Ferjan til Hirtshals

Vöknuðum tímanlega, tæmdum vistarveru okkar og hófum svo bið eftir því að ferjan leggðist að bryggju í Hirtshals. Um ellefuleytið runnu hjólin úr skipsskrokknum yfir á danskt malbik. Brunuðum sem leið lá um danska jafnsléttu, framhjá kornökrum, maísökrum og grænmetisgörðum, staðarlegum stórbýlum og nýábornum túnum þar sem skelfilegur skarnafnykurinn fyllti vitin. Þóttumst sælir að þessi óværa var ekki viðvarandi og komumst við óskaddaður í gegnum þennan þátt dansks landbúnaðar. Við vorum óþreyttir og slóum því undir nára, lögðum gömlu herraþjóðina að baki og stungum okkur vel niður í Slesvig og Holsetaland. Radíóvirkinn mundi eftir Vindmillunni, hóteli sem við höfum gist á áður og var ekki stoppað fyrr en þar var rennt í hlað. Heppnir, þar voru laus herbergi, en aðeins eins manns. Fengum sitt hvort verelsið, á sama verði og ég greiddi fyrir svefnpokapláss í Landmannalaugum fyrir 4 árum. Mér skilst að verð á þeim hafi hækkað verulega síðan.

Byrjuðum á að skola af okkur svitann eftir að hafa ekið um kappklæddir í yfir 30 stiga hitanum hér. Ekki ónýtt að geta breitt úr sér og öllu sínu án tillits til nokkurs manns í þessu vel rúma zimmer nr 153. Smá hvíld fyrir matinn og svo niður á huggulegt patíóið í kvöldskattinn. Þar sem við vorum nú komnir í schnitsel-beltið, þótti ekki við hæfi að fá sér neitt annað en Jaeger-schnitsel með sveppasósu og salatskál. Þegar þessum standard þýskrar matargerðar hafði verið hesthúsað undir pergólu úti á verönd stóðumst við ekki freistinguna að fá okkur eftirrétt, kirsuberjatertu með þeyttum rjóma. Var desert þessi á sama verði og prinspólókex í sjoppu á Íslandi. Mettir og morrandi skreið síðan hvor inn í sitt kamesi. Eknir 527 km.