrir. Þar sem miðarnir voru keyptir rétt fyrir brottför, fékkst ekki annað en tveir saman í káetu á dekki 5 og eitt svefnpokapláss niðri á öðru dekki í 6 manna almenningi. Af tillitssemi við hnattfarann bauðst ég til að vera niðri, betra að hrella 5 ókunnuga með háværum hrotum en ferðafélagann. Dótið mitt tók ég þó strax með mér í lúxusherbergi félaganna í efri byggð. Þar kemur svo í ljós að sú góða káeta er í raun fjögurra manna, efri kojur hvoru megin sem menn höfðu ekki vitað af. Úr varð að mér var boðið rúm í þessum fínu húsakynnum með WC, sturtu og uppábúnu rúmi. Kristján af sinni alkunnu hógværð og þægilegheitum gerði lítið úr hugsanlegum truflunum af svefntengdri hávaðamengun undirritaðs, en radíómaðurinn stillir sína svefnklukku heldur á undan minni og er ævinlega tekin til við næturhljóðmyndanir áður en aðrir hafa náð að loka auga.

Fallegt var að sigla meðfram austfjörðum í blíðskaparveðri, njóta fjallasýnar frá hafi og fylgjast með múkkanum sleikja öldutoppana á svifi sínu yfir haffletinum. Á ferjunni slakar maður á og upp úr hádegi var kominn tími á Campari í orangejuice, en ég fékk mér 1 tvöfaldan Jack Daniels eins og ég á vanda til í mótorhjólaferðum.

Ræða slakir um íhöndfarandi ævintýri

Áfengisneyslan náði ekki lengra hjá okkur félögunum þann daginn, en hinir 4 knáu knapar sem fylgdu okkur hluta leiðar, tóku hins vegar stíft á því og áttu afar skemmtilegt kvöld svo ekki sé meira sagt. Dinner á skásta stað skipsins stóð knappt undir væntingum.

15.08.

Vaknaði ekki fyrr en um níuleytið en þá var staðartími orðin 10, sé hann yfirhöfuð til staðar úti á rúmsjó og útvarpsvirkinn búinn að vera 2 tíma á dekki. Við fengum okkur kaffi og vínarbrauð upp á dönsku enda að nálgast danskt andrúmsloft. Rólegt ramb um dekkið og radíóvirkinn kallar á mig aftur á skut þar sem sitja mátti undir vegg og horfa á kjölfar skipsins og býður mér sæti við hlið sér. Finn strax að tréstóllinn sem ég settist á er nokkuð lúinn og laus í sér allur. Áður en ég næ að standa upp og skipta um stól fellur þessi saman og hliðarskrúfa sem ætluð var til að halda setunni uppi, ragar út úr stólfótnum og rífur allnokkurt gat á betri buxurnar mínar.

Stóllinn lúni og skrúfan sem reif buxurnar mínar

Ég upp í infosentrið og óska eftir samtali við ábyrgan aðila varðandi tjón af völdum skipsins. Þar er mér sagt að koma eftir ca 1 tíma. Segist ekki hafa geð í mér til að arka um skipið með mjaðmarrifu í buxunum, jafnvel ekki í 1 klst, sé ekki þannig maður. Info drengurinn Simon byrjar að rugla um að óljóst sé hvort þetta muni falla undir tryggingar félagsins, en mér sé velkomið að kaupa mér nýjar buxur og ræða síðan málið þegar hærra settir starfsmenn félagsins megi var að því að sinna kúnnaþjónustu. Bendi Simoni á að þetta sé rangt svar, hvort hann sé ekki danskur og viti þá að farsæld Dana í viðskiptum byggi á þjónustu og aftur þjónustu, þeir passi ævinlega að dissa ekki viðskiptavininn. Sagði honum að ég teldi víst að hann væri á sömu línu og því væri sniðugast að hringja aftur í yfirmann og árétta beiðni viðskiptavinar um ásættanlega og skjóta afgreiðslu málsins. Aumingja Simon hringir aftur og koma nú þær upplýsingar að ofarsett starfskona sé væntanleg innan 5 mínútna og ég megi tylla mér á meðan. Tylli mér ekki en stend við afgreiðsluborðið ákveðinn í að hafast ekki að fyrr en að 10 mín liðnum. Áður en til þess kemur fær Simon ordrur um að senda mig í verslunina þar sem ungur drengur tekur á móti mér eins og ég væri hluti af betra fólkinu, vill allt fyrir mig gera og finnur handa mér fínar buxur og réttir mér double pakka af Björn Borg naríum í frekari sárabætur. Svona flott nærhöld hafa ekki fyrr verið í minni eigu. Verslunarmaðurinn ungi bætir því svo við að ég skuli endilega að láta sig vita ef hann gæti eitthvað frekar fyrir mig gert um borð í ferjunni. Stóllinn stendur ennþá brotinn í skutnum.

Sem við radíóvirkinn sitjum á dekkinu smáhlýnar og um fimmleytið erum við dottnir inn í skandinavíska sumarið. Kapríbúinn er mættur við borðið hjá okkur, góðlegur og skrafhreifinn flugvélaverkfræðingur sem núna vinnur í orkugeiranum. Segir frá sínu 9 ára 1200GS hjóli og ferðum á því og spyr tíðinda af okkar ferðaplönum. Langar að hitta hnattfarann sem er náttúrulega aðalnúmerið í þessari ferð. Það verður að ráðast hvort honum verður að ósk sinni. Borðum aftur á skárri staðnum um kvöldið, núna bara hamborgara sem litu afar vel út en stóðu knappt undir væntingum.

16.08.

Árbítur og tíðindalítil bið eftir að ferjan nái áfangastað og menn komist frá borði. Allt gengur það vel og við ökum til suðurs og afráðum að fá okkur smörrebröd í Álaborg. Gengur það eftir og sem við sitjum og hesthúsum matarmiklu og ljúffengu smurbrauðinu, dettur mér í hug að hringja í Billa, æskuvin minn frá Flagveltu sem nú býr í Sönderborg og beiðast gistingar.

Gist hjá Guðrúnu og Billa í Sönderborg

Því var ljúfmannlega tekið eins og vænta mátti frá ágætum dreng og lentum við þar í grillveislu og gleði með öli og víni. Þegar á kvöldið leið var mér var búið rúm í herbergi innan um búslóð barnanna sem flutt voru úr húsi, en ferðafélagarnir tjölduðu í garðinum undir plómutré sem svignaði undan þroskuðum og sætum ávöxtum. Eknir voru 383 km í dag.

17.08.

Lagt upp í rigningu frá Sönderborg áleiðis til Berlínar. Regnið var nógu massíft til að bleyta vel í mér, en eingöngu í klofinu. Gamli Harley gallinn virðist ennþá vera svona semi-vatnsheldur og BMW K1200 hjólið klýfur skýfallið ágætlega og hlífir manni við mesta vatnsmassanum, en einhvern veginn virðist eitthvað af vatni smjúga niður  á milli læranna á manni og þar eru buxurnar því miður veikastar fyrir. Þegar við áðum til hádegisverðar og ég afklæddist hjólabuxunum óttaðist ég að líta út eins og þvaglásinn hefði gefið sig og ég væri orðinn bleijuþurfandi gamalmenni, en svörtu gallabuxurnar földu bleytuna svo vel að enginn veitti því athygli að þarna gengi um maður sem virtist hafa pissað á sig. GS piltarnir eru að sjálfsögðu betur búnir undir vatnselginn og höfðu smeygt sér í solid pollagalla. Þeir stigu holdþurrir af sínum hjólum við veitingahúsinð Europa sem bauð upp á feiknagóðan og vel útilátinn mat við vægu verði. Þá hafði ekki aðeins stytt upp heldur fengum við jafnvel stöku sólarglennur. Hann hékk svo gott sem þurr það sem eftir lifði dags með hækkandi hita sem náði 21 gráðu þegar við renndum inn á tjaldstæði rétt utan við Berlín. Ekki er hægt að segja að það hafi verið neinn 5 stjörnu stíll á þessu tjaldstæði, en við nenntum ekki meiri akstri eftir tæpa 500 km. Tjölduðum aðeins stóra tjaldi Kristjáns á milli trjánna í þessu Laugavatnslega trailer park umhverfi. Þeir gestir þessara húsvagna- og skúrgarma frístundaheimila sem sóttu veitingahúsið/barinn voru ekki óáþekkir því fólki sem bregður fyrir í hliðsæðum vistarverum í kvikmyndum. Því miður tók ég ekki eftir því að eldhús veitingahússins lokaði kl 20:00, fékk mér drykk og hímdi eftir félögunum sem hlaðnir voru verkefnum. Þegar ég svo loksins ætlað að panta mat, var kl. orðin 10 mín. yfir lokunartíma eldhúss og ekkert þaðan af hafa. Barþjónninn, sem í raun var eini starfsmaðurinn sjáanlegur á svæðinu, bauðst þó til að stinga pakkapizzu með salami í ofninn fyrir okkur og fengum við okkur sín hverja og bjór með. Pizzan gerði ekki mikið fyrir okkur annað en fylla kviðinn, en bjórinn stóð fyrir sínu. Það sem truflaði okkur þó meir og mig sínu mest var einhvers konar míkrómý, ekki sjáanlegt en náði þó að setja tvo góða bólguþrotarbletti í andlitið á mér, bæði handarbökin sömuleiðis og stungur fékk ég líka í handarjarkana og handleggina. Þessum nýja ferðamáta fylgja löngu gleymdar upplifanir og er þetta allt náttúrulega hluti af hinni ánægjulegu heild. Eknir 472 km.

18.08.

Tjaldið heimsfarans, sem hafði verið næturskjól okkar allra þriggja, var tekið saman og ekið beina leið til Riller & Schnauck í Berlin til að sækja sortiment af íhlutum í hjól GS piltanna. Ísetning hlutanna tók nokkurn tíma og til að gera eitthvað á meðan keypti ég mér nýjan hjálm, enda minn orðinn 11 ára og allur að losna sundur. Hlífðarglerið/plastið á hjálmi ferðafrömuðarins hafði rispast illilega í upphafi ferðar. Þar sem minn gamli var sömu gerðar, með tiltölulega óskemmda hlíf, fékk hann hlífina þrifna og pússaða og fannst sem nýr hjálmur væri kominn á hausinn á sér þegar hann ók af stað með þessa ágætu uppfærslu höfuðfatsins. Stefnan var sett á Dresden sem undirritaðan hefur lengi langað til að skoða ögn betur en í snöggri framhjáferð fyrir áratug.

Dresten

Dresden var jöfnuð við jörðu í stríðslok með loftárásum sem urðu um 25þús manns að aldurtila á þremur dögum, alveg að nauðsynjalausu. Þó stríðið væri í raun unnið hjá bandamönnum var víst búið að skrifa út verkbeiðni á þetta verk og þar sem sigurvegarar stríðsins voru með 4000 tonn af sprengiefni á lausu sem ætlað hafði verið á þessa einstaklega fallegu en lítt hernaðarlega mikilvægu borg, þótti sjálfsagt að útrýma borginni og íbúum hennar frekar en láta það ógert. Nú hefur miðbærinn verið byggður upp aftur, öllu gömlu húsin í upprunalegri mynd.

