Þar sem árbítur yrði ekki fram borinn fyrr en um hálfníuleytið, en við vaknaðir um hálfsjö að vanda, þá var einfaldlega pakkað og haldið af stað. Ekki var nema 8 stiga hiti þarna í 2.300 m hæð, en fór ört hækkandi, hélst lengi í 18-20 gráðum en síðdegis skreið hann yfir 30 stigin og nutum við þá vindkælingar á hraðferð eftir breiðstrætunum í þetta 1600 – 1900 m hæð yfir sjó.
Morgunmat fengum við okkur á þjónustumiðstöð við veginn eftir að hafa ekið liðlega 100 km. Staðurinn sem við fórum á, var einhvern vegin mjög óþesslegur að þar fengist neitt nema kannski te og kaffi, en geðþekkur afgreiðsludrengur sat við skrifborð og við hliðina á honum stóð á litlu borði svona einsbolla kaffivél, sem lofaði góðu.
Hann talaði enga ensku, en mæðgur sem höfðu matast þarna og voru að yfirgefa staðinn komu til aðstoðar, þ.e.a.s. dóttirin skildi nóg til að panta fyrir okkur eggjahræru með tómötum, brauð, ost og kaffi. Þetta var fyrsti kaffibollinn, sem ekki var neskaffi, síðan hjá þeim BMW mönnum í Konstantínópel og fór það einstaklega vel í mann, aukinheldur sem árbíturinn allur var ljómandi góður hjá því elskulega fólki sem þjónustaði okkur, piltinum, mömmu hans og ömmu.
Þarna líðum við síðan áfram, hitinn afar þægilegur svona árla dags, vegirnir að mestu fínir og náttúran gleður augað. Aðeins bíll og bíll á ferð framan af degi, við erum næstum einir á götunni og hjólin mala eins og mettir kettlingar, eru sem á sjálfstýringu og maður svífur gegnum landslagið, mér liggur við að segja „yfir“ foldina í áttina að frekari ævintýrum.
Sjálfum finnst mér vanta aðeins fleiri landslagsmyndir í safnið og læt því eftir mér að stoppa tvisvar með stuttu millibili þegar við ökum í námunda við fjöll, nógu nærri til að þau greinist vel á myndum. Fararbroddurinn sér að í þessu landslagi gætu stoppin orðið fleiri og sendir mig fram fyrir. Þegar ég hef tafið ferðina með fáeinum stoppum til viðbótar tekur hann aftur forystuna, enda með maps me leiðsögnina á hjólinu.
Um miðdegisleytið eru 300 km að baki og ljóst að við komumst lengra þennan daginn en upphaflega var ætlað. Ég skynja það á mínum manni að hann er farinn að gæla við hugmyndina um að komast alla leið í höfuðborgina, sem eru hátt á fjórðahundrað km í viðbót. Það ræðst nú af því hve tafsamt verður að komast í gegnum þá bæi sem leið okkar liggur um og hversu góðir vegirnir sjálfir eru. Þó langir kaflar séu sléttir og fínir þá koma aðrir kaflar ekki síður langir þar sem malbikið er slitið, bætt og stagað, bæði öldótt og holótt og þarf þá að fara hægar um og varlegar.
Í akstursgleðinni þótti ekki ástæða til að stoppa í miðdegissnarl fyrr en klukkan var langt gengin í þrjú. Þar sem við sitjum og bíðum eftir fæðinu, renna tvö mótorhjól á planið og kennum við þar náunga frá Sviss sem við höfðum rétt náð að heilsa á landamærunum við komuna í landið. Snæðum við saman og upplýsist þá að reiðmenn þessara Svissmerktu hjóla eru Írar, feðgar sem búsettir eru í Genf. Faðirinn ætlaði að snúa við hér í Persíu, en sonurinn var á leið um Pakistan til Indlands.
Er við lögðum af stað reiknuðum við með að aka liðlega helminginn af leiðinni til Teheran og settum markið á borg í samræmi við það. Þegar þangað er komið lifir enn mikið af deginum, svo aftur er slegið undir nára. Enn eru um 100 km eftir í áfangastað þegar farið er að rökkva og nokkuð ljóst að ef við höldum áfram munum við lenda í umferðarþvögu bæjarins eftir að myrkur er skollið á, sem er óþægilegt fyrir náttblindan. Engu að síður finn ég það á samferðungnum hvað hann langar til að eiga einn svona alvöru hjóladag, mikinn akstur og marga km inn á hjólið, maður skynjar óþreyjuna og keppnisandann, þörfina á að komast áfram, hafa afrekað eitthvað. Þetta andaði sterkt frá kappanum og í raun, þegar allt kemur til alls í svona för, þá er þjóðvegaánægjan aðall hennar og hápunktur. Þetta vita þeir sem hlustuðu á umferðarþættina um Jónas og fjölskyldu með Bessa heitnum Bjarnasyni í ríkisútvarpinu á síðustu öld.