Frúarkirkjan í Dresten endurbyggð, en hún var algerlega jöfnuð við jörðu í lok seinna stríðs

Við komum þangað í rigningu með köflum og taldi ég félagana á að hafa næturgistingu í móteli, Motel One og rölta aðeins um gamla bæinn og finna okkur huggulega matsölu og afréð að bjóða þeim upp á gistinguna, einkum vegna þess að heimsfarinn hafði fjárfest í nýjum svefnpoka og langaði í raun miklu frekar að sofa í sínu ferðahýsi og prófa pokann. Reyndar læðist að mér sá grunur að hann hafi haft pokann með sér upp á herbergi og sofið í honum en ég fékk hann þó ekki til að staðfesta þetta. Hins vegar var hann ekki ósáttari en svo að hann ákvað á þessum tímapunkti ferðarinnar að gefa mér tjaldið góða sem ég hafði meðferðis og ætlaði að kaupa af honum. Þar hljóp á snærið hjá mér. Á Paulaner veitingahúsinu snæddum við hver fyrir sig hálfa önd með meðlæti, víni og öli. Eftir ánægjulegt kvöldið sváfum við allir eins og næturverðir á tvöföldu kaupi. Eknir 236 km.

Drestenborg hefur öll verið endurbyggð eftir gereyðingu hennar í stríðslok

19.08.

Eftir góðan árbít á Motel One var stefnan sett á Prag. Landslagið skiptir fljótlega um svip þegar við rennum inn í undurfagra mynd Bæheimsfjalla, iðagrænna skógi vaxinna fjalla upp í efstu eggjar og á milli eru hæðir og ásar með grænum túnum og gulum ökrum. Í hlíðunum liggja svo falleg lítil þorp eins og þau hefðu verið máluð inn í landslagið af meisturum rómantíkurinnar. Að sitja sinn fák í svona landslagi er unaður einn. Fyrsta skiltið sem varð á vegi okkar Tékklandsmegin vísaði til Petrovice og bara við það eitt að sjá þetta nafn á skilti heyrði ég fyrir eyrum mér Gísla Halldórsson lesa Góða dátann Swejk og varð það enn til að auka á ánægju ferðarinnar. Einnig leitaði Queen hljómkviðan Bohemian Rhapsody á hugann á meðan maður rúllaði á milli þessara bæheimsku heiða. Tónverk sem braut allar reglur poptónlistar, fullt af klassískri músík og mörgum sinnum of langt til að ná vinsældum í popveröldinni, en náði þó þvílíkum hæðum í sölu og spilun að seint verður við jafnað, á aukið eða ofar komist í heimi dægurtónlistar. Og músíkin átti rætur sínar hér. Ókum í gegnum Prag með smá stoppi í ljósmyndaverslun þar sem aðalleikarinn í þessu leikriti okkar spurðist fyrir um ákveðinn hlut sem hann vanhagaði um. Því miður var umrædd vara ekki á boðstólum. Nú var ekið sem leið liggur suðaustur á bóginn og meðdegisverði gerð skil við geysifallegt torg í bænum Kolin. Torgið umgirt fallegum gömlum húsum og maturinn hreint alveg ágætur. Suðaustan við Prag er landslagið ekki eins stórlega fallegt eins og bæheimsku hæðirnar norðan við borgina, en á leið okkar um sveitirnar nutum við engu að síður huggulegs umhverfis í blíðskaparveðri, um 20-24 gráður. Tjaldað í Jihlava eftir 326 km akstur og þar tókum við líka dinnerinn, sem voru einhverskonar 1944 réttir upphitaðir.

Tjaldað í Jihlava í Tékklandi

20.08.

Ekið frá Jihlava með þeim ásetningi að fá sér kaffi við fyrsta besta tækifæri. Við heimsfarinn vorum búnir að vera með léttar yfirlýsingar um það að við notuðum ekki hótel til morgunverðarneyslu, heldur frekar bakarí og kaffihús. Með þetta í huga ók radíovirkinn í forystu hópsins fram hjá ótal nettum veitingahúsum, því honum sýndust þau öll tengjast hótelum. Nam þó staðar um síðir við bensínstöð sem bauð upp á kaffi. Til allrar lukku var hótel svo gott sem á sömu lóðinni og þessi bensínstöð, með þetta flotta morgunverðarhlaðborð á sama verði og maður greiðir fyrir kaffibollann einan sér í Brussel þar sem ég var hagvanur um skeið, sem sé 4 Evrur. Allt var þarna reglulega gott og gerðum við því góð skil. Bar það helst til tíðinda að á meðan við hesthúsuðum í okkur árbítinn, kom sendill í gegnum morgunverðarsalinn með heilt nýslátrað svín á öxlinni á leið inn í eldhúsið, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Við vorum sennilega þeir einu í salnum sem rákum upp stór augu.

Þarna fengum við einkar góðan árdegisverð

Áfram var haldið og ókum við enn um snotur landbúnarðarhéruð, framhjá maísökrum, vínviði, ávaxtatrjám og feikilega miklum sólblómaökrum þar sem blómin standa í óendanlegum breiðum ögn álút eins og lítil feimin börn.

Víðáttumiklir sólblómaakrar

Mikil breyting verður á öllu yfirbragði þegar við ökum yfir landamærin inn í Austurríki. Vegirnir snarbatna, öll ásýnd er miklu snyrtilegri hvort sem fyrir ber tún og akra eða hús og önnur mannvirki. Allt einhvern veginn svona í röð og reglu. Leiðin liggur fram hjá Vín, tökum ekki tíma í að heimsækja borgina sjálfa, en fyrir tilviljun römbum við á verslunarmiðstöð þar sem heimsfarinn fær tækið litla sem hann hefur sárlega vantað í tækjasafnið sitt á hjólinu. Hugmyndin var að fá sér smá hádegissnarl og sem fyrr vísaði Nesradíó veginn. Einhvern veginn æxlaðist svo að okkar maður fann stóran og mikinn Kínastað, Asia Express, nokkuð kinký en  með feikna góðu hádegisverðarhlaðborði fyrir innan við 10 evrur og gerðum við því góð skil.

Þarna lentum við í ljómandi hádegishlaðborði

Þaðan lá svo leiðin í áttina að Bratislava og var nálægt tjaldstæði sett í GPS tækið. Án þess að menn áttuðu sérstaklega á því fyrr en á áfangastað var komið, leiddi tækið okkur ekki bara inn í Slóvakíu heldur út úr henni aftur og inn í Ungverjaland, því þar var tjaldstæðið staðsett sem við töldum vera Slóvakíumegin landamæranna. Umhverfis tjaldstæðið standa nokkur smáhýsi og forvitnaðist ég um verð á hvoru um sig, tjaldstæðisgjaldi og gistigjaldi í húsi. Fyrir tjaldið kostar sem sé 5 evrur á mann en húsnæðið 8. Fengum 2 hús, eitt fyrir hrotudeildina og eitt fyrir heimsfarann, sem gjarnan er svona allnokkur þolandi í samsvefni okkar félaganna. Eknir voru 351 km.

21.08.

Heppnir að þiggja bungalóana, því um nóttina mígrigndi, en við í húsum með allt okkar þurrt þar inni. Það stóð reyndar nokkuð í GS piltunum að færa sig undir fast þak í stað þess að hafa tjöldin að næturskjóli, enda eru 3 evrur á mann allnokkur fjárhæð þegar saman safnast á langri ferð. Gæti líka verið að einkar snyrtilegt tjaldstæðið hafi heillað þá drengina og svo sú staðreynd að þetta er tjaldferð og leggja þeir mikla áherslu á að því konsepti verði ekki riðlað, tjöldun sé málið og undantekningar frá reglunni sem allra fæstar. 

Hrotudeildin lá enn í koju þegar heimsfarinn knúði dyra upp úr 7, svo gott sem ferðbúinn. Við höfðum eiginlega sammælst um það herbergisfélagarnir að vera ekkert að stressa okkur af stað í þessu regni, en það á ekki við radíóvirkjann að aðrir séu lengra komnir í hvunndagsferlinu, svo hann spratt framúr og svo gott sem ferðaklár á nokkrum andartökum. Þá fengum við okkur jogúrt og örsnarl og lögðum svo íann. Áfram í 18-22 stiga hita um akra og engi, lítið af fjöllum en við ökum nokkuð lengi á hraðbraut og svo um sveitavegi. Á leiðinni fengum við okkur morgunverð á McDonalds, eini „veitingastaðurinn“ sem varð á vegi okkar við hraðbrautina á þessari leið. Kom okkur nokkuð á óvart að þessa ágæta matasala er komin með Espressovél, ljómandi kaffi og fersk rúnstykki með bragðgóðu áleggi. Hef nú ekki verið sérstaklega hallur undir þá matargerð sem þessi staður er þekktastur fyrir, en þarna náði staðurinn okkur alveg. Síðan var slegið undir nára og hjólin lögðu ótt og títt undir sig hvern km á fætur öðrum.

Ókum víða um svæði með fallegri fjallasýn

Gúllassúpa í hádeginu og með einni kaffipásu náðum við að trilla inn eina 449 km og enduðum rétt innan við landamærin að Rúmeníu á móts við borgina Arad, þangað sem förinni er heitið í bítið á morgun. Enn lendum við Guðmundur í „bungalow“ en heimsfarinn tjaldaði af skyldurækni, þó prísinn væri svo gott sem jafn hár fyrir hvoru tveggja. Samtals 15 evrur fyrir okkur alla með fínni bað- og eldunaraðstöðu í húsi heimilisfólks, en tjaldstæðið er í bakgarðinum.

22.08.

Nú er morguninn loksins tekinn eins og lagt var upp með. Höfðum sem sé keypt allt til morgunverðar í kaupfélaginu og hann því tekinn á gististað, jógúrt, gott kaffi, juice, brauð, ostur og hreint alveg ljómandi góð kæfa frá Jóni Þór og félögum hans í Hama, Daumas, þrotabúi Landsbankans og öðrum ónefndum hluthöfum þess ágæta fyrirtækis.

Breytileg náttúran gleður augað á langri leið

Enn var ekið um sveitir að hinni fallegu borg Arad í Rúmeníu. Strax og komið var yfir landamærin frá Ungó til Rúmeníu fannst manni umhverfið verða heldur grárra og fyrstu mannvirkin sem við blöstu var gamall bóndabær, nokkuð verklegar byggingar en eins og klipptar beint úr miðöldum, svolítið grámuskulegt, eiginlega nokkuð fallega trist. Einnig ókum við framhjá heilmörgum stórbyggingum, nokkuð reisulegum að sjá úr fjarska, en þegar nær var komið blöstu við byggingar sem í vantaði allar rúður og allt einhvern veginn dapurlega niðurnítt, eins og hætt hefði verið við að byggja þessi hús í miðjum klíðum um leið og kommúnisminn lagði upp laupana. Þaðan sem við komum að borginni Arad er ekið um hverfi þar sem kommúnistablokkir mynda eins og gráa, drungalega virkisveggi beggja vegna vegarins og svo þegar nær dregur borgarmiðju taka við ótrúlega falleg hús fyrri tíðar í líkingu við þau sem augun gleðja í öðrum gömlum borgum Evrópu. Þó að hitinn hafi ekki verið nema um 16 gráður þegar við skriðum á lappir upp úr 6 í morgun, var hann fljótur að stíga 25 gráðurnar og náði mest 28 gráðum á hitamæli radíóvirkjans. Í svona ferð er stoppað reglulega til að strekkja úr skönkunum og í einu svona stoppi hittum við tyrkneska trailerbílstjóra sem eru með lítið eldhús í skáp utan á trailerunum og voru að fá sér hádegismat. Við hnattfarinn vorum svo imponeraðir af þessari aðstöðu að við fórum að taka myndir sem leiddi til að þess að okkur var öllum boðið í mat þarna við þessa hraðbrautaráningu. Girnilegar fylltar vefjur sem hitaðar voru í eins konar vöfflujárni. Fantagóðar og tyrknestk te í smá glerglösum með. Veisla við veginn.

Tyrkneskir gestgjafar okkar við hraðbrautina

Stoppuðum nokkru síðar í frekara snarl, rétturinn heitir „reykt bein með baunum“, ljómandi réttur með reyktum svínaskanka og hvítum baunum. Skiptum einum slíkum. Gott kaffi á eftir til að halda manni vakandi á hjólinu. Það er betra. Við enduðum í Avrig Sibiu, en Sibiu er önnur falleg borg sem við náum því miður ekki að skoða í þetta sinn, því á morgun liggur leiðin um einn af eftirsóttustu mótorhjólavegum á byggðu bóli, Transfagarasan. Gistum á móteli af því hann rigndi, erum greinilega svoldið upp á þægindin þó ásetningurinn sé að upplifa sjálfan sig sem hinn harða mótorhjólamann. Ókum 384 km í dag.

23.08.

Hótelið í Avrig Sibiu bauð upp á fínan morgunmat, ristað brauð með alls konar áleggi og fantafínan geitaost að auki. Svo lá leiðin upp á fjallveginn stórkostlega, Transfagarasan. Ekki er orðum aukið að þarna fá mótorhjólamenn og aðrir ökuþórar allt fyrir peninginn.

Í efsta þorpinu á leið upp fjallið voru fáeinar matsölur og matvörubúðir

Hátt í 100 km þar sem varla er beint spottakorn á veginum, samfelldar bugður og brekkur upp fjallið í rétt yfir 2.000 m hæð. Sama aftur niður að sunnanverðu.

Ekki margir beinir kaflar á leiðinni yfir Transfagarasan

Á leiðinni niður svona um miðja vegu, ákvað hnattfarinn að stoppa og snúa við upp fjallið aftur til að kvikmynda akstur í kröppum beygjum og bröttum brekkum. GS hjólin fóru með sínum knáu knöpum upp í þennan leiðangur en K-hjólið beið ásamt eiganda þar sem hinir sneru upp og naut veðurblíðunnar, enda hvorki nægilega flinkur í þess háttar tilþrif né með besta hjólið í slíkar æfingar. Fylgdist þess í stað með umferðinni, m.a. hópum af Porsche bílum sem framleiðandi lánar væntanlegum kaupendum gagngert til að prufuaka þeim þessa fjallvegi.

Bóndabær í fjöllunum

Þegar kapparnir komu aftur ofan var áð til að breyta staðsetningu myndavélar á hjóli hnattfarans sem tók drjúga stund og vel það, en því miður voru einhverjir hnökrar í festingum myndavélarinnar svo að eftir miklar tilfæringar fór hún aftur á sinn fyrri stað á hjólinu.

Eftirminnilegur fjallvegur

Eitt af því sem við tókum eftir í klæðnaði fólks bæði í Ungverjalandi og hér í Rúmeníu, kannski umfram allt karlmanna, er afar útbreidd notkun jogginggalla. Var þetta ekki einhvern tímann svoldið trendý heima?  Var ekki alveg hægt að láta sjá sig í flottum Adidas galla? En nú rímar þessi fatnaður víst ekki lengur við kröfur hátískunnar, alla vega heyrðist mér það á meðreiðarsveinum mínum sem vita nú sitthvað um tilhlýðilegan klæðaburð.

Þegar niður af fjallinu kom var planið að aka meira og minna viðstölulaust til Búkarest og taka hús á Jóni Val, verktaka, heildsala og ofursnillingi sem þar heldur hús og hefur mörg járn í sínum eldi. Ókum í gegnum ótal þorp, eða öllu heldur samfellda byggð þorpa og sýndist okkur nokkuð ljóst að laugardagurinn 23. ágúst er greinilega vinsæll til giftinga hér í landi. Við ókum framhjá hverju þorpinu á fætur öðru þar sem við okkur blöstu hópar prúðbúins fólks umhverfis brúðhjón í kjól og hvítt og einnig fram á bílalestir með skreyttum brúðarbílum og miklum flautugangi og gleði.

Hringfarinn að störfum í einu kaffistoppinu

Þar sem við ökum í þægilegum 22 stiga hita og eigum um 20 km eftir á áfangastað sjáum við dökkt ský framundan og ein tiltölulega saklaus elding stingur sér út úr þessu dökka skýi í fjarska. Örfáum mínútum síðar, rétt í þann mund sem ég velti fyrir mér hvort þessi staka tiltölulega daufa elding hafi verið missýn, þá leiftra þessi himinljós beggja vegna við okkur og lognið sem við ókum þægilega í gegnum breyttist á augabragði í heiftúðuga sviptivinda eins og þeir gerast öflugastir undir Hafnarfjalli. Varla er maður búinn að meðtaka þessa örsnöggu breytingu á akstursskilyrðum og minnka ferðahraðann niður undir hámarkshraða í Þingholtunum þegar hið óumflýjanlega gerist og himnarnir opnast með vatnsmeira skýfalli en menn höfðu upplifað áður. Fararbroddurinn stýrði okkur strax út af veginum og undir nálægt bensínstöðvarþak, sem veitti svo sem ekkert stórkostlegt skjól, en klauf þó regnið smávegis í rokinu. Þetta var einhvers konar trailerastöð og ekkert annað mannvirki en örlítill skúr sem ég skaut mér á bakvið hlémegin. Opnast þá ekki hurð á skúrnum og lítill góðlegur vaktmaður býður okkur skjól inni hjá sér. Ekki gátum við talað við manninn en við brostum og hann brosti og voru þetta hin þægilegustu samskipti, við skjólinu fegnir í þessu örrými og hnattfarinn fann meira að segja í þessu litla plássi hjá sér ferðaskrásetjarann og ljósmyndaði og filmaði bæði okkur og þennan einstaklega vinalega Rúmena. Öll veður styttir upp um síðir og svo var einnig hér. Eftir um hálftíma settumst við aftur á hjólin og héldum á leiðarenda. Varð fyrir því óhappi í miðri Búkarestborg að hjólið hjá mér skriplaði á blautum sporvagnsteinum og rann svo gott sem á hliðina og í einhverjum ómeðvituðum tilraunum til að ná valdi á hjólin flangsaði ég til beggja hliða sitt á hvað þar til hjólið lagðist á síðuna, án þess þó að ég hlammaðist illilega í götuna, var snöggur að koma undir mig fæti og varð ekki meint af.  Hnattfarinn spratt af sínu hjóli og kom mér til aðstoðar við að reisa upp hjólið ásamt vinsamlegum bílstjóra næsta bíls á eftir mér. Skömmu síðar vorum við komnir í flotta íbúð hins rúmenska Íslendings sem tók á móti okkur með kostum og kynjum. Veitti okkur vel í ljúffengu snarli og drykk og strax ákveðið að fá sér góðan kvöldverð á veitingahúsi sem húsráðandi hafði valið af kostgæfni. Skelltum okkur sjálfum í sturtu og fötunum okkar í vél og héldum síðan á Casa de David, alveg hreint frábæran stað. Pottþéttur matur og afar skrautlegt klíental. Þarna var okkar manni heilsað með virktum og stjanað við okkur í hvívetna. Eftir dinnerinn var litið á næturlíf miðbæjarins, nokkrar veitingahúsa- og bargötur stappfullar af fólki að skemmta sér og hávær rokktónlist hélt fólkinu í stuði. Þarna er líf um helgar, svo ekki sé meira sagt. Litum inn í elsta veitingahús borgarinnar sem hefur verið starfrækt samfellt frá 1879, Caru cu bere (bjórvagninn), ótrúlega fallegt jafnt utan sem innan. Þá byggðu menn veitingahús með íburði og stæl. Einnig litum við á fyrrum einkaheimili Vlads Tapes prins af Vallasíu sem nú er veitingahús, en sá góði maður er betur þekktur undir ættarnafni fjöldskyldunnar, Drăculești og var titill rits írska rithöfundarins Bram Stokers um þennan merka Rúmena. Skoðuðum fleiri forvitnilegar byggingar sem sumar eru ótrúlega fallegar. Skreiddumst undir lökin um 4 leytið algerlega búnir á því, hnattfarinn náði reyndar forskoti á sæluna og fékk sér kríu í leigubílnum á leiðinni heim úr bænum. Þetta var einn af þeim dögum sem þeir gerast tæpast betri í svona ferð. Eknir 304 km.

24.08.

Þetta var frídagur frá hljólunum. Eftir veglegan árbít í boði húsráðanda var haldið í skoðunarferð sem hófst á smá yfirliti yfir framkvæmdir verktakans kraftmikla á svæðinu. Síðan var með viðhöfn tekin fyrsta skóflustunga að miklu projekti sem næst verður á dagsskrá athafnamannsins þarna í Búkarest. Þar næst lá leið okkar um breiðasta breiðstræti heims, Uniri, sem liggur beint niður af stærstu höll heims og einræðisherran kommúnistiski eyddi 90% þjóðartekna árlega í fjölda ára til að byggja. Þegar menn hafa tapað sér algerlega í stórmennskubrjálæðinu, sem er klassísk birtingarmynd minnimáttarkendar, fara þeir meira að segja út í það að rífa heilu íbúðahverfin til að geta gert aðeins breiðara og flottara breiðstræti en Champs Elysees.

Draumaslot Rúmeníuforseta átti að slá öllum heimsins höllum við, minna mátti það ekki vera

Einu gildir þó vöruskortur sé í landinu og kornabörn svelti, jafnvel til ólífis. Tryllingurinn verður að hafa sinn gang. Að endingu snýst allt við eins og í frönsku byltingunni og þakklæti alþýðunnar fyrir höll og breiðstræti er ekki meiri en svo að þjóðhöfðingjanum volduga er stillt upp við vegg ásamt spúsu sinni og þrátt fyrir áköf mótmæli beggja fá þau að kenna á ísköldu blýinu. „Ok var þat hans bani“, eins og segir í fornum bókum. Litum við í kirkjugarðinum til að berja augum hvar þeim var huslað niður.

Grafreitur eins hataðasta þjóðhöfðingja Evrópu

Heimamaður leiddi okkur um torgið þar sem einræðisherrann ávarpaði þjóð sína hinsta sinnni út um glugga á stjórnarbyggingu og fékk aðeins baul alþýðunnar á móti, þótt lofað væri bæði launahækkunum og eftirlaunahækkunum. Þyrla bjargaði honum úr klóm eigin þjóðar af þaki byggingarinnar og náði hann flýja út á land þar sem hann var gripinn og honum veitt þau laun sem fólkið taldi hann verðskulda.

Í glugga þessarar byggingar hélt Ceausesco sína hinstu ræðu skömmu áður en hann mætti örlögum sínum

Mikil uppbygging hefur átt sér stað og á sér stað í borginni, mörg einstaklega falleg gömul hús hafa verið gerð upp og mikill fjöldi sem verið er að laga og enn fleiri sem er á dagskrá að koma í upphaflegt ástand. Afar skemmtilegur og áhugaverður göngudagur í borginni í þægilegri leiðsögn athafnamannsins orkumikla, sem græjaði ljúffengt kvöldsnarl handa okkur í dagslok. Ekinn 0 km.

25.08.

Fararbroddurinn lagði áherslu á að leggja upp með fyrra fallinu og húsráðandi vaknaði fyrstur og var kominn á fullt skrið í eldhúsinu áður menn voru almennilega búnir að hreinsa stýrurnar úr augunum. Yfirgáfum við þennan kraftmikla, stórskemmtilega gestgjafa okkar árla dags og héldum í átt til Búlgaríu, lands ísfreyjunnar íslensku með þrýstnu brjóstin og þokkaþrungnu varirnar sem fékk birtar af sér myndir í virtu búlgörsku tískublaði, léttklædd að hætti formóðurinnar, klassískt og sívinsælt. Enn ökum við framhjá sólblóma- og maísökrum, en víða er uppskeran afstaðin, akrarnir standa naktir eftir og jafnvel er búið að plægja fyrir næstu sáningu, enda hlýnar stöðugt og hitinn hér um 30 gráður bróðurpartinn úr deginum. Á vegi okkar verða 2 heljarmikil orkuver sem líkjast kjarnorkuverum eins og maður þekkir þau af myndum, en geta hæglega verið knúin annarri orku án þess að við kunnum á því skil. Einnig ber af og til fyrir augu gamlar verksmiðjubyggingar eða öllu heldur rústir slíkra sem standa þarna eins og drungalegar draugaborgir og setja dapurlegt yfirbragð á umhverfi sitt. Rústirnar af gömlu síldarvinnslunni á Djúpuvík, sem manni fannst nú nokkuð skuggalegar þegar maður sá þær fyrst, eru eiginlega bara krúttlegar í samanburði við þessi heljarinnar skrímsli. En síðan breytist landslagið og við taka skógi vaxin fjöll, ásar og hæðir og liggur vegurinn í miklum bugðum og aflíðandi brekkum í gegnum þetta skóglendi. Kjöraðstæður til að spretta úr spori fyrir þá sem hraðans njóta, enda verða fákar félaganna ótrúlega viljugir við slíkar kringumstæður.  Svo kem ég á gamla Grána lullandi langt á eftir. Fyrr en við vitum af erum við komnir að næstu landamærum, Tyrkland leggst nú undir hjólin. Heilan klukkutíma tók að komast yfir landamærin,  lengst af bið í steikjandi hitanum, kappklæddur í svörtum mótorhjólagallanum. Svitnaði vel á meðan maður virti fyrir sér moskuna, fyrstu byggingu sem blasti við framundan, 4 minarettur teygðust til himins út frá móðurskipi guðshússins. Alvaldur er greinilega fyrir turna því þeir virðast vera einkenni flestra siða, þar eru austurlönd með pagóður sínar, stúpur og himinhá hof, kristni sem rómverjar stofnuðu til á fjórðu öld, bæði í rétttrúnaði austursins og vadikönskum sið með afleiðum sínum öllum og setur turna á sín guðshús, oft marga og svo gerir yngsti fullrúi turnvæddra guðshúsa líka og er sínu háværastur með margendurteknum áköllum í yfirmáta lélegum hljóðkerfum sem höfuðskepna alheims er eflaust löngu orðin leið á, en eyru okkar munu búa við næstu daga. Áður en dagur var að kvöldi kominn náðum við um hálfa leið til Istanbúl og fengum næturgistingu á einföldu hóteli þar sem við máttum þræða okkur gegnum aur og eðju á moldargötum bæjarins eftir 506 km akstur.

Fyrsta gistihús okkar í Tyrklandi

26.08.

Nú var það tyrkneskur morgunverður og te í litlum glösum, alveg ágætt, svo langt sem það nær. Eitthvað átti að reyna að stytta sér leið í gegnum moldarleiðindin út úr bænum, en svo fór sem oft vill verða þegar slíkt er reynt án haldgóðrar þekkingar á aðstæðum, að í stað þess að stytta leiðina lengdum við hana í ófærunum og náðum nokkrum aukaakstri áður en fast land var aftur komið undir hjólin. Vel að merkja, höfðum skyggnst árangurslaust eftir hóteli eða tjaldstæði í öðrum bæ áður en við komum í þennan og lentum þar í síst minni torfærum en hér.

Varatankurinn kom sér vel

Fljótlega vorum við komnir út á hraðbraut, en hér er gjaldskylda á þeim stóru strætum. Þegar við ókum í gegnum mannlaus gjaldhliðin flautuðu á okkur sírenur og sáum við að svona háttalag gengi ekki upp. Fengum upplýsingar um að greiða mætti vegtollinn í banka og fá þar miða til að líma á hjólin sem halda myndu sírenum tollhliðanna hljóðum. Ókum því út af hraðbrautinni og inn í bæ nokkurn til að finna banka og varð fyrst á vegi okkar heljarinnar herstöð við bæjarmörkin. Leiðin lá í miðbæinn á fínum malbikuðum vegi og voru núna allar götur þægilegar yfirferðar. Eftir að hafa elt minni háttar villuljós um tíma fundum við póstbanka PTT og bárum þar upp erindi okkar. Þarna skildi enginn ensku en tókst okkur þó að koma starfsmanni í skilning um hvert erindi okkar væri. Nei slíkt var ekki fáanlegt í þessum banka, en við skyldum reyna í banka hinum megin við götuna. Þar var dreginn fram ungur maður sem kunni örfá orð í ensku. Hann upplýsti okkur um að hans banki væri ekki réttur vettvangur til að afla þess sem okkur vanhagaði um, heldur væri PTT með þessa þjónustu. Tókst mér að fá hann með yfir í banka keppinautarins og til að gera langa sögu stutta hafðist að greiða vegtollinn og fá nauðsynlega límmiða með hjálp þessa ágæta manns þó allt tæki það sinn tíma og rúmlega það. Fararbroddurinn, sá mikli radiomeistari notar til leiðsagnar í svona ferð ekki aðeins bestu tæki sem völ er á, heldur velur hann allrabestu yfirburðarleiðsagnartæki beint úr draumafabrikku BMW og dugar ekkert minna. Engu að síður getur það gerst að flækjustig gatnakerfis í svona miðlungs tyrkneskum smábæ reynist slíku ofurtæki ofviða og náðum við allnokkrum hringjum í bænum áður okkar maður sleppti tækjunum og fór á hyggjuvitinu sömu leið til baka og við höfðum komið í bæinn, að vísu langtímum saman gegn einstefnu. Vegfarendur sendu okkur bara syfjulegt afskiptaleysisaugnarráð og virtust ekki kippa sér upp við svona háttalag. Aftur upp á hraðbrautina og viðstöðulaust inn í 20 milljón manna kraðak hinnar fornu borgar við Sæviðarsund á milli Svartahafs og Eyjahafs. Hraðinn minnkað að vísu verulega þegar inn í Miklagarð var komið og fór um klst í 10 km spotta, en svo leystist þetta og öll ökutæki á meira hraða en undirritaður á að venjast á borgarstrætum, jafnvel þó hraðbrautir séu. Fór svo, að með örlitlum samskiptamisskilningi í þessum ofsaakstri tókst ökumanni miðhjólsins sem ekki var með GPS tæki uppi við, að týna samferðamönnunum eða kannski voru það öllu heldur þeir sem höfðu tapað manni. Velti fyrir mér hvort þeir væru orðnir leiðir á hægaganginum í okkur Grána og gátu hér notað kærkomið tækifæri til að hrista okkar af sér til að ná meiri hraða og skemmtun í ferðalagið. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu, þar sem við Gráni náðum lendingu við Sheraton hótel sem auðvelt var fyrir leiðsögutækin að spora uppi og fengu þeir símtal frá okkur um að koma og lóðsa okkur á áfangastað. Restin af deginum fór svo í fyrirfram ákveðið stúss hjá þeim BMW snillingum í Istanbul. Þeir bókuðu fyrir okkur ódýrt hótel þar rétt hjá og snæddum við kvöldverð á nálægri matsölu eftir smá gönguferð meðfram Bosborussundi. Eknir 232 km.

27.08.

Nú var liðið að síðari frídegi frá hjólunum. Dagurinn notaður í skoðunarferð um þá áhugaverðu borg Istanbul, höfuðborg í veldi Ottomanna í um 5 aldir. Keyptum okkur þjónustu leiðsögumannsins Murat sem fræddi okkur um sögu borgarinnar og Ottomanna.

Hringfarinn með Murat leiðsögumanni

Þræddi Murat áhugaverðustu staðina, Soffíukirkjuna, bláu moskuna, gömlu höllina, Sisterna vatnsgeymana miklu með sínu fjölmörgu súlum og að lokum Grand Bazar, þar sem hann skildi okkur eftir og útvarpsvirkinn reyndi árangurslaust að fá kaftan fyrir konu sína.

Hagia Sophia var upphaflega kirkja frá 537, síðan moska frá 1453 og Ataturk gerði bygginguna að safni 1935. Nú hefur Erdogan breytt húsinu aftur í mosku, flestu fólki til ama.
Mósaík með biblíumyndum í Hagia Sophia
Fornar ævintýralegar byggingar í Istanbul
Hinir fornu vatnsgeymar borgarinnar Basilica Cistern eru frá sjöttu öld. Nú svo gott sem vatnstæmdar til að ferðamenn geti skoðað þessa neðanjarðar vatnsþró.

Fyrir tilmæli tengdó héldum við síðan á hið gamalfræga hótel Pera Palace, þar sem gestir austurlandahraðlestarinnar gistu þegar endastöð þess fræga farskjóta var náð. Leikarar fyrri tíðar, rithöfundar, stjórnmálmenn og aðrir úr hópi betra fólksins nutu þjónustu þessa huggulega gistihúss, þar sem innviðir allir og húsmunir gleðja augað og skapa einhvers konar notalegheita stemningu við lágværa tónlist til vellíðunar gesta.

Með hringfaranum á barnum á Pera Palace

Fengum okkur smá drykk á barnum og síðan ábót, bara eina og ósköp netta, en verðið fyrir þetta smáræði var tvöfalt eða þrefalt hærra en við höfðum greitt fyrir nokkra máltíð alla ferðina til þessa, að drykkjum meðtöldum. Menn kunna það á svona stöðum að mjólka gesti út á forna frægð. Í framhaldinu röltum við um Pera hverfið þar sem veitingahús af öllum gerðum fylla þröng stræti og torg.

Glaðlegar ungar konur í einni moskunni

Afréðum að snæða kvöldverðinn þarna í hverfinu og fengum alveg hreint ljómandi mat sem var síðasta kvöldmáltíð okkar þriggja saman. Þó að allt fari eftir áætlun, fylgir því heilmikill tregi að skipta liði á svona fjarlægum stað og vorum við 2 sem saman ætlum í vestur þegar hnattfarinn fer í austur báðir með hugann við það hvernig okkur sjálfum liði að yfirgefa félagana einn síns liðs og halda á vit ævintýranna og óvissunnar. Ekki var laust við að maður fengi örlítinn kvíðahnút í magann við tilhugsunina eina saman. Eitt er víst að hugurinn myndi fylgja þessum vini okkar afar þétt næstu daga og vikur.

Í félagsskap tyrkneskra blómarósa

28.08.

Enn var það tyrkneskur morgunmatur og síðan beint í BMW að sækja hjólin, sem þar höfðu verið skilin eftir í geymslu. Nokkurn tíma tók fyrir hnattfarann að klára sín mál í þessari síðustu þjónustustöð hjólsins áður en haldið yrði út í óvissuna. Þá var komið við í verslunarmiðstöð til að ganga frá „aktiveringu“ á nýja símakorti hnattfarans sem hann hafði keypt í miðbænum daginn áður. Því miður kom í ljós að seljendur kortsins, lítil verslun sem merkt er tyrkneska ríkissímafyritækinu, höfðu aldrei skráð kortið, heldur bara hirt aurinn af okkar manni í trausti þess að hann kæmi ekki aftur. Nú mátti hann kaupa nýtt kort, en í þetta sinn virkaði allt áður en hann yfirgaf búðina. Svo var ekið frá þessari verslunarmiðstöð og við stoppuðum við umferðargötu þar sem hnattfarinn tók nokkrar myndir að skilnaði, knús og svo var komið að þeim nálaroddi augnabliksins að við renndum okkur út í umferðina, tregandi félagsskap okkar góða vinar og samferðamanns, en jafnframt fullir eftirvæntingar um ævintýri hans í fjarskanum og svolítið okkar eigin sem einhvern veginn virtust samt ekki harla merkileg samanborið við það sem aðalleikarans biði.

Hin massífa umferð borgarinnar varð okkur ekki til trafala, engar raðir eða önnur óþægindi, aðeins feiknarlegur fjöldi farartækja og mikill hraði. Akreinar ekki virtar og mátti búast við bíl við hliðina á sér í sömu akrein, sem er mjög óþægilegt á hjóli. Mikill vindur með sviftivindum var á leið okkar að landamærunum til Grikklands, þangað sem förinni var heitið. Við landamærin var óhugnaleg röð sem hentar illa þungklæddum mótorhjólaferðalöngum.

Þessi röð silaðist áfram á hraða skjaldbökunnar

Gekk fram að passaskoðun og spurði hvort mótorhjól hefðu forgang eins og tíðkast víðast hvar, en sá sem svaraði gaf ekkert út á það. Eftir hátt á annarar klukkustundar bið fór franskur ferðamaður að skipta sér af okkur og sagði að mótorhjól ættu undantekninalaust að aka fram fyrir allar biðraðir. Þannig væri heimsmenningin. Tók hann á orðinu og tróð mér fram með allri röðinni með samferðamanninn í kjölfarið þar til við komum að vegabréfseftirliti Tyrkja og var þar fremstur í röðinni vinalegur Tyrki með fjöldskyldu sinni sem hleypti okkur fram fyrir sig. Þá tók við önnur rosaleg biðröð sem við dvöldum í í nokkurn tíma þar til annar ferðamaður sagði okkur að fara fram fyrir sem við og gerðum allt þar til fyrir framan okkur stóðu rútur hlið við hlið og farþegarnir í þéttum hóp á milli þeirra. Fyrir áeggjan annarra ferðamanna í biðröðinni afréð ég að mjaka mér í gegnum kraðakið á milli langferðabíllanna og troða mér að næsta hliði. Þegar fram hjá því var komið stóðu ungir menn í herklæðnaði og bentu okkur á að halda áfram, fram hjá öllum röðum, sem við þáðum með þökkum og náðum í gegnum passaskoðun Grikkja skömmu síðar. Þrátt fyrir að fara fram fyrir allar biðraðir vorum við hátt á þriðja tíma í þessu landamærastússi. Öfunda ekki allt hitt ferðafólkið sem þurfti að taka út fullan skammt af biðinni og mátti dúsa þarna lungann úr sólarhringnum.

Eftir nokkurn akstur fundum við einstaklega snyrtilegt tjaldstæði í Alexandroupolis við strönd Eyjahafs, rekið af bænum, með smá þjónustuverslun og hreint ágætum veitingastað.

Eknir 319 km

29.08.

Um 7 var byrjað að pakka tjöldunum og þar sem ekkert var enn opið á þessum sumarleyfisstað fórum við í nálægt bakarí og fengum okkur kaffi og bakkelsi sem var eins og smákrósöntur með fyllingu, beikonmauk í einni og kjúklingamauk í annarri, alveg hreint ótrúlega gott. Engin veitingaaðstaða var í þessu bakaríi, svo við settumst bara á tröppurnar framan við það og neyttum veitinganna í skugganum sem húsið veitti okkur.

Snæddum góðmeti úr bakaríinu í blíðviðrinu á tröppum búðarinnar

Stefnan var sett á Þessaloniki, þangað sem Sál frá Tarsus sendi frumkristnum söfnuði bréf eftir að hann gerðist umskiptingur og hóf nýtt líf sem Páll postuli, reyndar sá þrettándi í þeim hópi og sendi hann jafnvel tvö bréf frekar en eitt og enduðu þau í hinni góðu bók, sem heilagt orð himnaföðurins.

Nú var ekið meðfram strönd eyjahafs um falleg, hæðótt landbúnaðarhéruð, við blöstu ávaxtatré, matjurtaakrar og ólífutré með töfrandi silfurslikju á grænu laufinu. Vegurinn lá upp í hæðirnar og sást yfir fallegt lítið þorp, öll hús hvít með brúnrauðum þökum og í miðju þorpinu skagaði mínaretta upp úr húsaþyrpingunni. Ekki var annað að sjá en að moskan sú væri í engu  frábrugðin öðrum húsum í þorpinu að mínarettunni undanskilinni og fór vel þarna í bænum. Bara svona til umhugsunar. Fyrstu tímana var hitinn um 22 gráður en um hádegisleytið var hann kominn yfir 30. Bensíntankarnir voru að tæmast og leiðsögutækið góða sem fyrr var frá greint, leiddi okkur að bensínstöð sem löngu var aflögð en þar rekur fullorðin þrifleg kona matsölu og saddi hungur okkar með grískum sveitamat.

Fátt er grískara en grískt salat

Bensínið var sem betur fer ekki langt undan. Við strikuðum áfram í átt að Albaníu sem okkur fýsir báða að berja augum. Sú leið liggur upp í fjöllin þar sem við manni blasir mikil náttúrfegurð, hæðir þar sem akrar teigja sig upp á toppana og ólívu- og ávaxtaré á stangli um þessa akra eða í misstórum breiðum inn á milli. Allt í einu ökum við fram hjá endlausum röðum af pelsabúðum, svo virðist sem hér sé einhvers konar miðstöð pelsagerðar í Grikklandi. Enduðum á hótel Tsamis í útjaðri bæjarins Kastouris í yfir 600 m hæð eftir 525 km dag. Svo merkilegt sem það er, leggur foringinn ávallt upp að morgni með þeim ásetningi að vera kominn í næturstað upp úr 5 og aka svona um 400 km max á dag, en einhvern veginn nær hann sjaldnast að stoppa sinn viljuga fák fyrr en um tveim tímum eftir ráðgerða lendingu. Frá hótelinu eru um 4 km í miðbæ Kastouris og tókum við leigubíl þangað til að geta fengið okkur fordrykk og bjór með matnum á ljómandi veitingastað sem elskuleg stúlkan í gestamóttökunni á hótelinu okkar mælti með.  

30.08.

Ágætur árbítur á hótelinu og síðan í átt til Albaníu, landsins sem Enver Hoxha hélt lokuðu áratugum saman, betur en nokkur stjórnvöld nokkurs annars lands í álfunni. Landamærin voru ekki vandamál hér, þar gekk allt fljótt og vel, enda lítil umferð um þessa stöð árla á laugardagsmorgni.

Einhvers konar þjóðvegaaltari

Skemmtileg gömul aflögð landamærastöð milli Grikklands og Albaníu

Vinalegir landamæraverðir stimpluðu albönskum stimpli í passana okkar og þar með vorum við komnir inn í þetta fyrrum mjög svo lokaða land. Notalegur akstur í 20 gráðu hita enda vorum við þarna í 950 m hæð yfir sjó. Huggulegar sveitir, fjöll í fjarska, endalausir akrar með ávaxtatrjám, einkum eplum og plómum eftir því sem ég best fékk séð í framhjáakstrinum. Hér er hestvagninn enn í fullu gildi og jafnvel asnakerran líka og gamlir litlir traktorar, svona eins og gamli Ferguson og jafnvel minni virðast vera helsta tæknibyltingin hér um slóðir.

Heimasmíðað skjól fyrir sólu
Við sáum menn fylla fyrir svona 2 til 3 evrur á trakorana sína, Meiri var kaupgetan ekki.

Þessi vinnutæki sáum við líka í Rúmeníu og Búlgaríu, en ekki nærri svona mikið af þeim. Hér standa fjárhirðar við hjarðir sínar, bæði geitur og sauðfé og bændur standa við veginn og selja afurðir búa sinna, beint frá býli, eins og nú er mest í móð hjá þróaðri samfélögum.

Hestburður af heyi, eða kannski var þetta meira að segja bara asni
FJárhirðir að gæta hjarðarinnar

Stöðvuðum hjólin hjá eldri hjónum, aðallega til að taka af þeim myndir, en keyptum líka plómur fyrir 1 evru. Bóndinn mokaði plómum í poka, ætlaði bara ekki að hætta þó okkur þætti mikið meira en nóg komið fyrir þessa einu evru og þegar við stöðvuðum plómumoksturinn hrúgaði hann eplum ofan á plómurnar og áttum við þarna næga ávexti til bæði sultugerðar og í eftirrétti og bakstur hefðum við bara haft tök á slíkri matargerð, fyrir utan það sem við torguðum á staðnum.

Albanski bóndinn óg kona hans í sölustandi sínum við veginn

Leiðin lá niður úr fjöllunum og þá snarhitnaði og vorum við aftur komnir í 35 gráðurnar. Fyrst í stað ókum við á flottri hraðbraut, þar sem umferðin var nú ekki meiri en svo að maður mætti manni á reiðhjóli á innri akreinni á leið gegn umferðinni. Við erum hér greinilega á múslímsku eða hálfmúslímsku svæði, því smámoskur með svona einni nettri mínarettu skreyta þorpin sem við ökum hjá. Fórum fram hjá bæ þar sem neongræn moska stóð nærri veginum og nokkur fjögurra til fimmhæða fjölbýlishús blöstu við í einstaklega fjölbreyttum litum, ein blokkin í neongrænu, önnur í fjólubláu, þriðja í einhvers konar ferskju/orange og við bæjarmörkin stóðu rústir af gamalli kommúnistaverksmiðju með turnum og gapandi tóftum þar sem gluggar og hurðir voru áður. Allt ein allsherjar ljósmyndunarorgía hefðum við verið á þeim buxunum, en mótorhjólatöffarar láta slíka smámuni ekki tefja sig frá akstursgleðinni, því þjóðvegaánægjan verður að hafa sinn gang. Og vegurinn leiðir okkur áfram eftir formúlu leiðsögutækisins og við okkur blasir fjallvegur með mjórri götu og ójafnri þegar úrhellisrigning stöðvar för okkar til að klæðast regnverjum. Svo massíft var regnið að ég leitaði skjóls undir tjaldþaki á bar hjá innfæddum rétt þar sem við stöðvuðum og samdi við foringjann um aksturshlé á meðan mesta úrkoman gengi yfir. Sem við stöndum þarna lítur hann á vegskiltin og í stað þess að taka þennan háskalega fjallveg til Tirana, velur fararbroddurinn hraðbrautina sem liggur gegnum mjög módern göng, alveg nýgerð. Þarna bjargaði regnið mér frá því að skrönglast enn einn megabugðóttann fjallveginn sem GS piltarnir vita ekkert skemmtilegra en að aka, en er mér oft á mörkum þess að ráða við nema í slíkum hægagandi að ég vorkenni samferðamönnunum. Hugsaði ég vini mínum þegjandi þörfina að ætla með mig í gegnum þrengslin þegar breiði vegurinn var í boði, en fékk svo að vita að þægindin eru nýlögð og göngin sem þessi hraðbraut leiddi okkur í gegnum ekki til í GPSinum. Brunuðum eftir þessum vegi alveg inn í Tíranaborg og skyndilega var hraðbrautin „búmm“ allt í einu á enda, en breyttist í mjóstræti með snarpri beigju við enda brautarinnar og við tóku bugðóttar ófærur inn á bæjarstrætin. Afréðum að gista ekki í höfuðborginni heldur rétt utan við og lentum á þessu frábæra „resorti“ með sundlaug, gufu og flottum veitingastað. Elskuleg afgreiðsla og herlegheitin á 44 evrur með morgunverðarhlaðborði. Eftir sundsprett og slökun í forsælu á laugarbarminum snæddum við í matsölu staðarins. Mér hefur verið sagt af fólki sem þar á kann skil að betra fólkið borði stróganoff á meðan alþýðan láti sér gúllas nægja og af því að við tilheyrum ekki betra fólkinu sem fer ekki neðar í matarsnobbinu en í stróganof, þá pöntuðum við gúllas og fengum eitthvert það albesta gúllas sem við höfðum nokkurn tíma smakkað og höfum við þó bragðað margt ljúfmetið á þeim kúlinaríska væng. Ókum 272 km þennan dag.

31.08.

Þegar lagt var upp í þennan leiðangur ræddi radíóvirkinn um að fylgja hnattfaranum til Istanbúl, þar héldi hann áfram og við myndum skilja hjólin okkar eftir hjá góðu fólki þarna í Tyrklandi og fljúga heim og fara síðan næsta vor og aka norður Evrópu vestanverða. Á leiðinni suður um álfuna verð ég einhvern veginn var við að hjólið radíóvirkjans þurfi að vera heima að för lokinni, því eftirvæntinarfullur kaupandi hjólsins bíði eftir þessum einstaka farkosti. Það er út af fyrir sig ekki í anda okkar manns að ganga frá hálfloknu verki og því kom kannski ekki svo mjög á óvart að þetta verkefni yrði ekki skilið eftir hálfklárað, heldur yrði hringnum lokað í einum rykk. Heimfarardagur var með öllu óákveðinn, það vissi ég, en frekari upplýsingar hafði ég ekki í upphafi ferðar og var það að öllu leyti í anda ferðalagsins alls, því akstursleiðir voru að mestu lagðar niður frá degi til dags og dagleiðir sömuleiðis svolítið eftir því sem verkast vildi. Þegar okkar maður fer að opna á umræðuna um akstur heim á leið, heyri ég að mikill áhugi sé á að fara m.a. um Albaníu. Hafði hann lesið alls konar ferðablogg og var að einhverju leyti örlítið ragur við að fara þar um, vegir væru slæmir, að hluta til þröngir og malbikið holótt og hált, oft stagbætt með illum köntum og öðrum leiðindum. Jafnframt er heilmikið ritað um glæpahneigð meðal þjóðarinnar og almennan skúrkshátt, ekki síst í tengslum við vélknúin farartæki. Eftir heilmiklar samræður um hættuna af því að fara þarna um, var afráðið að láta slag standa. Sem fyrr er greint frá var þarna ekkert nema þægilegheit og allir sem við höfðum með að gera alveg einstaklega elskulegir. Fararbroddurinn var nú á því samt að lenda ekki í neinum vandræðum í þessu ágæta landi og ók á venju fremur löglegum hraða. Saman höfum við ekið þúsundir kílómetra í tveimur heimsálfum og oft höfum við ekið saman á löglegum hraða, en aldrei sem nú. Hef ég ekki fyrr upplifað slíkar öfgar í löglegum hraða og kannski eins gott, því frá innakstri okkar í landið og þar til við rúlluðum yfir landamærin til Montenegró, voru laganna verðir á þriðja hverju götuhorni í umferðareftirliti og er ég frekar að vantelja en ýkja. Reyndar er umferðin frekar aggressíf þarna, sé maður ekki á miðri akrein á hjólinu, er allt í einu kominn bíll við hliðina á manni á akreininni, eins skemmtilegt og það nú er. Því tók ég miklu síður eftir umhverfinu en samferðarmaðurinn og þegar við ökum gegnum Tiranaborg sér hann mikið slömmhverfi austan við veginn sem við ökum og leist ekki á blikuna, þetta passaði við ógnirnar sem hann hafði lesið um á blogginu og sá hann á þessum stað jafnframt fjölda léttklæddra kvenna sem hann taldi víst að væru vakthafandi þjónustupíkur. Þessu missti ég öllu af sökum þess hve ég þarf alltaf að einbeita mér að akstrinum og umferðinni, en foringinn sló undir nára til að komast hratt og örugglega sem lengst frá þessum ósóma.

Í dag ókum við enn nokkurn spöl þar til við duttum inn í Montenegro, þar sem búa um 700þús manns. Á litlu kaffihúsi á landsbyggðinni hittum við Kenny, innfæddan náunga sem talaði prýðisgóða ensku, enda býr hann nú í NY í stóru montenegrósku samfélagi. Kemur hingað á sumrin til að njóta hins fallega umhverfis, sem gleður augað hvert sem litið er, hver fjallakeðjan upp af annarri og þar á milli dalir fullir af aldintrjám og öðrum matjurtum, lítil þorp með hvítum húsum og fallegir bænaturnar moskanna standa upp úr húsaþyrpingunum og stundum kirkjuturnar líka. Kenny vildi meina að mikil spilling sé í landinu, eins og í öllum Balkanlöndunum sagði hann og því sé hann sáttari við að búa vestan hafs þó helst vildi hann vera hér í þessari náttúrufegurð hjá sínu fólki.

Kenny býr í BNA en kemur á sumrin heim til Montenegro, hér með vini sínum

Enn ökum við um einstaklega bugðótta fjallvegi og þó við förum hægt yfir hverfum við út úr þessu litla landi innan stundar og heilsum Króatíu. Náttúrufegurðin þar er vel þekkt og þarf ekki að orðlengja neitt um hana. Vegirnir batna hins vegar verulega, því í Montenegro voru sömu andstyggilegu holurnar í malbikinu eins og í Albaníu, kannski ekki eins tíðar, en nú eru vegirnir góðir og bugðurnar langar og aflíðandi, miklu þægilegri til aksturs.

Ströndin í Króatíu

Stoppun í litlu þorpi nokkru norðan við Dubrovnic og gistum í heimagistingu hjá fullorðnum manni sem er svo hás að tæpast eymir nokkuð eftir af máli hans. Eftir sundsprett í Adríahafinu snæddum við kvöldverð á nálægu veitingahúsi og röltum svo heim í koju, þar sem annar tók strax til við hrotur meðan hinn slær inn orðin sem þú ert að lesa núna. Eknir 288 km.

1.09.

Í mótorhjólagalla í 30-35 stiga hita svitnar maður án afláts. Áð er reglulega til að bæta á sig vatni og virðist það streyma út um húðina jafnóðum, beint í fatnaðinn. Þetta útheimtir að sjálfsögðu hrein nærföt og bol á hverjum degi. Svo þegar búið er að nota síðasta bolinn í nokkra daga, fara í hann svitastorkinn og skítugan að morgni, er kominn tími á þvott, sé hægt að treysta á gott veður um nóttina til að þurkka plaggið. Þannig var það á hótelinu góða í Kastouris fyrir þremur dögum, við vatnið í Grikklandi að þá var kominn tími á þrif. Sápa var engin við hendina önnur en sjampó og var það notað, bolurinn síðan undinn eins vel og unnt er og að því loknu hengdur á herðatré út á svalir. Útvarpsvirkinn fylgdist með þessum aðförum og sýndist þetta ekki flóknara ferli en svo að hann kóperaði atferlið og skolaði úr sínum bol og áttaði sig á því að þetta var jafnvel enn minna verk en að skipta um útvarp í bíl og réðst strax í að skola úr öðrum til. Tilkynnti mér síðan að þetta væri í fyrsta sinn á ævinni sem hann fengist við fataþvotta. Ekki bara bolurinn heldur einnig gallabuxurnar eru gegndrepa af svita í dagslok í svona akstri. Mínar voru þvegnar síðast í Búkarest og því orðnar svo súrar að þær ollu sjálfum mér orðið léttri vanlíðan. Tók mig því til í gærkvöldi og þvoði buxurnar í baðkarinu með bolnum. Nú var ekkert sjampó til staðar, en við vorum í heimagistingu og því var þarna stór brúsi af uppþvottalegi sem dugði vel í þessi þrif. Herbergið okkar hafði dyr beint út í garð þar sem ég hengdi plöggin á snúru, og vonaðist eftir smá gjólu um nóttina til að buxurnar myndu þorna. Vaknaði svo um hálfsexleytið við hvassiviðri sem feykt hafði bol og sundskýlum okkar af snúrunni en buxurnar hart nær þornaðar. Svona rok virðist ávallt vita á sama framhaldið, þrumur, eldingar og steypiregn. Náði buxunum inn áður en óveðrið skall á og svo fengum við okkur árbít í rólegheitum því við höfðum keypt inn til morgunverðar, verandi með ísskáp og hraðsuðuketil, meira að segja eldavél líka.

Héldum nú áfram að aka meðfram hafinu um afar bugðótta vegi utan í hlíðum hæðanna upp af ströndinni. Afar fallegt landslag og krefjandi akstur fyrir mig þó Gráni léti svo sem vel að stjórn, endalaust fyrir nes og inn í víkur, upp og niður hæðir, skógi vaxnar með örlitlum einstaklega fallegum þorpum svo minnir á fimm þorpa ströndina í Ligúríu á Ítalíu.

Vegurinn lá ofarlega í hlíðunum upp af ofurfallegri strandlengjunni í Króatíu

Í námunda við Split voru ávaxtasalarnir við veginn með óvenju fallega standa, ávöxtum og grænmeti listilega raðað og úrval af sultukrukkum, safaflöskum og hunangi, beint frá bónda. Höfðum því miður engin tök á því að taka neitt slíkt með okkur. Í dag ókum við í gegnum enn ein landamærin, inn í Bosníu-Herzegovínu sem á reyndar ekki mjög langa strandlengju, þannig að við vorum fyrr en varði komin út úr landinu aftur og inn í Króatíu á ný þar norðan við.

Sjarmerandi smáþorp í hliðum fjallanna í Króatíu

Eftir um 90 km akstur á mjóu, bugðóttu fjallavegunum lá leiðin inn á hraðbraut, alveg nýja með nokkrum flottum og óvenju vel upplýstum göngum sem stytti dagleið okkar um eina 100 km. Afréðum að fá okkur miðdegissnarl á þjónustustöð við hraðbrautina svona um 1 leytið og gekk það upp, að rétt um eitt varð á vegi okkar stöð sem bauð upp á léttan hádegisverð. Við erum varla sestir undir skyggni utan við stöðina þegar hann byrjar að rigna svo við flýjum inn í skjól og síðan brestur hann á með heiftarlegu hvassviðri, úrhelli, þrumum og eldingum, rétt eins og í morgun. Heppnir að vera akkúrat komnir í var og fylgdumst með bensínafgreiðslunni lokað vegna rafmagnsvandræða og sjoppunni líka. Vorum þá sjálfir búnir að fá afgreitt það sem okkur langaði í á þessum stað.

Hnattfarinn er haldinn sama lapsus og undirritaður, leggi hann hluti frá sér þar sem hann áir, hættir honum mjög til að gleyma þeim. Þannig getur orðið eftir húfa, sólgleraugu, myndavél, sími og annað smálegt. Til að koma í veg fyrir að tína hlutum og tapa með þessum hætti hefur hann vanið sig á að líta til baka þegar staður er yfirgefinn og hafa yfir upphátt setninguna: „Er ekki allt með?“. Hann lagði að okkur að minna sig á þetta og taka þátt í þessu með sér, sem veitir svo sem ekki af, allavega hvað mig varðar. Nú erum við félagarnir komnir með þetta og kyrjum þessa möntru í hvert sinn sem við stöndum upp frá borðum og sendum honum hugskeyti þangað sem hann er einn á reki á leið austur fyrir sól: Er ekki allt með?

Slagveðrið brostið á

Ekki tókst að bíða af sér veðrið þessu sinni, því spáin er bara rigning og meiri rigning. Vatnsverjurnar voru dregnar yfir gallana og svo ekið út í suddann eftir hraðbrautinni . Þetta var ekki svo slæmt framan af, en svo fór að hvessa. Sérstaklega hrikti í hjólunum þegar við ókum yfir stóru brýrnar sem þvera víkur og dali, því þær standa gjarnan í allt að 100 m hæð og hvorki skógur né landslag sem skýlir fyrir storminum. Svo seiglumst við á brautinni hærra og hærra upp í fjöllin og hvassviðrið tekur stífar í hjólin, en það er ekki um neitt annað að ræða en halda áfram. Stoppum á bensínstöð og fáum okkur kaffi og hittum innfæddan mótorhjólamann frá Dubrovnic á 1200 GSA hjóli. Hann tjáir okkur að jafnvel standi til að loka veginum. Ákveðum að halda áfram svo lengi sem vegurinn er opinn. Verðum oft að draga verulegu úr hraðanum vegna sviptivinda. Svo gerist eins og hendi sé veifað, í fjallaskarði í tæplega 800 m hæð, að ég sé heiftarlegan sviftivind grípa hjól útvarpsvirkjans og sveigja honum út af veginum í kantinn hægra megin, sem reyndar var mjög breiður. Fékk okkar maður engum vörnum við komið. Þar sem ég var einni akrein innar á götunni fer ég út af örlítið framan við hann og ekki eins langt niður. Þarna háttar svo til í brattri hlíðinni að á vinstri hönd sér upp snarbratta hlíðina, en hægra megin við veginn er sem fyrr segir feikn breið og mikil vegöxl og heljarmikill veggur, alla vega  þriggja til fjögurra m hár við hægri kant axlarinnar. Ég næ að stöðva hjólið á línunni milli akreinar og vegaxlar og stend þar fastur með hjólið öðrum gír og drep á því. Get ekki lyft fæti til að skella því í fyrsta gír, því þá hefði það fokið á hliðina og ég með. Engin leið að reyna að hreyfa það. Er fastur í vegkantinum og get mig hvergi hreyft, er að berjast við að missa hjólið ekki á hliðina í einstaklega ójafnri baráttu við Kára. Þetta er það sverasta sem ég hef nokkurn tímann lent í á hjóli. Veit bókstaflega ekkert hvað ég á að gera, treysti mér ekki einu sinni til að snúa hausnum aftir til að sjá hvernig félaganum gengur að berjast við náttúruöflin, hræddur um að tapa jafnvæginu í sviftingunum. Ég er algerlega úrræðalaus. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Greinilega er þetta ekki fyrsta og ekki í síðasta sinn sem hjólamenn lenda þarna í sjálfheldu, því þar sem ég hef staðið í fáeinar mínútur í algeru úrræðaleysi, ekur fram fyrir mig bíll og bakkar vindmegin til hliðar við mig. Eftir smá baráttu við að opna bílhurðina upp í storminn, tekst bílstjóranum að mjaka sér út og upp að mér. Segir mér að hann muni aka við hliðina á mér og veita mér skjól á meðan ég mjaki hjólinu áfram við bílhliðina, verstu sviftingarnar nái aðeins næstu 10 metra. Hann heldur í hjólið á meðan ég skipti í fyrsta. Allt gengur þetta eftir, ég næ fáeinum sentimetrum í einu meðfram bílnum og kemst að lokum alveg niður að veggnum þar sem ekki gætti sömu grimmdarlegu hörkunnar í veðrinu og um 100 m neðar voru göng, hart nær 10 km löng og miklu skárra veður handan þeirra. Fararbroddurinn bjargaði sér sjálfur meðfram veggnum en björgunarbíllinn sneri sér strax að næsta hjóli á eftir honum sem komið var í hliðstæða klípu og ég. Nú segir lítið af ferðum okkar annað en að við ökum sem leið liggur eftir hraðbrautinni um einstaklega falleg fjallahéruð, sem við fáum þó lítt notið sökum veðurs. Fáum að vita hjá starfsmanni bensínstöðvar að gott sé að gista í Ogulin, svo við stefnum þangað. Þegar inn í bæinn var komið valdi fararbroddurinn besta hótelið, því honum fannst hann hafa þrælað skrásetjara heldur mikið út þennan daginn, 490 km að stórum hluta í leiðindaveðri, svo ekki sé meira sagt. Á þessu hóteli fengum við skjól fyrir hjólin og afar elskuleg stúlka í gestamóttökunni uppfærði okkur þannig að við gistum í svítu sem var tvöfalt dýrari en herbergið sem greitt var fyrir. Ekki nóg með það, heldur leit hún aldrei til okkar nema brosandi og öll samskipti við okkur átti hún með einstaklega glaðlegu fasi. Hún stuðlaði sannarlega að vellíðan okkar á staðnum og það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var fyrir fjöldamörgum árum með syni mínum að versla í bakaríi hjá afgreiðslustúlku sem var kurteis en afar brúnaþung, að þegar við gengum út úr búðinni segir hann: Mikið hefði birt inni í þessu bakaríi hefði hún brosað.

Kvöldverðinn snæðum við á hótelinu, vel útilátinn að miðevrópskum stíl. Sem við sitjum og spjöllum gefa sig á tal við okkur félagar tveir allslompaðir við næsta borð, sem varla kunna orð í neinu nema króatísku og leggja hart að okkur að setjast hjá sér og þiggja vín og mat. Endum með því að tylla okkur hjá þeim, því þeir voru kátir og við þáðum vínglas þar sem engum mótbárum var við komið heldur einfaldlega hellt í glös handa okkur. Einnig gengu þeir hart að okkur að snæða með sér af feiknarstórum platta, yfirfullum af krásum, en við vorum meira en saddir og reyndum að gera þeim félögum grein fyrir því. Þeir kynntu sig, Ivan og Milan og sátum við hjá þeim drykklanga stund á meðan þeir borðuðu og drukku og sögðu okkur allskonar með miklum hlátrasköllum og handapati og útvarpsvirkinn sem er fantagóður í svona samskiptum svaraði með svipuðu sniði og hvorugur skildi neitt í því sem hinn sagði en allir hlógu rosalega og Ivan og Milan sungu inn á milli og hlógu meira og ég sá þetta allt í einu eins og part úr mynd eftir serbneska leikstjórann Emir Kusturica, gleði, tryllingur, neysla og nautn. Mæli með myndbroti á youtube úr myndinni „Underground“ /trailer til að upplifa stemninguna, en í þeirri mynd hæðist kvikmyndaleikstjórinn að vondum stjórnvöldum heimalandsins.

2.09.

Dagurinn var eiginlega bara akstur í regni. Eftir nokkurn hraðbrautarakstur þurftum við að fara enn einn ofurkræklóttann fjallveginn. Þessi toppaði fjallakræklurnar nú alveg, því nú voru viðvörunarskilti með mynd af mótorhjóli á hliðinni og ökumanni svífandi í loftinu með alla anga úti og hausinn sneri niður og var við það að hlammast þannig á fósturjörðina. Ég sá ekki betur en að svona væri þetta í þurru, engin væta í myndinni á skiltinu.

Sumir vegirnir voru ekki með öllu hættulausir mótorhjólaferðalöngum

Við vorum hins vegar að fara þessa leið í sullandi regni og þoku. Svei mér þá, þetta var ekki það sem ég sá fyrir mér þegar lagt var upp í þægilegan malbikstúr til Istanbúl og einhvern veginn er alltaf gott veður í ferðaplönum. En hvað um það, þjóðvegagleðin verður að hafa sinn gang og aðeins er boðið upp á eina leið, áfram, inn í regnvotar þolraunir vélhjólaknapans. Einhvern veginn hafðist þetta og þolinmóður GS ökuþórinn sem renndi í gegnum regn og bugður af öryggi og festu, hann hinkraði svo bara eftir sínum manni.

Nú komum við inn í Slóveníu og sýndum passan eina ferðina enn, væntanlega í hinsta sinni fyrir heimför með flugi. Nokkru síðar höfðum ekið í gegnum landið og komnir í hádegismat í Austurríki. Svo var bara bein leið í regni og 10-12 gráðu hita, umvafnir náttúrufegurð sem hefði notið sín betur í björtu, ekið næstum viðstöðulaust að bænum Golling til næturgistingar eftir 429 km. Vorum komnir í hús kl 17:45 og bað stoltur fararbroddurinn um að það yrði fært til bókar, í fyrsta sinn á áfangastað fyrir kl 18:00 og var okkar maður ánægður með sig að afreka þetta. Stúlkan sem afgreiddi okkur á hótelinu talaði ágæta ensku með afar sterkum Amerískum hreim, greinilega verið þar í lengri tíma, en undirhreimurinn var ekki þýskur heyrði ég og við eftirgrenslan kom í ljós að daman er hollensk.

3.09.

Léttur dagur, hraðaakstur á hraðbraut frá Golling til Stuttgart, 426 km. Vorum mættir á undan starfsfólki hótelsins í morgunkaffið, en gengum frá farangrinum í hjólin og gerðum klárt á meðan við biðum eftir árbítnum. Veðrið þurrt en aðeins um 15 gráðu hiti og frekar þungbúið. Ókum fyrst nokkuð um alpahéruð, afar fallegt landslag og allt svo snyrtilegt, húsin fín og akrar og tún í fallegu skipulagi og  hvergi ófrágengin blett að sjá. Sá er munurinn eftir að komið er inn á þýskumælandi svæðið, að hér verður allt svo ofur snyrtilegt utan dyra sem innan, t.d. engin lykt á klósettunum, sem maður greiðir glaður 20 cent fyrir. Hef reyndar löngum haldið því fram að Þýskaland sé vanmetið ferðamannaland, alla vega hjá okkur Íslendingum. Eftir viðkomu í BMW búðinni í Stuttgart var haldið heim til Jórunnar systur útvarpsvirkjans, sem þar býr og rekur með sínum manni eina feiknar mikla arkitektastofu í borginni. Hún hafði tekið frí í vinnunni til að undirbúa veislu handa okkur og til að vera á staðnum þegar við mættum, reyndar venju fremur snemma í næturstað. Þessi stórskemmtilega dama er lík bróður sínum að því leyti að hún hefur mörg járn í eldinum og þegar maður heyrir af verkefnum svona öflugs fólks, veltir maður því stundum fyrir sér hvort sumir nái fleiri klukkustundum út úr sólarhringnum en aðrir. Áttum með henni og sonum hennar frábært kvöld með með afburða viðurgjörningi, gleði og stórskemmtilegum umræðum um menn og málefni, en húsbóndinn var því miður ekki á staðnum, þurfti að erindast í Berlin.

Jórunn systir radíóvirkjans ásamt sonum sínum Tjörva og Sölva

4.09.

Árbítur hjá arkitektinum sem var óhress með æðibunuganginn á okkur, að setjast beint á hjólin svona strax eftir morguntrakteringarnar, hafði vonast til að geta varið deginum með okkur, en því var ekki að heilsa, lífið er áframhald. Húshjálpin var mætt það snemma til leiks í þessu húsi að hún var búin að strauja skyrturnar mínar og brjóta saman undirföt og sokka, áður en við komumst á fætur, en þetta hafði farið í þvottavél strax um kvöldið þegar við mættum.

Stefnan var tekin á Düsseldorf, þar sem gott vinafólk býr í fremur kyrrlátu hverfi þó í miðbænum sé. Aksturinn var tíðindalaus hraðbrautarakstur, þægilegur 100-130 km hraði nema í umferðarteppunum, sem virðast vera óhjákvæmilegur fylgisfiskur þess að aka hér um. Náðum góðum tökum á því að sniglast milli bílaraðanna í teppunum og var mikill meirihluti bílstjóra tillitsamur við mótorhjólin og færðu sig ögn til hliðar þannig að hjólin ættu greiða leið hjá. Renndum í hlað á Remscheiderstrasse um 5 leytið og tókum hús á þessum fyrrverandi DDR borgurum, sem flýttu sér vestur fyrir um leið og múrinn féll og hafa skotið hér djúpum rótum. Fyrir kvöldmat fórum við notalegan göngutúr í stórum almenningsgarði sem þarna er í miðbænum í námunda við heimili vina okkar, þar sem eru stór útivistarsvæði, tjarnir, leiksvæði fyrir börn og páfagaukar í trjánum.

Hanna, Martin og Bea með fararbroddinum við listaverk í almenningsgarði í Dusseldorf.

Um þennan garð rennur áin Düssel, afskaplega lítið vatnsfall en engu að síður þorpið kennt við ána og hefur haldið óbreyttu nafni þó þar standi núna 600þús manna glæsileg borg. Ekki eins og í Mosfellssveit, þar sem menn fylltust oflátungshætti þegar íbúum fjölgaði og klíndu „bæjar“ endingu við Mosfellið í stað þess að láta rótgróið heiti sveitarfélagsins standa óbreytt, eins og hér er gert. Þennan dag voru eknir 444 km, að hluta til í gegnum margra km langar umferðarteppur.

5.09.

Góður þýskur morgunverður með rúnstykkjum, brauði og fjölda áleggstegunda og gott bragðmikið kaffi. Síðan aftur út á hraðbraut, því nú vorum við bara að halda heim. Á leiðinni var símað í skipafélögin til að fá „rétt“ verð fyrir flutning á hjólunum heim og gengið frá afhendingartíma á mánudagsmorgni. Þó að maður sé á hraðferð á miklum hraðbrautum, berast manni bæði ilmur og óþefur úr nágrenni götunnar ekki síður en þegar ekið er um minni sveitavegi. Nú er greinilega tíminn þegar mykja er borin á túnin og fór það svo sannarlega ekki framhjá okkur. Samt ekki nándar nærri eins slæmt og hérna um árið þegar við ókum suður Danmörku akkúrat á þeim tíma sem svínaskarna var dreift á gróðurinn til vaxtarauka og hagsældar, einhver versti fnykur sem fyrir vitin ber og ekkert til varnar þegar maður situr á hjólinu, opinn fyrir öllum umhverfisáhrifum. Fylltum tankana í Ottersberg og sem við erum að græja okkur til brottfarar ekur upp að okkur kona og spyr á íslensku hvort við séum Íslendingar. Smá spjall, en okkur láðist að spyrja konuna að nafni. Listakona sem hafði numið sín fræði við listaháskólann í bænum. Hún býr þar ekki nú, heldur einhvers staðar ekki allfjarri og var að fara með dóttur sína til að skrá hana í skólann, en sú hafði verið inni á stöðinni og heyrt á tal okkar.

Þegar á daginn leið og leið okkar lá framhjá stærri borgunum í norðurhluta landsins var ekki hjá því komist á föstudagseftirmiðdegi að lenda í umferðarteppum. Okkur tókst aftur með lagni að sniglast á milli akreina í gegnum aðallega þrjár teppur sem náðu frá um 7 km til um 12 km sú lengsta. Þetta er allt svona fyrsta og annars gírs akstur, en að sjálfsögðu margfalt betra en að standa kjurr eins og bílarnir neyddust til að gera. Enn voru langflestir bílstjórar afar liðlegir og mjökuðu sér til hliðar þegar hjólin birtust í speglum þeirra, en einstaka ökumaður var sko ekki á því að hleypa hjólunum framhjá, sem bjargaðist þó ávallt fyrir tillitssemi ökumanns við hliðina á þeim styrfna. Einn svona óliðlegur á smá Hondu hélt sér alveg upp við akreinarlínu og ætlaði ekki að leyfa okkur að komast hjá, en á akreininni við hliðina var myndað handa okkur pláss. Þar sem kverúlantinn var nú eiginlega sá þverasti sem við ókum hjá, leit ég svona aðeins aftur um leið og ég slapp framhjá, svona rétt í augun á honum í gegnum framrúðuna og þá kom hann með sitt síðasta útspil og flautaði argur svo ekki misskildist: „mótorhjól hafa hér engan forgang, þið eigið sko að taka út þjáningu umferðarteppunnar ekkert síður en við“. En svona er nú það, menn sitja ekki alveg alltaf við nákvæmlega sama borð. Þar sem við þurftum sem sé ekki að bíða alla klukkutímana með ökumönnum bifreiða í þessum þremur umferðarteppum, náðum við 526 km þennan daginn og áðum í Neustadt, skammt sunnan við Rödby þar sem ferjan flytur mann yfir til Danmerkur. Duttum inn á hótel sem útvarpsvirkinn hafði gist á áður. Rifjaðist þá upp fyrir mér að við tveir höfðum stoppað í þessum bæ og þar sem við sátum að snæðingi gaf sig á tal við okkur kona sem kom í ljós að var systir Elke Gunnarsson þýskrar vinkonu móður minnar í Holtunum í Rangárvallasýslu. Svona er nú heimurinn lítill og ekki kæmi mér á óvart þó hnattfarinn rækist einhvers staðar á einhvern sem hefur tengingu við einhvern sem hann þekkir eða veit hver er, þó að hann sé fjarri öllum okkar fjárgötum.

Síðasti málsverðurinn í Þýskalandi

6.09.

Nú var bara stuttur akstur til systur minnar í Ishöj sem ætlar að skjóta yfir okkur skjólshúsi, svo fararbroddurinn var alveg sultuslakur um morguninn. Fór í það að kaupa flugmiða heim og hafðist vandræðalaust þrátt fyrir ekki allt of öflugt netsamband á hótelinu. Síðan var þetta bara þægilegt rúll í ferjuna, duttum beint inn og skipið af stað. Nákvæmlega engin bið sem manni finnst alltaf þakkarvert. Svo trilluðum við þetta upp eftir og renndum í hlað hjá henni um hádegisleytið eftir 209 km akstur og höfum þá lagt að baki í þessari ferð 8.355 km. Nú er hins vegar hinn hugumstóri vinur okkar og félagi samkvæmt plani að aka gegnum Íran, sem ég trúi sé einstök upplifun og skemmtileg. Þó að okkar stutti túr sé svo gott sem að baki, dvelur hugurinn óneitanlega áfram hjá hnattfaranum og ævintýrum hans. Bíðum við ávallt spenntir eftir merkjasendingum um hvernig okkar manni reiðir af austur í heimi hinnar markverðu fortíðar.